Ágætis sumar í Hekluskógum

Þrátt fyrir að heldur voraði seint í Hekluskógum þetta vorið hefur sumarið verið ágætt fyrir trjávöxt og gróður almennt. í vor gróðursettu landeigendur, verktakar og sjálfboðaliðar um 20150817_162027210 þúsund birkiplöntur víðsvegar um starfssvæði Hekluskóga og virðast þær plöntur dafna vel. Nú styttist í haust gróðursetningu í Hekluskógum og er stefnt á að setja niður 50-70 þúsund plöntur.

Verkefnisstjóri dreifði í vikunni töluvert af birkifræi sem dregist hafði að dreifa og var fræinu dreift á eyrar við Tungná, en eftir að vatni Tungnár var að mestu beint í gegn um Búðarhálsvirkjun hefur vatnsmagn í ánni minnkað mjög neðan Hrauneyja og hafa eyrar byrjað að gróa upp. Eru þessi svæði afar vænleg til birkisáninga og er stefnt að meiri sáningu í haust. 20150817_160424Töluvert er af fræi á birki í Hekluskógum þetta haustið og víðar um Suðurland og er stefnt að fræsöfnun þegar líður á september og verður því sáð á svipuðum slóðum. Eru þessi svæði í um 320 m.h.y.s. og þrífst birki vel á þessum slóðum.

Víða um Hekluskógasvæðið er birki í mikilli sókn og hafa skógar breiðst út t.d. efst í Landsveit á hraunum sem áður voru að mestu ógróin og að mestu vikrar fyrir um hálfri öld síðan. Hafa stór svæði verið grædd upp sér í lagi af Landgræðslu, en einnig fleiri aðilum s.s. bændum á svæðinu, sumarhúsaeigendum, Skógrækt ríkisins og skógræktarfélögum og sáir birkið sér út í þessi svæði.IMG_8572

Á myndunum hér til hliðar og að neðan sjást nýgræður af birki í Skarfanesi á Landi þar sem Skógrækt ríkisins hefur staðið að beitarfriðun og skógrækt síðan um 1940. Á neðri myndinni sést hvernig birkið er að nema land í landi 20150702_144007Skógarkots þar sem Landgræðslan hefur unnið að uppgræðslu síðan um miðja 20. öldina.

Með sama áframhaldi mun birkið nema land mun víðar á starfssvæði Hekluskóga á næstu árum og áratugum.

Vorverkin langt komin

IMG_8171

Kjötmjölsdreifingarsvæði Þjórsárdal

Eftir eina hina köldustu vorkomu frá stofnun Hekluskóga er tekið að hlýna og grænka. Trjágróður lítur ágætlega út eftir stormasaman vetur, en nokkuð víða hafa vindar valdið rofi á melhólum, vikrum og rofabörðum. Snjóþyngslin hlífðu trjám, jarðvegi og gróðri nokkuð sér í lagi inn til landins.

Eitt af fyrstu vorverkunum var að dreifa kjötmjöli og sá Georg á Ólafsvöllum um það verk, ásamt Vendli á Flúðum sem flutti mjölið frá Orkugerðinni í Hraungerði upp í Þjórsárdal. Alls var dreift 150 tonnum af mjöli í samvinnu við Landsvirkjun og var dreifingarsvæðið þetta sumarið austan við Þjórsárdalsveg norðan og sunnan við gamla Hjálparfossslóðann.

IMG_8334Gróðursetning hefur gengið vonum framar og hafa þátttakendur verið duglegir að gróðursetja eins og undanfarin ár. Verktakar og hópar ýmiskonar hafa einnig tekið að sér gróðursetningu og eru flestar plöntur að verða komnar í jörðu. Síðustu þúsundirnar verða settar niður á næstu dögum og farið inn á efri hluta starfssvæðisins en þar er snjór nú bráðnaður. Reiknað er með að gróðursettar verði a.m.k. 210 þúsund plöntur þetta vorið og stefnt á um 60-70 þúsund í haust.

