Frostlyfting

Frostlyfting trjáplantna

frostlyft_birki

Eitt af stærstu vandamálum við skógrækt á illa grónu landi er frostlyfting plantna af völdum holklaka. Ef gróðursett er í illa gróna mela, flög, leirríkt land og jafnvel jarðunnið land er mikil hætta á því að holklaki lyfti plöntunum upp úr jarðveginum. Holklaki er algengur á vetrum þegar snjólítið er og hitastig er um og yfir frostmarki.

Merki um holklaka má finna víða í íslenskum jarðvegi t.d. melatígla og þúfur.

Þegar plöntunum er stungið niður nógu snemma að vori t.d. með því að stíga þær niður í jarðveginn um leið og borið er á plönturnar má bjarga þeim.

DSC06901

Áburðargjöf er mikilvæg til að bæta lifun, vöxt og minnka hættu á frostlyftingu. Hún eykur áburðargjöf rótarvöxt og myndar gróðurskán á yfirborð jarðvegs sem dregur úr áhrifum frostlyftingar. Notkun rýgresins íblönduðu í áburð minnkar einnig frostlyftingu, en mikilvægt er að setja ekki of mikið af rýgresis fræi á hverja plöntu annars gerir grasið illt verra. Eitt til tvö rýgresisfræ duga við hverja plöntu á ógrónu landi. Þar sem einhver gróður er fyrir hendi dugir áburðargjöf yfirleitt til að mynda gróðurskán við plöntuna.

Rannsóknir Hrefnu Jóhannesdóttur sérfræðings hjá Skógrækt ríkisins á Mógilsá með mismunandi gróðursetningardýpt á Þorlákshafnarsandi, sýna að plöntur vaxa og lifa betur sé þær gróðursettar dýpra en yfirborð plöntuhnauss. Líkleg ástæða þessa er að meiri raki er dýpra í jarðveginum og að holklaki nær síður að lyfta plöntum upp séu plönturnar gróðursettar djúpt.

Niðurstaða Hrefnu er að því dýpra sem gróðursett var (þó ekki dýpra en svo að toppur og efstu greinar standi upp úr) þ.e. um 10 cm dýpra en jarðvegsyfirborð því betur lifðu plöntur. Einnig er mikilvægt að þjappa vel að plöntum og svo loft komist ekki að hnausnum og bæti á þurrkáhrifin.

Minnka má hættu á frostlyftingu með því að gróðursetja utan í gróðurtorfur á illa grónu landi. Þá lyftast plönturnar með gróðurtorfunum, en síga svo aftur með gróðrinum og eiga síður hættu á að liggja eftir að vori.

Þar sem gróðursett er í gróið land án jarðvinnslu eða með handflekkingu þarf yfirleitt ekki að hafa áhyggjur af frostlyftingu, en þó er mikilvægt að koma plöntu hnausnum það djúpt að lítil hætta sé fyrir plönturnar vegna þurrka.

Á síðustu árum hafa ýmiskonar gróðursetningarvélar verið notaðar til gróðursetningar. Flestar eiga þær sér það sammerkt að gróðursetja plöntur heldur dýpra en hægt er með hefðbundnum handverkfærum. Þessar vélar rista flestar upp jarðveg og setja plöntuna ofan í rásina og þjappa svo aftur að þeim. Tekst gróðursetning með slíkum vélum oftast ágætlega séu þær rétt stilltar.

Plöntur sem gróðursettar eru djúpt þola betur þurrka en hinar sem standa grunnt.

 SONY DSC

Gróðursetning með C-20 gróðursetningarvélinni hefur reynst afar vel enda setur vélin plöntur djúpt og þjappar vel að.