Fréttir frá 2006

Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2006 (þær yngstu efst).

Verkefnisstjóri Hekluskóga hættir (18.12.2006)

Björgvin Örn Eggertsson verkefnisstjóri Hekluskóga hættir störfum um áramót. Í ljósi þess hversu lágt framlag var veitt til verkefnisins á fjárlögum ársins 2007 taldi stjórn verkefnisins ekki grundvöll fyrir því að hafa starfsmann í fullu starfi við það. Mestum hluta þeirrar undirbúningsvinnu sem þörf var talin á lauk á árinu 2006 og því minni vinna við verkefnið yfir vetrartímann en ella. Stjórn Hekluskóga þakkar Björgvini fyrir störf sín í þágu verkefnisins síðustu misseri.

Ekki er ljóst á þessari stundu hver mun stjórna verklegum framkvæmdum sumarið 2007, en reynt verður að fá verktaka af Hekluskógasvæðinu til gróðursetningar og áburðardreifingar.

Nóvember stormasamur á Hekluskógasvæðinu (1.12.2006)

fok_nóv_061

Síðustu vikur hafa ríkt hvassar austan og norðaustanáttir á landinu. Í slíkum vindáttum myndast kröftugir vindstrengir í kring um Heklu.

Að sögn Sveins Sigurjónssonar á Galtalæk hefur mikil jarðeyðing orðið á ógrónum svæðum, en lítið sem ekkert fýkur þar sem uppgræðsla hefur tekist vel.

Við vonum að vel gangi að efla Hekluskóga verkefnið á næstu árum svo slíkar náttúruhamfarir verði fáséðari. Á myndinni má sjá glitta í Búrfell frá Merkihvoli í gegn um sortann.  Ljósm. Hreinn Óskarsson.

Breytingar á stjórn Hekluskóga (1.12.2006)

Í haustbyrjun urðu breytingar á stjórn Hekluskóga. Ása L. Aradóttir sem hefur verið formaður samráðshóps um Hekluskóga frá upphafi hætti, vegna þess að hún tók við nýju starfi sem prófessor í landgræðslu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Í stað hennar tók við formennsku Guðmundur Halldórsson sérfræðingur á Mógilsá. Ása tekur sæti Landbúnaðarháskólans í samráðshópnum, en nýr fulltrúi landgræðslunnar verður Magnús Jóhannsson sérfræðingur. Sigurður H. Magnússon tók einnig sæti í samráðsnefndinni sem fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nánari upplýsingar um stjórnir og nefndir Hekluskóga má sjá hér. Á döfinni eru enn meiri breytingar á stjórnum og nefndum enda hafa sumar nefndir skilað sínu hlutverki og eru því að verða óþarfar.

Rannsóknaverkefni í undirbúningi (29.11.2006)

Nokkur rannsóknaverkefni eru í undirbúningi í tengslum við Hekluskógaverkefnið auk þeirra rannsókna sem nú þegar eru í vinnslu á svæðinu. Helstu verkefni sem í undirbúningi eru: Vatn og vatnalíf þar sem skoðuð verða langtímaáhrif uppgræðslu og skógræktar á vatn og vatnalíf. Verkefnið er samstarfsverkefni nokkurra stofnana. Kolefnisbinding við uppgræðslu og skógrækt – á hugmyndastigi með próf. Bjarna D. Sigurðssyni hjá Landbúnaðarháskólanum og Brynhildi Bjarnadóttur á Mógilsá. Hugmyndirnar snúa að nýtingu á tækjabúnaði sem mælir raunverulegan kolefnisjöfnuð á landi sem breytist úr auðn í skóg.

14 milljóna framlag til Hekluskóga eins og síðasta ár (23.11.2006)

Samkvæmt tillögum fjálaganefndar fá Hekluskógar 14 milljónir kr til verkefnisins árið 2007. Er þetta fjármagn minna en búist var við í verkefnið og beðið var um. Fundur verður haldinn á næstu vikum hjá samráðsnefnd um Hekluskóga þar sem rætt verður hvernig verja á fjármununum.

