Í stjórn Hekluskóga sitja Magnús H. Jóhannsson f.h. Landgræðslunnar, Trausti Jóhannsson f.h. Skógræktarinnar og Hrönn Guðmundsdóttir verkefnisstjóri Hekluskóga.
Forsaga verkefnisins er að vorið 2005 var stofnuð nefnd af nokkrum aðilum sem vildu stofna til samstarfs um að koma Hekluskógaverkefninu á legg. Áður var starfandi nefnd hjá Landgræðslu ríkisins, sem stofnuð var tveimur árum fyrr í þeim tilgangi að afla landupplýsinga, fá yfirlit yfir og bæta við nauðsynlegar rannsóknir og vinna að undirbúningi áætlunargerðar fyrir Hekluskóga.
Hlutverk samráðsnefndar um Hekluskóga var að vinna að stefnumótun, undirbúningi og fjármögnun Hekluskóga og samræma aðkomu mismunandi aðila að verkefninu. Eitt af fyrstu verkum nefndarinnar var að halda kynningarfund um Hekluskóga fyrir landeigendur á svæðinu. Þar mættu 16 landeigendur og kusu fulltrúa sinn í samráðsnefndina.
Frá því í ágúst 2005 störfuðu fimm vinnuhópar í umboði samráðsnefndarinnar til að undirbúa mismunandi verkþætti Hekluskóga og þeir eru vinnuhópur um: Áætlanagerð, rannsóknir, skipulagsmál, kynningarmál og fjármögnun. Störfum nefnda var að miklu leyti lokið haustið 2006. Stjórn Hekluskóga tók formlega við stjórn verkefnisins þegar samningur var gerður við ríkið vorið 2007, en samráðsnefnd er enn starfandi. Í samráðsnefnd sitja nú: Sigríður Heiðmundsdóttir f.h. Skógræktarfélags Rangæinga, Garðar Þorfinnsson f.h. Landgræðslunnar, Sveinn Sigurjónsson f.h. landeigenda á Hekluskógasvæðinu, Björn B. Jónsson f.h. Skógræktarinnar, Böðvar Guðmundsson f.h. Skógræktarfélags Árnesinga, Ása L. Aradóttir f.h. Landbúnaðarháskóla Íslands og Arnór Snorrason f.h. Skógræktarinnar.
Pingback: Samantekt af málþingi um Hekluskóga | Hekluskógar
Pingback: Nýr samningur um Hekluskóga | Hekluskógar