Liggur Hekluskógasvæðið of hátt yfir sjó?

Liggur Hekluskógasvæðið of hátt yfir sjó?

Eðlilegt er að fólk velti því fyrir sér hvort það sé yfirleitt mögulegt að rækta skóg í nágrenni Heklu sem í hugum margra liggur langt inn á heiðum hátt yfir skógarmörkum. Hið rétta er að megnið af fyrirhuguðu Hekluskógasvæði er undir 300 m hæð og stór hluti þess í 100-200 m hæð.

Birkikjarr hefur fundist í yfir 600 m hæð norðan lands og sunnanlands hefur það fundist í yfir 550 m hæð á Þórsmörk. Því er það ekki hæðin sem verður erfiðust við að eiga, heldur aðrar aðstæður á svæðinu t.d. þurrkar og næringarskortur. Innan Hekluskógasvæðisins hefur birki fundist á nokkrum svæðum norðar og austarlega á svæðinu s.s. í Hrauneyjum í Tungná, í Hríshólma í Tungná, í Klofaeyjum í Þjórsá, í brattlendi og klettum innst við Sultartangalón t.d. í Básum. Víða er birki um miðbik Hekluskógasvæðisins t.d. í nágrenni Heklubæja, í Þjórsárdal og Landsveit. Minnst er um leifar gamalla birkiskóga á lægsta og syðsta hluta starfssvæðisins.

 

haedarlinur_Hekluskogar

 

Skýringar: Græna svæðið á myndinni sýnir land sem er undir 300 m hæð yfir sjávarmáli, ljósgrænasvæðið 400 m.y.s. og gulgræna svæðið 600 m.y.s.