Gróðursetning og áburðargjöf

Gróðursetning og áburðargjöf

Þessi texti er sér í lagi hugsaður fyrir Hekluskógaverkefnið og birkiplöntur.

Hreinn Óskarsson

Geymsla á plöntum fyrir gróðursetningu

Mjög mikilvægt er að geyma plöntur ekki lengi eftir að þær eru komnar úr gróðrastöð. Plöntur eru annað hvort afhentar í plöntubökkum eða í laupum úr frysti.

Ef plöntur eru geymdar í bökkum eykst hætta á að þær þorni, og ef þær eru vökvaðar vel vaxa þær úr sér og fá jafnvel sveppasýkingar, t.d. birkiryðsvepp. Einnig er hætta á að næringarástand plantnanna versni hratt t.d. þegar vökvað er með hreinu vatni. Því er mjög brýnt að koma bakkaplöntum í jörðu strax á fyrstu dögunum eftir að tekið er við þeim. Séu plönturnar geymdar verður að tryggja að ekki lofti undir bakkana heldur séu þeir geymdir á sléttu undirlagi, helst sandi.

Séu plöntur afhentar í plöntulaupum eða pappakössum úr frysti er jafnvel enn brýnna að gróðursetja plönturnar innan viku frá afhendingu. Þar er þó minni hætta á ofþornun og næringartapi enda eru plönturnar enn í dvala. Kassa verður að geyma í skugga og skjóli áður en þeir eru gróðursettir.

Við sjálfa gróðursetninguna verður að gæta þess að sól og vindur nái ekki að rótum plantnanna, því verður að geyma þær í bökkum/ plöntubeltum / fötum þangað til þær eru settar í jörðu.

! Alls ekki láta plönturnar liggja berskjaldaðar fyrir sól og vindi eftir að þær hafa verið teknar úr bakkanum meðan gróðursett er. Fínrætur skemmast á örfáum mínúntum ef slíkt er gert.

Framkvæmd gróðursetningar

Gróðursetning er annað hvort gerð með handverkfærum eða vélum. Á Suðurlandi hefur vélræn gróðursetning farið fram síðustu árin með nokkrum tegundum véla, má þar helst nefna Markúsarplóg og á allra síðustu árum amerískar gróðursetningarvélar s.s. C-08 og C-12 sem eru í eigu verktaka á Suðurlandi.

Handvirk gróðursetning fer annað hvort fram með plöntustaf eða með svokallaðri Geispu sem er finnskt gróðursetningarverkfæri (sk. Potti-putki). Geispa hefur þann kost fram yfir plöntustaf að ekki þarf að beygja sig þegar plantan er gróðursett og ennfremur að plöntur eru yfirleitt gróðursettar dýpra með geispunni. Ef jarðvegur er laus og malarkenndur hentar geispan betur en plöntustafur.

Verktakar frá Asterix ehf við gróðursetningu við Þjófafoss sumarið 2008 og haustið 2016 á sama svæði.

DSC0957911 20161102_123854

 image002  image004  image006  image008
Þrýstið oddi geispunnar niður í jörðina og stigið á fótstigið, sem opnar “kjaft” geispunnar. Stingið plöntu í rörið og látið “gossa” niður  í holuna. Lyftið geispunni og stingið henni niður í jörð til hliðar við plöntuna til að þjappa að henni.           Haldið áfram góðu verki, og leiðið hugann að því tré sem kemur til með að vaxa upp á staðnum.

Ef gróðursett er í land sem af einhverjum ástæðum hefur ekki verið jarðunnið getur plöntustafur hentað betur t.d. ef skrapa eða flekkja þarf gróður af plöntustæðinu.

image010 image012 DSC06176.JPG
Skrapið burt gróður-huluna og stígið svo á fótstigið til að þrýsta hólknum niður í jörðina. Lyftið stafnum með moldarkögglinum í hólknum. Setjið plöntuna í holuna og þrýstið henni vel niður og þekjið hnausinn með mold..

Ef land hefur verið jarðunnið eru plönturnar gróðursettar í botn rásar eða í hliðar hennar. Hepplegasta staðsetning plöntunnar fer eftir hversu rakt landið er. Í mjög blautu landi þar sem hættaer á að vatn sitji í rásum er best að staðsetja plöntuna ofarlega í hliðum rásarinnar, en á þurru landi þar sem lítil hætta er á að vatn setjist í rásir er best að setja plönturna í botn rása. Mikilvægt er að plöntur séu gróðursettar hæfilega djúpt, þ.e. efsti hluti hnaussins má alls ekki standa upp fyrir jarðvegsyfirborð. Betra er að nokkurra cm þykkur jarðvegur þekji hann, annars er hætta á vökvatapi úr hnausnum.

