Fréttir frá 2009

Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2009.

Umhverfisráðherra heimsækir Hekluskóga (20.11.2009)

IMG_3249Í gær 19. nóvember heimsótti Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra Hekluskóga ásamt fríðu föruneyti Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra, Guðmundi Herði Guðmundssyni upplýsingarfulltrúa og Skúla Oddssyni ráðherrabílstjóra. Var verkefnisstjóri og stjórn Hekluskóga með í för og var hluti starfssvæðis Hekluskóga í Þjórsárdal, Hafi og Árskógum skoðaður. Farið var um örfoka svæði, nýleg uppgræðslusvæði, gróðursetningarreiti, útbreiðsla birkis út frá gömlum skógum var skoðuð og endað var í 20 ára birkiskógi sem stofnað var til á uppgræddum söndum. Nokkuð hvasst var í ferðinni og lenti hópurinn í vikurfoki á ógrónum svæðum. Fékk hópurinn því ágæta mynd af því hversu mikilvægt er að græða landið og endurheimta
birkiskóga enda stöðva slíkar aðgerðir vikurfok varanlega.

IMG_3243Í lok ferðarinnar var skógur Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal skoðaður, sér í lagi nýr skógarstígur fyrir hreyfihamlaða hefur verið lagður í gegn um skóginn. Tók Jóhannes H. Sigurðsson aðstoðarskógarvörður Skógræktarinnar á Suðurlandi vel á móti hópnum með ketilkaffi og meðlæti.

Vilja Hekluskógamenn þakka ráðherra og fylgdarliði kærlega fyrir að gefa sér tíma til að heimsækja verkefnið.

Gróðursetningu ársins 2009 lokið  (16.11.2009)

DSC01926

Mesta gróðursetningarári Hekluskóga hingað til lauk nú um helgina. Í sumar voru gróðursettar tæplega 400.000 plöntur aðallega birki en nokkur þúsund af reyniviði og víði. Í haust voru svo gróðursettar rúmlega 100.000 plöntur og lauk því verki eins og áður sagði nú um helgina. Alls hefur því tæp hálf milljón trjáa verið gróðursett í ár á vegum verkefnisins. Þátttakendur í Hekluskógum eru nú tæplega 130 og hafa þeir verið mjög duglegir við gróðursetningu í ár. Ýmsir hópar hafa tekið að sér gróðursetningu má þar nefna íþróttafélög, sjálfboðaliða hópa og félagasamtök. Einnig hafa Landsvirkjun og Skógrækt ríkisins séð um gróðursetningu á tugum þúsunda plantna. Áburðargjöf á svæðinu þetta árið var í höndum Landgræðslu ríkisins sem hljóp undir bagga með verkefninu og greiddi 30 tonn af áburði og dreifingu áburðarins. Var þar verið að bera á uppgræðslusvæði þar sem land er undirbúið fyrir gróðursetningu trjáa. Hekla hf hélt áfram stuðningi við verkefnið með kolefnisjöfnun fyrirtækisins sem og allra nýrra Volkswagenbifreiða sem seldar eru á vegum umboðsins hér á landi. Vilja Hekluskógar þakka öllum þessum aðilum kærlega fyrir samstarfið við endurheimt Hekluskóga.

CELL nemendur fræðast um og vinna við Hekluskóga  (13.10.2009)

DSC01881Nemendur frá CELL (Center for Ecological Living and Learning) eru í heimsókn hjá Hekluskógaverkefninu þessa dagana. Í hópnum eru 12 nemendur sem koma víðsvegar frá Bandaríkjunum og tveir kennarar þeirra. Hafa nemendurnir fræðst um Hekluskógaverkefnið, kynnst sögu skógar- og jarðvegseyðingar og hvernig unnið er að því að endurheimta fyrri jarðargæði. Gróðursettu nemendurnir um 4200 birki og reyniviðarplöntur í uppgræðslusvæði í Landskógum, auk þess að fara í gönguferðir um svæðið. Hekluskógar þakka hópnum kærlega fyrir heimsóknina og góða aðstoð.