Fjárlagafrumvarp 2007 án framlags til Hekluskóga (3.10.2006)

Í fyrstu drögum að fjárlagafrumvarpi ársins 2007 kemur fram að 14 milljón króna framlag sem veitt var til undirbúnings Hekluskógaverkefnisins verði fellt niður. Eru þetta vondar fréttir bæði fyrir íbúa á svæðinu, sem og þá sem lagt hafa allt kapp á að undirbúa verkefnið sem best. Ekki er þó öll von úti. Fjármögnunarhópur mun funda með fjárlaganefnd og er ekki ólíklegt að það skili áframhaldandi framlagi.

Fræsöfnun fyrir Hekluskóga í Bolholti á Rangárvöllum (29.09.2006)fretti1

Síðastliðinn miðvikudag komu nemendur af náttúrufræðibrautum við Menntaskólann á Laugarvatni og Fjölbrautaskólann á Suðurlandi á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Rangæinga í Bolholti. Markmið ferðarinnar var að safna nægu birkifræi til að tryggja nægt fræ til plöntuframleiðslu fyrir Hekluskógaverkefnið. Töluvert var af vel þroskuðu birkifræi á svæðinu og náðu nemendurnir að safna meira en nægu fræi fyrir verkefnið.

Þessi ferð er hluti af umfangsmeira samstarfi skólanna við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Suðurlandsskóga sem verið hefur í gangi undanfarin ár. Nemendur skólanna hafa heimsótt stofnanirnar á hverju ári og/eða fulltrúar stofnananna hafa heimsótt skólana og frætt þau um skógrækt og landgræðslu. Haustblíða var þegar nemendurnir heimsóttu Bolholt.

Gróðursetning í tilraunaskyni á Hekluskógasvæðinu (14.06.2006)

Undanfarnar tvær vikur hefur verið unnið að gróðursetningu birkis og víðis í tilraunareiti víðsvegar um ofanvert Hekluskógasvæðið. Í tilrauninni er verið að prófa mismunandi aðferðir við svepprótasmitun, mismunandi form á trjálundum og gróðursetningu í mismunandi gróðurlendi. Sumarfólk Landsvirkjunar, verktakar, sjálfboðaliðar og starfsfólk Skógræktar ríkisins vinnur að gróðursetningunni. Eru allir reitir skráðir í kortakerfi svo hægt sé að fylgjast með framvindu reitanna næstu árin. Birkiplönturnar koma frá Tumastöðum í Fljótshlíð en víðigræðlingana klippti Björgvin verkefnisstjóri flesta sjálfur. Mikil úrkoma síðustu daga eykur lífslíkur plantnanna á erfiðum og þurrum vikrum.

Pokasjóður styrkir heimildamynd um Hekluskóga (20.05.2006)

Í dag verður ProFilm afhentur styrkur frá Pokasjóði upp á 500.000 kr til að vinna að heimildarmynd um Hekluskógaverkefnið. Að sögn Önnu Dísar og Jóhanns hjá ProFilm gerir þetta þeim kleift að vinna myndina betur og bæta inn grafík sem sýnir t.d. hvernig landið á Hekluskógasvæðinu gæti litið út eftir 50 ár. Hekluskógar óska ProFilm til hamingju með styrkinn.

Hekla hf styður við Hekluskóga (16.05.2006)

HEKLA hf. afhenti í vikunni nýjan Mitsubishi L-200 til Hekluskóga en fyrirtækið hefur í gegnum tíðina stutt við skógrækt á ýmsa vegu. “Hekluskógar eru okkur mjög kært verkefni enda tengjast fyrirtækið og eldfjallið Hekla sterkum böndum þar sem við höfum fengið Heklu-nafnið að láni frá því fyrirtækið var stofnað 1933” segir Knútur G. Hauksson forstjóri HEKLU. “Við vonum að þessi nýi L-200 pallbíll nýtist þeim vel við verkefnið enda hentar hann vel í verkefni sem þetta sem traustur og góður vinnubíll og fer um leið vel með þá sem í honum aka.”

IMG_4536_litil

Knútur G. Hauksson forstjóri HEKLU afhendir Björgvini Eggertssyni, verkefnastjóra Hekluskóga nýjan Mitsubishi L200 til afnota fyrir Hekluskógaverkefnið.