DSC09428

Á myndinni sést uppþornuð birkiplanta sem hefur verið gróðursett of grunnt, auk þess að áburði hefur verið hrúgað rétt við plöntuhnausinn.

Best er að gróðursetja plöntur að vori eða snemmsumars þegar mesta hættan á vorfrostum er liðin og klaki er farinn úr jörðu, þá er nægur raki í jörðu fyrir plönturnar. Ekki er gott að gróðursetja trjáplöntur um mitt sumar, þ.e. eftir að þær eru komnar í fullan vöxt. Þá er þeim hættara við skemmdum á nýjum vaxtarsprotum eða streitu af völdum þurrka. Ágætt er að gróðursetja plöntur á haustin og jafnvel fram á vetur þegar þær eru komnar í vetrardvala. Má gróðursetja svo lengi sem jörð er þíð og snjólítið er. Plöntum sem gróðursettar eru á haustin er hættara við frostlyftingu en hinum sem gróðursettar eru snemmsumars. Því er best að velja svæði sem eru með einhverri gróðurhulu eða gróðursetja í og við gróðurtorfur til að minnka hættu á frostlyftingu.

frostlyft_birki

Frostlyft birki þar sem ræturnar eru komnar á loft. Í flestum tilfellum drepast birkiplönturnar við slíka frostlyftingu.

Hversu þétt gróðursett er fer eftir hver tilgangurinn með gróðursetningunni er. Ef rækta á jólatré má gróðursetja mjög þétt t.d. með tæplega 1 meters millibili, en ef markmiðið er að rækta skóg sem á að sá sér sjálfur út, t.d. landgræðsluskóg má þéttleikinn vera mun minni þ.e. um 1000 pl./ha (sjá 1. töflu). Er þá oft gróðursett í litla lundi.

 

Áburðargjöf

Rannsóknir sunnanlands hafa sýnt að áburðargjöf við upphaf skógræktar bætir vöxt og lífslíkur trjáa. Best er að bera á að vori til og helst ekki seinna en um miðjan júlí.  Þau næringarefni sem trjáplöntur skortir yfirleitt eru köfnunarefni (N) og fosfór (P). Ekki virðist skipta höfuðmáli hvert hlutfall N og P í áburði er þ.e. ekki er víst að árangur áburðargjafarinnar verði mismunandi eftir því hvort notaður er Blákornsáburður (12-18…) eða Sprettur (23-12). Aðalatriðið er að trén fái áburð við gróðursetningu eða fljótlega eftir gróðursetningu. Sá áburður sem notaður er í túnrækt hér á landi leysist yfirleitt upp í fyrstu rigningu og kallast auðleystur áburður. Til eru fleiri tegundir áburðar sem prófaðar hafa verið hér á landi með ágætum árangri. Seinleystur áburður, þ.e. áburður sem leysist upp á nokkrum mánuðum, hefur verið reyndur hér á landi og víða um heim með góðum árangri og má t.d. nefna tepoka fráwww.reforest.com t.d. Silva Pak í því sambandi.

Blanda auðleysts og seinleysts áburðar var framleidd hér um nokkurra ára skeið og var hönnuð fyrir nýskógrækt. Var blandan framleidd í Áburðarverksmiðjunni hf. og kallaðist Gróska II. Ekki hefur þessi áburður verið fáanlegur síðustu árin.

Áburðargjöf skal haga með eftirfarandi hætti:

·        Á rýru og illa grónu landi skal dreifa 12-14 g eða einni matskeið af tilbúnum áburði kringum plöntur í 15 cm hringferil,

·        Á grónu landi er mælt með að 12-14 g af áburði sé settur í holu í um 10 cm fjarlægð frá plöntu. Er þetta gert til að minnka hættu á illgresissamkeppni.

 ! Alls ekki setja auðleystan áburð í sömu holu og plönturnar. Ef það er gert drepast lang flestar plönturnar.

Lífrænn áburður er góð lausn sem ekki aðeins gefur nauðsynleg næringarefni, heldur bætir einnig jarðveg, rakastig jarðvegs og eykur á bakteríuflóru/þörungaflóru jarðvegsins. Lífrænn áburður er seinleystur / torleystur og dugar plöntum í nokkur ár. Hins vegar er lífrænn áburður með mun lægra næringarefnainnihald og þarf því oft a.m.k. 10-100 faldan skammt samanborið við auðleystan tilbúinn áburð. Plöntur þola vel mikla áburðargjöf af lífrænum áburði, þó skal bent á að bleyta verður upp í lífrænum áburði sem seldur er í þurru formi s.s. kjötmjöli, fiski/þörungamjöli, fiskimjöli og jafnvel þurrum hænsnaskít. Ef þurr áburður er settur í holu með plöntum getur það drepið plönturnar við að þær þorna upp.

Hér er grein um áburðargjöf: Áburður og áburðargjöf

20160706_144151.jpg