DSC01888

DSC01876

DSC01883

Næfurholtsfjöllin eru falleg í skúraloftinu

Haustgróðursetning í fullum gangi (13.10.2009)

Eftir stuttan frostakafla er haustgróðursetning komin í fullan gang. Verða 100 þúsund birki gróðursettar auk nokkurra þúsunda af reyniviði. Birkiplönturnar koma frá garðyrkjustöðinni Kvistum í Reykholti í Biskupstungum, en reyniviðurinn kemur frá Barra á Tumastöðum. Þátttakendur í Hekluskógum eru nú 126 og fá þeir plöntustyrk sem þeir gróðursetja í sín lönd um sunnanvert starfssvæðið. Má búast við að þeir gróðursetji allt að 50 þúsund í haust. Nokkrir verktakar vinna einnig að gróðursetningunni. Plöntunum er dreift frá Sveini og Sigurbjörgu á Galtalæk 2 eins og í sumar. Alls verða gróðursettar um hálf milljón plantna á vegum verkefnisins árið 2009.

DSC01863

Sveinn og Sigurbjörg á Galtalæk 2 taka við birkiplöntum frá Steinari á Kvistum.

Hekluskógar ódýr og skilvirk aðferð við uppgræðslu og endurheimt skóga (16.9.2009)

IMG_4235Gróðursetning og uppgræðsla sumarið 2009 hefur gengið vel. Sumarið hefur verið veðursælt með afbrigðum, sólríkt, hlýtt en þó hefur rignt með hæfilegu millibili. Í vor og fyrripart sumars voru gróðursettar um 400 þúsund plöntur aðallega birki en nokkur þúsund reyniviðir að auki. Landeigendur á svæðinu gróðursettu um helming plantnanna og verktakar og sjálfboðaliðahópar afganginn. Þegar kostnaður við hverja gróðursetta plöntu reiknaður út frá framlagi ríkisins kemur í ljós að heildarkostnaður við hverja gróðursetta plöntu nemur 49,6 kr.

Vegna niðurskurðar hafði Hekluskógaverkefnið ekki fjármagn til áburðargjafa eða sáninga eins og undanfarin ár. Skógrækt ríkisins greiddi hluta launa verkefnisstjóra Hekluskóga sem einnig starfar sem skógarvörður á Suðurlandi. 

DSC01216Nokkrir aðilar hlupu þar undir bagga varðandi uppgræðsluverkefni og lagði Landgræðsla ríkisins til 30 tonn af tilbúnum áburði og greiddi fyrir dreifingu á mestum hluta þess, en auk þess dreifðu bændur á Rangarvallaafrétti nokkrum tonnum. Landsvirkjun lagði til áburð og dreifði honum yfir nokkra ha lands. Kjötmjölsverksmiðjan lagði til 150 tonn kjötmjöls sem notað var til að hressa upp á sáningar í Þjórsárdal. Var kjötmjölinu dreift af starfsfólki Skógræktar ríkisins með aðstoð Landsvirkjunar. Aðrir aðilar sem dreifðu áburði og gróðursettu tré voru Slóðavinir, ferðaklúbburinn 4×4 og St. Andrésarstúkan Hekla. Starfsfólk Heklu hf kom eins og síðustu ár og gróðursetti í uppgræðslusvæði í Merkihvolslandi, auk þess hefur fyrirtækið stutt við IMG_4065_edited-1Hekluskóga með því að greiða fyrir kolefnisbindingu fyrirtækisins sem og nýrra seldra Volkswagen bifreiða.

Eru þessum aðilum sem og öllum þeim aðilum sem studdu við verkefnið með einum og öðrum hætti þetta sumarið þakkað kærlega fyrir samstarfið.

 Haustgróðursetning hefst í lok mánaðarins og munu verða gróðursettar um 100 þúsund birkiplöntur, auk smáræðis af reyniviði þetta haustið.

