Fréttir frá 2012

Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2012.

Stutt samantekt um starf Hekluskóga árið 2012 (24.12.2012)

SONY DSC

Starf Hekluskóga gekk vel eins og undanfarin fimm ár sem verkefnið hefur starfað formlega. Fjárveiting ársins voru 20,2 milljónir og hefur framlag til verkefnisins lækkað ár frá ári í krónutölu frá árinu 2008 þegar 50 milljónum var veitt til verkefnisins. Árið 2013 verður hins vegar jákvæð breyting á þessari þróun með 10 milljón kr tímabundnu viðbótarframlagi. Gróðursettar voru tæplega 262 þúsund plöntur þetta árið, 255.637 birki og 6.330 reyniviðir og var þeirri gróðursetningu dreift um starfssvæði Hekluskóga sem nær frá Gunnarsholti í suðri og norður í Hrauneyjar. Rúmlega 180 landeigendur voru með samning við Hekluskóga um gróðursetningu í eigin lönd, sjálfboðaliðahópar bæði innlendir og erlendir komu að verkefninu, sem og Landsvirkjun, Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins og ýmsir hópar verktaka t.d. íþróttafélög komu að gróðursetningu. Um 350 tonnum af kjötmjöli var dreift til uppgræðslu í Þjórsárdal, bæði á lítt gróna vikra sem og í jaðra Búrfellsskógar. Er ljóst að uppgræðsla með kjötmjöli skilar mjög góðum árangri til lengri tíma og hefur á síðustu árum breytt hundruðum ha úr fjúkandi vikrum í gróið land. Standa vonir til að heimild fáist til að dreifa kjötmjöli víðar um starfssvæði Hekluskóga. Tveir starfsmenn störfuðu við verkefnið, Hreinn Óskarsson verkefnisstjóri á launum í þrjá mánuði og sumarstarfsmaður Ívar Örn Þrastarson skógfræðinemi í tvo mánuði. Styrkir sem verkefninu bárust á þessu ári voru 130 þús. kr frá True North og 500 þús kr frá sumarvinnuátaki Vinnumálastofnunar. Nýr styrktaraðili Endurvinnslan hf ákvað að bæta Hekluskógum við sem einu af fjórum samfélagslegum verkefnum sem þau styrkja og geta þeir sem skila einnota umbúðum íafgreiðslustöðvum Endurvinnslunnar í Knarrarvogi 4 og Dalvegi 28 hafa möguleika á að styrkja Hekluskóga með skilagjaldi sem fæst fyrir flöskur og annað, verður samstarfið kynnt betur á vordögum. Birkifræsöfnun Hekluskóga tókst ágætlega þetta haustið og barst fræ víða að bæði frá móttökustöð Endurvinnslunnar hf og frá ýmsum aðilum, skólum og leikskólum sem sendu fræ beint til skrifstofu Hekluskóga. 

Hekluskógar fá aukna fjárveitingu árið 2013 (22.12.2012)

Hekluskógar fengu á nýsamþykktum fjárlögum tímabundna hækkun frá fyrstu tillögum um 10 milljónir og hafa nú til ráðstöfunar 29,8 milljónir kr árið 2013. Er þessi hækkun kærkomin og mun gera verkefninu kleyft að halda áfram gróðursetningu af sama krafti auk þess að bera á eldri gróðursetningar. Hekluskógar þakka ráðamönnum kærlega fyrir stuðninginn og veit þessi fjárveiting vonandi á gott hvað varðar hækkun á fjárveitingum á næstu árum.

Hekluskógar óska eftir birkifræi (11.9.2012)

Vegna góðs fræárs á birki hafa Hekluskógar biðlað til einstaklinga, skóla eða félagasamtaka um að safna birkifræi af trjám á höfuðborgarsvæðinu og víðar um sunnan og vestanvert landið. Samið hefur verið við Endurvinnsluna hf um að taka við fræinu í móttökustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi. Á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september kl. 13-16 bjóða Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógrækt ríkisins til útifræðslu um söfnun og sáningu birkifræs við hús Landbúnaðarháskólans, Keldnaholti 112, Reykjavík sjá nánar á heimasíðum Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Bein sáning á birkifræi er aðferð sem hefur verið notuð frá upphafi skógræktar á Íslandi og má nefna marga skógarreiti sem sprottið hafa upp af slíkum sáningum, s.s. Hákonarlund í Haukadal og Gunnlaugsskóg við Gunnarsholt.

