Aðferðir við endurheimt birkiskóga

Gróðursetning og þéttleiki

Áætlanir Hekluskóga gera ekki ráð fyrir því að gróðursett verði í allt svæðið. Reiknað er með því að meðaltali verði gróðursettar 400 plöntur á hvern ha lands. Aðaltegundir í lundunum yrðu birki sem gróðursett yrði með vélum eða plöntustaf og víðitegundir sem komið yrði á legg með beinni stungu græðlinga. Einnig er stefnt að því að gróðursetja reynivið, eini og blæösp í lundi á svæðinu.

Víða er hægt að gróðursetja með vélum um Hekluskógasvæðið.

velgrodursetning2_hekluskogar

Birki og víðitegundir mynda fræ á fyrstu 5-10 árunum eftir gróðursetningu og munu dreifast yfir svæðin í nágrenni lundanna.

Á sumum svæðum yrði gróðursett í stærri samfelldari svæði t.d. á svæðið milli Búrfells og Hekluróta. Þar eru vindstrengir sem dreifa munu trjáfræjum yfir stór svæði í ofanverðri Landsveit. Annars staðar yrðu skilin eftir svæði sem ekki yrði gróðursett í vegna ýmissa ástæðna s.s. búskapar, rústa sem þyrfti að varðveita eða sérstakra náttúrufyrirbæra. Hluti Hekluskógasvæðisins er líka það vel gróinn trjágróðri að ekki er nein þörf á gróðursetningu.

Stefnt er að því að koma skógargróðri á legg með því að flytja gróðurtorfur úr gömlum grónum skógum út í gróðursetta trjáreiti. Tilraun með slíkan tilflutning var sett upp árið 2012 og er MSc nemandi við störf við að rannsaka árangur af slíkum tilflutningi.