 Lúpínan er afar lystug (17.8.2009)

Síðustu vikur og daga hafa lúpínubreiður á stórum svæðum breytt um lit frá grænum yfir í gulan. Ástæða þess er aragrúi af lirfum af ýmsum tegundum sem hafa tekið upp á því á síðustu árum að éta lúpínu. Er um að ræða innlendar lirfur ýmissa fiðrilda og má þar helst nefna ertuyglu og brandyglu. Nú í sumar sjást fleiri tegundir gæða sér á lúpínu og er mófeti þar algengastur, en einnig má sjá aðrar skrautlegri tegundir eins ogskógburstann. Þegar lirfurnar hafa étið upp alla lúpínu fara þær á annan gróður og hafa sumsstaðar valdið skaða á trjágróðri. Birkið hefur sloppið einna best trjátegunda við átið, en sígrænar trjátegundir hafa sumstaðar farið illa. Þessar lirfur og fleiri skordýr sem í lúpínubreiðunum lifa laða að sér fjölmargar fuglategundir og mýs, sem eykur fæðu rándýra. Sjást refir og ránfuglar eins og branduglur víða í og við lúpínubreiður. Þar sem þessar lirfuplágur hafa etið upp lúpínu síðustu árin t.d. í Þjórsárdal hafa lúpínubreiður hopað og breyst í graslendi og birkiskóga. Lausleg athugun á fjölda lirfa í lúpínubreiðu leiddi í ljós að milli 30 og 40 lirfur voru á fermeter og vógu þær 250 g. Áhugasamir geta reiknað út hversu margar lirfur gætu verið í lúpínubreiðum á öllu Hekluskógasvæðinu og hversu þungar þær eru, en lúpína vex á um 4000 ha lands innan starfssvæðis Hekluskóga!

IMG_4076

Mófeti gæðir sér á lúpínufræi

IMG_4084

Mófeti og ertuygla saman á lúpínu og kónguló spinnur vef

IMG_4086

Óþekkt lirfa á beit

IMG_4073

Ertuygla og mófetar gata fræbelg lúpínu

IMG_4101_edited

Skógbursti er án efa skrautlegasta lirfan sem nærist á lúpínunum.

ÞD tilraunDSC01278_edited

Lúpínubreiða í Þjórsárdal sem gróðursett var birki í árið 2002 og er efri myndin tekin við það tækifæri, en 7 árum síðar, 2009, er lúpína horfin af stórum svæðum og eftir stendur birki í graslendi. Á þessu svæði hefur ertuygla etið upp lúpínubreiður síðla sumars árum saman. Myndirnar eru báðar teknar um miðjan júní.

Úttekt á trjálunda tilraun (29.7.2009)

IMG_4062_edited

Þessa dagana fer fram úttekt á tilraunum sem gróðursettar voru sumarið 2006 á vegum Hekluskóga verkefnisins. Eru tilraunirnar skipulagðar af samráðsnefnd Hekluskóga og Magnúsi Jóhannssyni sérfræðingi Landgræðslu ríkisins. Settir voru niður trjálundir víðsvegar um Hekluskóga og var hugmyndin að prófa á hverskonar uppgræðslu birki myndi þrífast best. Einnig voru gróðursettir víðigræðlingar í trjálundina. Voru tilraunareitirnir settir í melgresi, grassáningar, belgjurtir og á illa gróið land. Í dag eru flestir tilraunareitirnir ágætlega útlítandi og hafa sprottið betur en bjarsýnustu menn gerðu ráð fyrir. Páll Sigurðsson skógfræðinemi við Arkangelsk háskóla í Rússlandi mun nota niðurstöður tilraunarinnar til meistaraverkefnis og honum til aðstoðar við mælingarnar er Sabrina Fisher sem er skógfræðinemi við háskólann í Göttingen í Þýskalandi.

IMG_4065_edited

 

 

 

Einn af tilraunareitunum á uppgræðslusvæðinu við Sölvahraun.