Landgræðslusjóður styður við Hekluskóga (18.04.2006)

Á stjórnarfundi Landgræðslusjóðs sem haldinn var 12. apríl síðastliðinn var ákveðið að veita Hekluskógum tveggja milljón kr styrk til áframhaldandi undirbúnings verkefnisins. Á næstu vikum verður ákveðið hvernig fénu verður varið og verður það gert í samráði við sjóðsstjórn Landgræðslusjóðs. Hekluskógar þakka Landgræðslusjóði veittan stuðning.

Ársfundur samráðshóps (28.03.2006)

Ársfundur samráðshóps um Hekluskógaverkefnið var haldinn í Gunnarsholti 28. mars sl. Á fundinum var farið yfir störf hinna ýmsu starfshópa og árangur starfsins metinn. Á fundinum kom m.a. fram að áætlanagerð og undirbúningur verkefnisins er langt á veg kominn. Skipulagsstofnun fjallar um leyfisveitingar vegna verkefnisins og er reiknað með að ákvörðun liggi fyrir innan nokkurra mánaða. Verkefnið hefur verið allvel kynnt bæði almenningi og ráðamönnum. 14 milljóna fjárveiting fékkst til áframhaldandi undirbúnings verkefnisins árið 2006 og unnið er að áframhaldandi fjármögnun verkefnisins. Verkefnivinnan mun halda áfram og verður farið í fyrstu framkvæmdir í nafni verkefnisins í sumarbyrjun. Undirtektir við verkefnið hafa nær eingöngu verið mjög jákvæðar og hafa tvær stofnanir til viðbótar, Náttúrufræðistofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands, óskað eftir aðild að verkefninu. Var erindi þeirra vel tekið og samþykkt á fundinum að bjóða þeim formlega aðild.

Kynningarfundur um Hekluskóga 8. mars 2006 (20.02.2006)

Haldinn verður kynningarfundur um Hekluskógaverkefnið miðvikudaginn 8. mars nk. kl 20 – 22 í safnaðarheimilinu á Hellu. Flutt verður kynningarerindi um Hekluskóga auk þess að kynningarmynd um verkefnið verður sýnd. Fundurinn er opinn öllu áhugafólki um Hekluskógaverkefnið.

Hekluskógar á fræðaþingi landbúnaðarins (30.01.2006)

Fræðaþing landbúnaðarins er einn helsti vettvangur rannsóknafólks í landbúnaðargeiranum til að kynna verkefni og rannsóknir. Samráðshópur um Hekluskóga lætur ekki sitt eftir liggja á næsta fræðaþingi. Tvö veggspjöld um Hekluskógaverkefnið verða kynnt þar, auk rannsóknaverkefna sem unnin eru á Hekluskógasvæðinu. Á veggspjöldum verður áætlanagerð í Hekluskógaverkefninu kynnt, sem og verkefnishugmyndin sjálf. Af rannsóknum á Hekluskógasvæðinu sem kynntar verða á fræðaþinginu má nefna erindi Úlfs Óskarssonar hjá Landgræðslu ríkisins ,,svepprót í skógrækt – máttur myglunnar”. Veggspjöld, samantektir og glærusýningar má nálgast á vefnum eftir fræðaþing.

Sjá nánar á http://landbunadur.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/rjor6k3fs4.html.

Systir Heklu í Alaska gýs (19.01.2006)

Eldfjallið Mt Augustine í Cooksfirði (Cook 1137124557_1_8[1]Inlet) í Alaska byrjaði að gjósa 4. janúar í ár. Fjallið er 1260 m há eldkeila staðsett á eyju um 275 km suðvestur af höfuðborginni Anchorage. Fjallið minnir nokkuð á Heklu gömlu í útliti nema hún er klædd elrikjarri neðantil. Kannski mun Hekla líta út eitthvað svipað þessu eftir nokkra áratugi, en þó vaxin birki og víðikjarri í stað elrisins.

Nánari upplýsingar um eldgosið má finna á vef eldfjallastofnunar Alaska (e. Alaska Volcano Observatory).

http://www.avo.alaska.edu/volcanoes/volcinfo.php?volcname=Augustine