Fréttir frá 2005

Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2005 (þær yngstu efst).

Fréttir ársins 2005

Framlag til Hekluskóga á fjárlögum 2005 (14.12.2005)

Alþingi ákvað við afgreiðslu fjárlaga að úthluta Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins 7 milljónum hvorri stofnun, til að vinna að framgangi Hekluskógaverkefnisins. Nú stendur yfir vinna við skipulagningu næsta árs. Vill samráðsnefnd þakka Alþingi fyrir þetta mikilvæga skref í því að gera verkefnið að veruleika.

Heklugos innan 4 ára? (Fréttin birt á vef RÚV: 02.12.2005)

Jarðvísindamenn segja talsverðar líkur á að Heklugos verði heklugosá næstu 4 árum. Nýjar niðurstöður rannsókna sýna fram á að Hekla hefur sérstöðu meðal íslenskra eldfjalla. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands segir að síðasta Heklugos hafi veitt mönnum nýja sýn á innviði fjallsins. Kvikuhólf Heklu liggi mun dýpra en í öðrum eldfjöllum, en upp úr kvikuhólfinu liggur fremur mjó pípa, eða gangur sem kvikan fer upp eftir þegar gýs. Gossprungurnar í Heklu rista líka fremur grunnt, aðeins í efstu einum eða tveimur kílómetrum jarðskorpunnar. Freysteinn segir að með þessari nýju mynd af innviðum Heklu fáist í raun skýring á því hvers vegna svona erfitt hefur verið að segja fyrir um hegðun eldfjallsins. Freysteinn segir að undanfarin ár hafi menn verið tiltölulega rólegir yfir Heklu enda aðeins 5 ár síðan fjallið gaus síðast. Nú sjáist hinsvegar merki þess að kvika sé farinn að safnast fyrir undir fjallinu og þrýstingurinn sé jafnvel orðinn svipaður og fyrir síðasta gos.

Nýr vefur um Hekluskóga (28.11.2005)

Kominn er ný vefsíða www.hekluskogar.is sem fjalla mun um Hekluskógaverkefnið. Enn er unnið að viðbótum á vefnum og athugasemdir má senda á Hrein Óskarsson hreinn@skogur.is sem gert hefur vefinn.