Myndir af uppgræðslustarfinu (23.7.2009)

 

P1010676

Ljósmynd Friðþór Sófus Sigurmundsson

Töluverð uppgræðsla hefur verið stunduð í Þjórsárdal á síðustu árum og á myndinni hér að ofan sjást sáningar frá 2006 og 2007 sem gerðar voru í samvinnu Hekluskóga, Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

Myndin er tekin í austurátt ofan af Áslákstungum sem eru vestan megin í Þjórsárdalnum og á myndinni sjást Reykholt og fjær Sámsstaðamúli og Skeljafell.

Í svæðið var gróðursett birki í lundi árið 2006 eða sama sumar og sáð var og þrífst það ágætlega.

Gróðursetningu vorsins að verða lokið (24.6.2009)

Eins og dyggir lesendur síðunnar hafa tekið eftir hefur lítið bæst við af fréttum síðustu vikurnar. Ástæða þess er aðallega sú að verkefnisstjóri hefur verið lítið á skrifstofunni, enda gróðursetning í fullum gangi. Nú má þó segja að gróðursetningu vorsins sé að verða lokið og eru nú um 400 þúsund plöntur komnar í jörðu. Ýmsir aðilar hafa starfað að gróðursetningunni og eru landeigendur sem fengið hafa plöntustyrki frá verkefninu fjölmennastir. Einnig hafa starfað nokkrir hópar verktaka við gróðursetninguna sem og nokkrir hópar sjálfboðaliða. Mest hefur verið gróðursett af birkiplöntum sem koma úr gróðrastöðinni Kvistum í Reykholti í Biskupstungum, en nokkur þúsund reyniviðir hafa einnig verið gróðursettir og koma þeir frá Barra hf á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Landgræðsla ríkisins studdi við verkefnið og lét dreifa 30 tonnum af tilbúnum áburði á nýlegar sáningar á svæðinu.  Bjargaði það miklu því Hekluskóga verkefnið hafði ekki fjármuni til annars en gróðursetningar á þeim plöntum sem pantaðar voru árið 2008 áður en ljóst varð að verkefnið yrði skorið niður um 25 milljónir á Fjárlögum 2009. Einnig var 150 tonnum af Kjötmjöli dreift af Skógrækt ríkisins í Þjórsárdal og fékkst kjötmjölið á mjög hagstæðum kjörum frá Kjötmjölsverksmiðjunni sem Förgun ehf á. Fékkst sérstakt leyfi frá yfirdýralækni til dreifingarinnar og eru vonir bundnar við að kjötmjölið geti nýst á næstu árum til uppgræðslu í Þjórsárdal.

Gróðursetning í Vaðfit

Gróðursett í Vaðfit vorið 2009

Einhverjar vetrarskemmdir hafa komið fram á plöntum sem gróðursettar voru síðastliðið sumar, en ekki hefur verið gerð nákvæm úttekt á því hversu mikil afföll urðu. Við fljótlega athugun sýnist verkefnisstjóra að afföll hafi orðið heldur minni inn til landsins t.d. á Sultartanga eða við Þjófafoss og gæti því hugsanlega verið að meiri snjóþekja hafi hlíft plöntum yfir veturinn, en þó getur verið að saltskemmdir hafi orðið á vissum svæðum. Haustkal er þó ólíklegt enda fraus ekki fyrr en í byrjun október á Hekluskógasvæðinu og mátti t.a.m. tína óskemmt bláber upp við Hrauneyjar í lok september.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr starfi Hekluskóga nú í vor.

.IMG_3288

Hér sést hluti þeirra 400.000 birkiplantna sem gróðursettar voru í vor á plani við Galtalæk II en þaðan var plöntum dreift. Á myndinn er verið að losa bíl og kerru frá Garðyrkjustöðinni Kvistum.

DSC01293

Ferðaklúbburinn 4×4 hefur tekið að sér uppgræðslu á 100 ha svæði í Þjórsárdal og hér sést hópurinn á Jónsmessunni við uppgræðslustörf. Stóð hópurinn sig ákaflega vel þrátt fyrir að flugurnar reyndu að trufla starfið.