fretti11Undanfarin ár hafa verið gerðar tilraunir með að dreifa birkifræi á svæði innan Hekluskóga sem hefur gefið góða raun þó birkifræið geti tekið nokkur ár að spíra. Nú er töluvert land tilbúið fyrir fræsáningu birkis og með góðri hjálp frá almenningi ætti að vera hægt að safna hundruðum kílóa af fræi í september, sem sá má út í haust. Fróðleik um fræsöfnun má nálgast áhttps://hekluskogar.is/birkifrae.htm , í fyrirlestri sem Ása Aradóttir gerði og á myndböndum frá Landgræðslunni og Skógræktinni og Steini Kárasyni

Í örstuttu máli snýst fræsöfnunin um að safna birkifrækönglum af fallegum birkitrjám frá DSC00586lokum ágúst og fram í byrjun október. Ná má miklu af fræi á stuttum tíma enda geta verið yfir 100 spírandi fræ í hverjum köngli af birki. Nota má ílát eða poka sem binda má framan á sig, svo báðar hendur séu fríar. Ágætt er að þurrka fræið og geyma það svo þurrt útivið í kæliskáp áður en því er sáð eða fært Hekluskógum. Ef fólk vill sá því fræi sem það safnar sjálf, skal velja sáningarstaði á hálfgrónu landi eða þar sem gróðurhula hefur verið skafin af. Lítið gagn er af því að sá beint í lausasand, mela eða vikra, né grösugt land eða land vaxið þykkum mosa. Best er að mylja frækönglana og dreifa fræinu beint á yfirborðið og hylja það ekki með jarðvegi, en gott er stíga og þjappa því niður í svörðinn. Fræið getur svo tekið sér nokkur ár í spírunina svo árangurinn er fyrst sýnilegur eftir 5-10 ár. Hekluskógaverkefnið hefur nú starfað í fimm ár og hefur starfið gengið framar vonum.

SONY DSC

Skógur vex upp milli Þjórsár og Ytri Rangár við Búrfell. Þar var gróðursett árin 2007 og 2008.

Mest áhersla hefur verið lögð á gróðursetningu birkis víðs vegar um starfssvæðið sem er um 90 þúsund ha eða tæpt 1% Íslands. Alls hafa verið gróðursettar um 1,8 milljónir af birki í hundruð reita sem þekja alls tæplega 1000 ha. Þessir reitir eru nú orðnir vel sýnilegir um svæðið allt og munu þeir sá sér út yfir nálæg svæði á næstu árum og áratugum. Samhliða gróðursetningunni hefur tilbúnum áburði og kjötmjöli verið dreift yfir illa gróið land til uppgræðslu og hefur tekist vel til. Hefur áburði verið dreift yfir um 2500 ha lands. Fjöldi sjálfboðaliðahópa, landeigenda og verktakahópa hafa unnið að verkefninu með Hekluskógum og hefur aðstoð þessara aðila skipt sköpum fyrir allt starf verkefnisins. Öflugt rannsókna og þróunarstarf hefur verið unnið samhliða framkvæmdum af ýmsum aðilum og mörg spennandi rannsóknaverkefni litið dagsins ljós. Vill verkefnisstjóri Hekluskóga þakka sérstaklega það framlag og í leiðinni biðla til landsmanna að safna birkifræi þetta haustið sem nýtast mun til að koma upp skógum víða um Hekluskóga.

SONY DSC

Birki sprettur vel í melgresinu við Dómadalsvegamót á uppgræðslusvæði sem kallað er ,,Milljónin hans Nonna”. Þarna var gróðursett með vél árið 2009.

SONY DSC

Plöntur sem gróðursettar voru af starfsfólki Heklu hf árið 2007 í landi Merkihvols eru þegar farnar að bera fræ aðeins 5 ára gamlar.

Tilraun með flutning á gróðri úr birkiskógi (19.7.2012)

Síðustu vikur hefur verið unnið að uppsetningu á tilraun á Hekluskógasvæðinu sem snýst SONY DSCum að flytja gróðurtorfur úr birkiskógi í trjáreiti víða um Hekluskógasvæðið. Hjónin Christine og David Orchard frá Bretlandi hafa unnið að uppsetningu tilrauninna í sjálfboðaliðavinnu og unnið afar skipulagt og gott starf. Markmið tilraunarinnar er að prófa hvort hægt sé að flytja gróður úr gömlum birkiskógum inn í nýlega trjálundi sem settir hafa verið niður á síðustu árum víðsvegar um Hekluskóga. Bæði eru prófaðar mismunandi stærðir af torfum sem og mismunandi meðferðir þ.e. án áburðar, tilbúinn áburður og kjötmjöl. Þær tegundir sem vaxa á torfunum eru skráðar og verður fylgst með hvaða tegundir lifa flutninginn af. Einnig er ljóst að jarðvegslífverur og skordýr ýmiskonar fylgja með torfunum. Ef vel tekst til er ljóst að flýta má framvindu skógarvistkerfanna um áratugi með slíkum flutningi. Úttektir verða gerðar á tilrauninni á næstu árum og mun væntanlega verða leitað eftir aðstoð háskólanema við úttektirnar.