IMG_8395Starfsmenn Landgræðslu ríkisins dreifa þessa dagana rúmlega 21 tonni af tilbúnum áburði yfir um 150 ha af eldri gróðursetningasvæðum Hekluskóga á efri hluta starfssvæðisins. Er þetta kærkomið og á eftir að hjálpa plöntum á legg. Er aðallega um að ræða dreifingu yfir svæði sem hafa verið gróðursett með gróðursetningarvél Asterix ehf og eru auðveld yfirferðar.

Styrkir fengust úr sérstöku átaki ríkisstjórnar Íslands í skógrækt og landgræðslu. Annars vegar fengu Hekluskógar styrk upp á 2 mkr til sérstaks átaksverkefnis í uppgræðslu með kjötmjöli og gróðursetningu og hins vegar fékkst styrkur frá sama verkefni í gegn um Landgræðslu ríkisins upp á 1,2 mkr til sáninga og uppgræðslu í kring um Vaðöldu. Verður unnið að þessum verkefnum á næstu vikum, en verkfall hefur sett strik í reikninginn varðandi kjötmjölsdreifingu og ekkert verið framleitt af því eftir að verkfall hófst. Má reikna með að bíða þurfi fram á haust með hluta framkvæmda vegna þessa.

Styrkir hafa borist til verkefnisins úr fleiri áttum og má þar helst telja framlag frá ýmsum aðilum í gegn um móttökustöðvar Endurvinnslunnar, en þar getur almenningur valið að styrkja Hekluskóga. Þýskur hópur styrkti verkefnið um rúmlega 700 þúsund kr og mun hann heimsækja verkefnið og gróðursetja trjáplöntur á næstu dögum.

Ferðaklúbburinn 4×4 heimsótti Hekluskógaverkefnið enn eitt árið og vann þetta árið að uppgræðslu SA megin á Þórðarholti í Þjórsárdal eins og má sjá hér: http://www.f4x4.is/myndasvaedi/myndir-ur-uppgraedsluferd-2015/. Nokkrir mótorhjólaklúbbar hafa unnið að uppgræðslu bæði í Vaðöldu og norðan Hrauneyjavegar síðustu ár og hér má sjá tengil á það verkefni: https://www.facebook.com/pages/M%C3%B3torhj%C3%B3lask%C3%B3gurinn/860266867380532?fref=ts

Hér má sjá myndir af hluta þeirra hópa og verktaka sem starfað hafa með Hekluskógum þetta vorið.

IMG_8166

Hér var unnið að gróðursetningu sunnan Sultartangalóns og byrjað um leið og frost fór úr jörðu. Sveinn Víkingur Þorsteinsson vann hér ásamt Helga bróður sínum.

IMG_8185

Frá starfsdegi í Mótorhjólaskóginum 16. maí.

IMG_8190

Frá starfsdegi í Mótorhjólaskóginum. Skutlur mættar á svæðið.

IMG_8318

Starfsfólk úr Leikskólanum Örk á Hvolsvelli.

IMG_8325

Hér er hópur Bandaríkjamanna sem komu á vegum CELL og hafa komið undanfarin 6 ár og unnið að gróðursetningu, fræsöfnun, áburðardreifingu ofl.

IMG_8413

Guðjón Helgi Ólafsson ásamt Einari Páli Vigfússyni við gróðursetningarvél í Þjórsárdal.

IMG_8418

Séð yfir svæði þar sem kjötmjöli var dreift fyrir nokkrum árum. Rendurnar eftir dreifarann mynda varanlega gróðurhulu á rýrum vikrinum.

IMG_8421

10 ára gömul birkitilraun sem sett var á sanda Þjórsárdals og eru hæstu tré nú komin í rúmlega mannhæð.