DSC01147

3. flokkur í handbolta gróðursetur í Bláskóga sem eru vestan Sultartangavirkjunar.

DSC01114

Hluti plantnanna sem gróðursettar voru í vor voru geymdar í frysti í laupum og voru þíddar í vatnskörum. Hér er verið að lesta kerru og bíl með frosnum plöntum á Kvistum.

DSC01090

Sjálfboðaliðar frá CELL samtökunum gróðursettu fyrir Hekluskóga í maí.

IMG_3336

3. flokkur í Knattspyrnu gróðursetti birki á Vaðfit austan Þjórsár við Sultartangavirkjun.

Vilt þú styrkja Hekluskóga? (7.5.2009)

Hekluskógar eru verkefni sem er fjármagnað af ríkinu og styrkt af fyrirtækjum. Grunnkostnaður við rekstur er fremur lágur og ber ríkið allan kostnað af því. Allir þeir fjármunir sem verkefninu berast aukalega nýtast beint til uppgræðslu og gróðursetningar. Því getur fólk lagt verkefninu til ákveðna upphæð og t.d. borgað fyrir gróðursetningu á trjálundi eða uppgræðslu á örfoka landi með sáningu og áburði.

Sem dæmi má nefna að fyrir um 25.000 kr má kaupa 500 bakkaplöntur af birki og gróðursetja þær. Sá fjöldi dugar til að mynda einn myndarlegan trjálund sem hægt verður að staðsetja á korti og getur styrkþeginn fylgst með skógarlundi vaxa úr grasi.

Hafa Hekluskógar t.d. fengið óskir um hvort hægt væri að gefa fólki ,,sem á allt” skóg í fimmtugsafmælisgjöf. Það er sumsé hægt!

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að styrkja verkefnið veitir verkefnisstjóri hreinn@hekluskogar.is eða 899-1971.

Uppfærsla á fróðleiksmolum (26.4.2009)

Verkefnisstjóri hefur sett á síðuna ýmsan fróðleik um gróðursetning, áburðargjöf, græðlinga fjölgun og fleira. Hægt er finna fróðleikinn með því að smella á tengilinn hér að neðan. 

Verktakar óskast í gróðursetningu (20.4.2009)

IMG_2840Hekluskógar eru nú að leita sér að verktökum til að gróðursetja birki og reynivið á nokkur svæði austan og norðan til á starfssvæði verkefnisins. Greitt verður ákveðin upphæð fyrir hverja gróðursetta plöntu.

Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af gróðursetningu og hafi bíl og kerru til umráða. Nánari upplýsingar veitir Hreinn Óskarsson í síma 899-1971 eða á netfanginu hreinn@hekluskogar.is .

Það er oft fallegt á Hekluskógasvæðinu. Hér sést Þjórsá og Þjófafoss með Heklu í baksýn.

Umhverfisráðherra heimsótti Hekluskóga (10.4.2009)IMG_2804_edited

Kolbrún Halldórsdóttir heimsótti skrifstofu Hekluskóga á dögunum og kynnti sér starfsemi verkefnisins. Hekluskógar þakka Kolbrúnu kærlega fyrir komuna. Á meðfylgjandi mynd er verkefnisstjórinn búinn að stilla sér upp með Kolbrúnu (ljósm.  Sveinn Runólfsson).

Gæða birkifræ 2008 (24.3.2009)

