Fjöldi landeigenda tekur þátt í Hekluskógaverkefninu og hafa margir þeirra náð undraverðum árangri í ræktun birkiskóga, á örfáum árum oft og tíðum á afar rýru landi. Einn þeirra er Benedikt Benediktsson og fjölskylda sem eiga landspildu syðst í landi Svínhaga á Rangárvöllum, rétt ofan Bolholts.
Benedikt hófst handa við uppgræðslu og gróðursetningu á afar rýru og skjóllausu berangri árið 2006. Frá upphafi hefur verið hlúð að plöntunum með áburðargjöf og hafa þær að mestu sloppið við áföll á fyrstu árunum. Árangurinn er góður og eru hæstu birkiplönturnar komnar á þriðja meter í hæð og eru í góðum vexti. Hafa plönturnar borið fræ og er þegar farið að sjást sjálfsáið birki í næsta nágrenni við elstu birkiplönturnar. Hekluskógar þakka Benedikt og fjölskyldu hans kærlega fyrir samstarfið á liðnum árum. Aðrir þátttakendur í Hekluskógum eru hvattir til að senda verkefnisstjóra myndir og sögur af árangri við ræktun birkiskóga. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð hvernig breyta má eyðisöndum í vöxtuglega skóga.
Auður Benediktsdóttir gróðursetur birki í sandinn árið 2006.
Auður við sömu plöntur árið 2011.
Árið 2014 var skógurinn farinn að gefa skjól og hentar vel til útivistar.
Yfirlitsmynd af svæðinu árið 2006.
Mynd tekin á sama stað árið 2014.
Hér er Benedikt með mælistikuna í einum af elstu birkilundunum árið 2014.
Pingback: Hekluskógar – starf ársins 2015 | Hekluskógar