Samantekt af málþingi um Hekluskóga

Málþing um Hekluskóga var haldið í Gunnarsholti 16. apríl 2015, var málþingið ágætlega sótt og mættu milli 50-60 gestir á þingið. Málþingið hófst með því að Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá tilurð Hekluskóga. Tilefni þess að málþingið var haldið er að 10 ár eru síðan undirbúningur Hekluskóga hófst af fullum krafti með skipun samráðsnefndar um Hekluskóga sem vann að undirbúningi verkefnisins. Áður hafði nefnd á vegum Landgræðslu ríkisins starfað í tvö ár að undirbúningi verkefnisins. Hekluskógar tóku formlega til starfa í maí 2007 þegar samningur um verkefnið var undirritaður.

Hekluskógar eru verkefni sem snýst um að græða upp land og rækta birkiskóg. Markmiðið er að koma upp birkilundum sem víðast um hið víðlenda starfssvæði Hekluskóga sem nær yfir 90 þúsund ha svæði frá Gunnarsholti í suðri allt upp í Sigöldulón í norðri. Munu þessir birkilundir smám saman sá sér út yfir landsvæðið af sjálfsdáðum og binda öskufok sem verða mun þegar Hekla gýs. Þannig munu skóg og kjarrlendin vernda byggðir og ræktarlönd í lágsveitum.

Á málþinginu voru flutt fræðandi og skemmtileg erindi. Var farið yfir starf verkefninsins síðustu árin og hvernig framkvæmdir hafa verið skráðar í kortagrunn. Einnig var farið yfir starf Landgræðslunnar sem unnið hefur að uppgræðslu á Hekluskógasvæðinu í áratugi. Sagt var frá útbreiðslu birkiskóga og kom fram í máli Björns Traustasonar frá Mógilsá að birkiskógar hefðu náð meiri útbreiðslu á Hekluskógasvæðinu á síðustu áratugum en víðast hvar á landinu. Sagði Friðþór Sófus Sigurmundsson frá öskugosum í Heklu og spáði til um framtíðina, en hann fjallaði einnig um eyðingu birkiskóga í Þjórsárdal. Sveinn Sigurjónsson á Galtalæk 2 sagði frá reynslu sinni sem landeiganda í baráttunni við jarðvegsfok og störfum sínum að uppgræðslu. Sagt var frá rannsóknaverkefnum sem hafa verið gerð í tengslum við Hekluskógaverkefnið á síðustu árum af Ásu L. Aradóttur prófessor við LBHÍ. Heiða Gehringer sagði frá rannsókn sinni á líffræðilegum fjölbreytileika þar sem fram kom að aukning væri á bæði skordýralífi og fuglalífi á grónu landi samanborið við ógróið land. Elín Fjóla Þórarinsdóttir sagði frá mælingum á öskufoki á Hekluskógasvæðinu og möguleikum á að nýta þekkingu á öskufokinu til að skipuleggja uppgræðslustarf.

Þessa dagana er verið að undirbúa gróðursetningu vorsins, en vorkoman er heldur seinni á ferðinni en síðustu ár. Verkefnið stefnir að gróðursetningu um 280 þúsund plantna í ár og mun aukning verða á áburðardreifingu bæði kjötmjöli og tilbúnum áburði. Landgræðsla ríkisins mun styðja við verkefnið með áburðardreifingu yfir eldri gróðursetningasvæði þetta vorið sem er kærkomið. Fjöldi sjálfboðaliðasamtaka heldur áfram stuðningi við verkefnið sem og þeir rúmlega 210 landeigendur sem hafa gert samning við verkefnið. Má því segja að verkefnið sé á góðri siglingu þessi árin.

Hér má sjá upptökur af erindum af málþingi Hekluskóga sem haldið var 16. apríl 2015. Hekluskógar vilja þakka öllum fyrirlesurum kærlega fyrir erindi sem og þeim sem aðstoðuðu við málþingið, sér í lagi Áskeli Þórissyni fyrir kynningu og Þorsteini Kristinssyni fyrir upptökur af málþinginu.

Dagskrá

11:00  Gestir boðnir velkomnir. Sveinn Runólfsson.

11:10 Endurheimt vistkerfa – hvers vegna, hver og hvernig?  Björn H. Barkarson.