DSC00731Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu Hekluskóga var síðasta ár hið besta fræár í birki í manna minnum. Þá var því einnig haldið fram að oft fylgdust að mikið fræmagn og frægæði. Nú er komið í ljós að frægæði voru hin mestu sem sést hafa. Spírunarpróf voru gerð í vetur á birkifræi sem safnað var í Fljótshlíðinni og á Rangárvöllum. Niðurstöðurnar eru þær að birkifræ úr Bolholti á Rangárvöllum og Tumastöðum í Fljótshlíð voru með um 1000 spírandi fræ í hverju grammi af þurru fræi. Birkifræ úr Þorsteinslundi var með yfir 1400 spírandi fræ í grammi. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á þau 150 kg af birkifræi sem Hekluskógar fengu frá ýmsum aðilum og sáð var á um 150 ha lands í Hekluskógum síðasta haust, má leiða líkur að því að þar hafi verið dreift um 150.000.000 spírandi fræjum og ef 1% þeirra spírar gætu sprottið upp um 1,5 milljón plöntur á næstu árum! Ólíklegt verður þó að teljast að svo vel takist til, en þó má segja að það eru mun meiri líkur á að upp spretti skógar af fræi á trjálausum svæði þegar frægæðin eru svo mikil. Einnig er líklegt að mikil sjálfsáning muni eiga sér stað í kjölfar fræársins út frá eldri birkiskógum t.d. Búrfellsskógi, skógum í Næfurholts- og Selsundslandi, í kring um Gjána í Þjórsárdal og víðar.

Nám í Grænni skógum I (11.3.2009)

lbhi

Grænni skógar I er heiti öflugs skógræktarnáms sem að þessu sinni er boðið fróðleiksfúsum skógræktendum á Suður- og Vesturlandi, sem vilja ná hámarksárangri í skógrækt. Námið er í raun 16 námskeið og þar af eru 13 skyldunámskeið. Fyrstu námskeiðin verða kennd á vorönn 2009 og þau síðustu haustið 2011. Að meðaltali eru 2,5 námskeið á önn. Skráningarfrestur er til 20. mars.

Hvert námskeið stendur í tvo daga. Kennsla hefst kl. 16 á föstudögum og lýkur kl. 19. Á laugardögum er byrjað kl. 9 og kennt til kl. 16. Fjallað verður um mörg af grunnatriðum skógræktar m.a. um val á trjátegundum, undirbúning lands fyrir skógrækt, uppeldi og gróðursetningu skógarplantna, skógarumhirðu, skjólbelti, svo eitthvað sé nefnt.

SUÐURLAND Nánari upplýsingar og skráning hjá Suðurlandsskógum í síma 480 1824 (Hrönn)hronn@sudskogur.is

Bæklingur um SUÐURLAND

VESTURLAND Nánari upplýsingar og skráning hjá Vesturlandsskógum í síma 433 7054 (Guðmundur).gudmundur@vestskogar.is

Bæklingur um VESTURLAND

Björgvin Örn Eggertsson verkefnisstjóri Grænni skóga gefur einnig upplýsingar í síma 433-5305 bjorgvin@lbhi.is Landbúnaðarháskóli Íslands sér um skipulag námsins í samstarfi við Suðurlandsskóga, Vesturlandsskóga, félög skógarbænda á Suðurlandi og Vesturlandi, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Aðeins er hægt að taka 30 þátttakendur í Grænni skóga I. Þeir, sem ljúka 80 % af skyldunámskeiðunum, fá námið metið til eininga á framhaldsskólastigi.

Námskeið á næstunni ,, að breyta sandi í skóg” (10.3.2009)

DSC09988Til stendur að halda námskeið um uppgræðslu og skógrækt 3. og 4. apríl n.k. námskeið í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins og Hekluskóga. Landbúnaðarháskólinn hefur umsjón með skráningu á námskeiðið að breyta sandi í skóg – endurheimt skóglendis á örfoka landi. Allir sem áhuga hafa á uppgræðslu og skógrækt eru hvattir til að mæta og fræðast betur um grunnatriði uppgræðslu, jarðveg, áburð, trjátegundir og fleira.  Samskonar námskeið var haldið síðasta vor og mæltist það vel fyrir.

Hekluskógar skipuleggja sumarið (20.2.2009)

Þessa dagana er verið að leggja drög að vinnu sumarsins hjá Hekluskógum. Þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð fjárveitinga til verkefnisins er gert ráð fyrir að ljúka allri gróðursetningu og áburðargjöf á eldri uppgræðslu og gróðursetningu. Á fundi stjórnar Hekluskóga á 20. febrúar kom fram hjá fulltrúum Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins í stjórn að stofnanirnar munu styðja verkefnið og koma að áburðargjöf og gróðursetningu.