 

SONY DSC SONY DSC SONY DSC

Uppsetning á einum tilraunareitnum í birkilundi sem gróðursettur var við Helliskvísl í nágrenni við gamla Sigölduveginn 2011.

Mótorhjólaskógar rækta skóg og græða upp land (25.4.2012)

Hinn 19. maí síðastliðinn hófu félagar úr nokkrum mótorhjólafélögum samstarf við SONY DSCHekluskóga um uppgræðslu og trjáplöntun á svæðinu. Mættu hóparnir galvaskir snemma dags á mótorhjólum og voru flestir hóparnir að koma úr Reykjavík. Gróðursettu hóparnir um 2000 birki plöntur og 5 reyniviðarplöntur sem settar voru í skjól við klettadrang nokkurn norðan þjóðvegarins austan Þjórsár og Sultartangavirkjunar. Auk þess var dreift um 3 tonnum af áburði á svæðið norðan þjóðvegarins langleiðina frá Þjórsárbrú og austur að vegamótum þar sem Landvegur kemur inn á þjóðveginn. Mótorhjólaklúbbar sem tóku þátt í verkefninu voru BMW Íslandi, Ernir á Suðurnesjum, Bifhjólasamtök Lýðveldisins Sniglar, HOG chapter Iceland, Ferða- og Útivistafélagið Slóðavinir og Skutlur kvennaklúbbur. Er verkefnið sprottið af samstarfi við Slóðavini sem hafa unnið síðastliðin 3 ár að uppgræðslu á Vaðöldu sem er rétt norðan við það svæði sem unnið var á nú.

Nokkrir aðilar styrktu samstarfsverkefnið myndarlega og eru þeir: Landgræðsla ríkisins, Olís, Skeljungur og N1. Hekluskógar þakka öllum aðilum kærlega fyrir gott samstarf með von um langt og gróðursælt samstarf. Á meðfylgjandi myndum má sjá hópana við uppgræðslu og gróðursetningu á svæðinu 19. maí sl.

SONY DSC

Gróðursetning á reyniviði

 

Sáning á birkifræi (25.4.2012)

SONY DSC

Sáningarsvæði

Verkefnisstjóri sáði um 50 kg af óhreinsuðu birkifræi sem safnað var af sjálfboðaliðum haustið 2011 víða um sunnanvert landið. Var fræinu sáð á víð og dreif innan 12 ha svæðis vestast í Langöldu rétt vestan við Hrauneyjar. Var fræinu dreift á bakka ónefnds lækjar sem rennur norðan í öldunni og í hálfgróin svæði upp í Langöldu. Dreifsáningar af birki hafa reynst ágætlega s.s. í Gára norðan Gunnarsholts og á svæði sunnan Reyðarvatnsrétta. Mun eldri sáningar af birki finnast víðar um land s.s. Hákonarlundur í Haukadal og Gunnlaugsskógur við Gunnarsholt. Það getur tekið fræið 1-3 ár og jafnvel lengur að spíra og árangur sáningarinnar sést því ekki að ráði fyrr en eftir 5-10 ár.

SONY DSC

Sáningarsvæði við Langöldu

SONY DSC

Fræinu er sáð í gróðurlítil svæði þar sem samkeppni er lítil

SONY DSC

Gróðursetning hefst óvenju snemma (20.4.2012)

Afhending plantna til þátttakenda í Hekluskógum hófst óvenju snemma þetta árið. Nú er jörð orðin frostlaus og tími til kominn að gróðursetja. Ráðgert er að gróðursetja um 200 þúsund plöntur í vor og 50 þúsund í haust. Um 175 aðilar hafa gert samning við Hekluskóga um plöntustyrki og eru lönd þessara aðila innan marka Hekluskóga. Mikill áhugi á útvíkkun starfssvæðis er hjá sumarhúsaeigendum og öðrum landeigendum sem eiga lönd utan marka Hekluskóga. Verður skoðað af verkefnisstjóra í samráði við stjórn og samráðsnefnd Hekluskóga hvort möguleiki sé á stækkun starfssvæðis á næstu mánuðum.

SONY DSC

Það styttist í vorið jafnvel upp til fjalla á Hekluskógasvæðinu. Brumin eru farin að þrútna á tveggja ára birkiplöntum og hvannir víða farnar að gægjast upp úr sverðinum.