11:25 Hvað hefur gerst og við hverju má búast eftir gjóskugos?  Friðþór S. Sigurmundsson.

11:45 Uppgræðsla Landgræðslunnar á Hekluskógasvæðinu.  Sveinn Runólfsson.

12:45 Útbreiðsla og eyðing birkiskóga í Þjórsárdal.  Friðþór Sófus Sigurmundsson.

13:05 Hekluskógaverkefnið – saga, aðferðir, framkvæmdir, árangur og framtíð.  Hreinn Óskarsson.

13:35 Kortlagning framkvæmda.  Ívar Örn Þrastarson.

13:50 Reynslusaga landeiganda. Sveinn Sigurjónsson.

Rannsóknir á Hekluskógasvæðinu

14:05 Yfirlit yfir rannsóknir fyrir Hekluskóga.  Ása L. Aradóttir og Guðmundur Halldórsson.

14:25 Birkiskógarnir breiðast út að nýju!  Björn Traustason.

14:45 Líffræðilegur fjölbreytileiki í Hekluskógum: Hlutverk jarðvegseyðingar og framvindu. Heiða Gehringer.

15:00 Sandburður á Hekluskógasvæðinu. Elín Fjóla Þórarinsdóttir.

Málþing um Hekluskóga 16. apríl 2015

Athugið breytta tímasetningu á málþinginu. Það hefst kl. 11:00 og stendur til kl. 16:00. Boðið verður upp á súpu og brauð í hádeginu. Skráning á ráðstefnuna fer fram í tölvupósti til Eddu Linn Rise á netfangið eddalinn@land.is. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig sem fyrst.

Hekluskógar málþing 2015b

Öskufok á skóglausri Skógaheiði í kjölfar Eyjafjallajökulsgoss

Fyrir rúmum tveimur árum birtist grein nokkurra vísindamanna, þeirra Olafs Arnalds, Elínar Fjólu Þórarinsdóttur, Jóhanns Þórsson, Pavla Dagsson Waldhauserova og Önnu Mariu Ágústsdóttur sem fjallaði um mælingar á öskufoki á Skógaheiði í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Greinina má finna hér: http://www.nature.com/srep/2013/130213/srep01257/full/srep01257.html. Fjallað var um greinina og niðurstöður hennar í Fréttablaðinu http://www.visir.is/maeldu-staersta-sandstorm-a-jordinni-uppi-a-skogaheidi/article/2015150218880 og á vef Landgræðslu ríkisins http://land.is/allar-frettir/313-maeldu-staersta-sandstorm-a-joerdhinni-uppi-a-skogaheidhi og á vef Skógræktar ríkisins http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/2426. Eins og fram kom í greininni fýkur aska gjarnan þar sem gróður er lítill t.d. á beitilöndum á Skógaheiðinni og skemmir hún þann litla gróður sem fyrir er. Þetta gerist ekki þar sem gróður er mikill og skógur hylur land. Það kom glögglega í ljós í gosinu í Eyjafjallajökli að aska úr Eyjafjallajökli gerði ekki skaða á skóginum og gróðri í Þórsmörk og Goðalandi. Var askan beinlínis til gagns þar sem ýmis næringarefni bárust inn í vistkerfið og gróska í ýmsum gróðri jókst mikið. Líklega hafði svartur litur öskunnar góð áhrif þar sem jarðvegur hitnaði og rotnun á laufi og gróðri sem lenti undir ösku jókst og skilaði þannig næringarefnum til gróðurs. Hekluskógar eru einmitt að vinna að því verkefni að koma upp skógi í nágrenni Heklu eins virkasta eldfjalls á Íslandi, enda er ljóst að aska úr eldfjallinu mun valda skemmdum falli hún á gróðurlítil lönd, en jafnljóst að skógar þola öskuna ágætlega og hún mun ekki fjúka í skjóli skóganna.

Þórsmörk 2010 ljósm. Hreinn Óskarsson

Skógar Þórsmerkur huldir ösku í maí 2010 ljósm. Hreinn Óskarsson