DSC00929Enn fjölgar umsóknum landeigenda á svæðinu um plöntustyrki og er ljóst að þeim mun fjölga nokkuð þegar líður nær vori. Framlag landeigenda er góður stuðningur við Hekluskóga og munu margir birkilundir spretta upp á næstu árum úr þessum gróðursetningum víða um starfssvæðið sunnanvert.

Námskeið Grænni skóga sem heitir ,,Að breyta sandi í skóg – endurheimt skóglendis á örfoka landi” verður haldið í Gunnarsholti 3-4. apríl og eru þátttakendur í Hekluskógaverkefninu og aðrir áhugasamir hvattir til að skrá sig á það.

Starfshlutfall verkefnisstjóra árið 2009 verður lækkað úr 100% í 25% og mun verkefnisstjóri vinna í 75% starfi sem skógarvörður á Skógræktar ríkisins á Suðurlandi. Sumarstarfsmaður verður ráðinn í þrjá mánuði til verkefnisins og mun hann m.a. hafa umsjón með þeim hópum sem munu heimsækja verkefnið og gera úttektir á gróðursetningum.

Engar breytingar verða á heimilisfangi, netfangi eða síma verkefnisins og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband.

Breytingar hjá Hekluskógum (4.2.2009)

Eins og fram hefur komið var niðurskurður mikill hjá Hekluskógaverkefninu. Lang stærstur hluti eftirstandandi ríkisframlags, 24,8 milljónir, verður að nota til að standa við skuldbindingar varðandi kaup á birkiplöntum og gróðursetningu þeirra. Ennfremur þarf að standa við samninga um rekstrarleigu á bíl sem og leigu á skrifstofuhúsnæði. Þetta þýðir að ekki er nægt fjármagn til að greiða verkefnisstjóra laun. Skógrækt ríkisins hljóp undir bagga með verkefninu og bauðst til að ráða verkefnisstjórann tímabundið til sín í starf skógarvarðar á Suðurlandi, en það starf er laust um þessar mundir. Í tilboði Skógræktarinnar felst að núverandi verkefnisstjóri fær að sinna Hekluskógum með starfi skógarvarðar. Var þessu tilboði tekið og mun verkefnisstjóri hætta á launaskrá Hekluskóga í mars og færast yfir til Skógræktarinnar 1. apríl n.k. Skrifstofa og símanúmer Hekluskóga verður þó óbreytt, en sá tími sem verkefnisstjóri hefur til að sinna verkefninu verður skiljanlega minni. Með þessu móti má þó draga úr áhrifum niðurskurðarins á framkvæmdir.

Nýtt ár með niðurskurði (14.1.2009)

Nýtt ár byrjar ekki vel fyrir Hekluskóga. Fjárlaganefnd ákvað að lækka framlag til Hekluskóga um 20 milljónir ofan á þann niðurskurð sem þegar hafði verið ákveðinn af Umhverfisráðuneyti. Því lækkaði framlag ríkisins til Hekluskóga úr 50 milljónum niður í 24,8 milljónir milli ára. DSC09902_editedEr þetta mjög bagalegt þar sem skuldbindingar verkefnisins vegna plöntukaupa, bílasamnings, gróðursetningar ofl. eru töluvert hærri. Þessar vikurnar er unnið að því að ná meira fjármagni til verkefnisins og hafa raddir ráðamanna verið jákvæðar hvað varðar leiðréttingu. Ljóst er þó að ekki næst að halda verkefninu áfram af sama krafti og áður. Þegar lokið verður við endurskoðun fjárlaga, líklega í febrúar, og ljóst verður hversu miklu verður veitt til verkefnisins verða teknar ákvarðanir um starfsmannahald og annað tengt rekstri verkefnisins árið 2009. Hekluskógafólk er ekki þekkt fyrir svartsýni og verður leitað ýmissa leiða til að hægt verði að reka verkefnið áfram.