Áburður og áburðargjöf

 

Hreinn Óskarsson – kafli 4.3. úr Skógræktarbók Grænni skóga, bls. 189-194.

 

Inngangur

 

Allur gróður þarfnast næringar til vaxtar og þroska. Næringuna nema plöntur úr jarðvegi í gegn um rætur. Ef eitt eða fleiri næringarefni skortir í jarðveginum hamlar það vexti og þroska. Hér á landi eru það tvö megin næringarefni sem algengt er að gróður skorti til vaxtar, nitur (N) og fosfór (P). Nitur kemur úr andrúmsloftinu og berst í jarðveg annað hvort með úrkomu, niturbindandi jarðvegsörverum eða niturbindandi jurtum t.d. lúpínu eða smára (sjá kafla um niturbindandi jurtir). Nitur finnst í jarðvegi í lífrænu efni t.d. rotnandi plöntuleifum. Fosfór berst í jarðveginn úr bergsteindum en einnig úr rotnandi plöntuleifum líkt og nitur. Hér á landi er P oftast í nægu magni en yfirleitt fastbundinn í jarðvegi og því fremur óaðgengilegur plöntum vegna eðlis jarðvegsins sem mestmegnis er eldfjallajarðvegur (Andosol) (sjá nánar jarðvegskaflann). N er hins vegar af skornum skammti vegna lítillar ákomu, hægrar rotnunar (kulda) og hraðrar útskolunar. Samlífisörverur trjáa, svepprætur og niturbindandi bakteríur og geislasveppir, aðstoða tré við næringarnám (sjá kafla um samlífisörverur).

 

Plöntur nýta næringarefnin í ýmsum lífeðlisfræðilegum ferlum, t.d. við ljóstillífun sem er ferlið sem umbreytir koltvísýringi og vatni í sterkju og súrefni með aðstoð sólarljóssins. Þetta ferli gerist í blaðgrænu og er undirstaða lífs á jörðinni. Skortur á einu þeirra 14 næringarefna sem plöntur þurfa getur hægt á vexti, efnaferlum og/eða fræþroska.

N skortur er eins og áður sagði algengastur hjá nýgróðursettum trjáplöntum. Getur slíkur skortur aukið afföll hjá nýgróðursettum bakkaplöntum strax á fyrsta ári annað hvort vegna frostlyftingar eða skordýra s.s. ranabjöllu. Möguleikar slíkra plantna eru meiri fái þær áburð sem inniheldur N við gróðursetningu. Áburðargjöf með N eykur blaðvöxt sem leiðir af sér aukna ljóstillífun. Auknar afurðir ljóstillífunar nýtir plantan til aukins vaxtar t.d. rótarvaxtar, auk þess að auka magn prótína í forðabúrum sínum t.d. í berki, sprotum eða rótum. Fosfórskortur í ungplöntum sem gróðursettar hafa verið í íslenska útjörð er einnig algengur og veldur einnig vaxtartapi. Skortur á öðrum næringarefnum hefur ekki komið fram í rannsóknum á næringarástandi trjáplantna og virðist sem nægt framboð þessara efna sé í íslenskum jarðvegi. Í öðrum löndum á norður­s­lóðum, s.s. Kanada, Norður­löndum og Skot­landi, eru áþekk vanda­mál og stafa þau oftast af því að í jarðveginn skortir eitt eða fleiri næringar­efni. Við því hefur verið brugðist með áburðar­gjöf við gróður­setningu eða á fyrstu árum eftir gróður­setningu .

 

 

Áburðargjöf á nýgróðursettar trjáplöntur

 

Næringarástand plantna – skortseinkenni

Lykillinn að hreysti plantna er að þær séu í góðu næringarástandi. Með öðrum orðum að þær hafi í vefjum sínum nægilegt magn nauðsynlegustu næringarefna í réttum hlutföllum. Þetta er ekki síst mikilvægt í uppeldi trjáplantna og við afhendingu þeirra úr gróðrarstöð. Sé ójafnvægi í magni næringarefna eða beinlínis skortur á einhverju mikilvægu næringarefni getur það haft neikvæð áhrif á starfsemi plöntunnar, t.d. ljóstillífun.

 

Einkum eru tvær að­ferðir notaðar til að meta næringar­efna­á­stand trjá­plantna; útlitsmat og efnagreining laufsýna. Litur nála/laufs, vaxtar­lag, vaxtar­hraði og önnur út­lits­ein­kenni plöntunnar gefa oft til kynna skortsein­kenni. T.d. má gera ráð fyrir að plöntur með gulleit smá blöð eða nálar skorti nitur og plöntur með smá, dökk og jafnvel bláleit blöð skorti fosfór. Þessi að­ferð krefst þjálfunar og er óör­ugg enda er auð­velt að villast á ein­kennum. Þessi að­ferð hefur mestmegnis verið notuð í ís­lenskri skóg­rækt fram til þessa. Hin að­ferðin er efnagreining lauf- eða nála­sýna. Í greiningunni er inni­hald nokkurra hinna mikil­vægustu næringar­efna sem plantan þarfnast mæld. Síðan er magnið borið saman við þekkt viðmiðunargildi. Þessi aðferð krefst þess að laufsýni séu tekin á réttum tíma árs, til dæmis getur það gefið villandi niðurstöður ef sýni eru tekin á miðju vaxtartímabili. Ókosturinn við að­ferðina er hve dýr hún er. Niðurstöður laufsýnagreininga á laufi trjáa úr gróðrarstöðvum og áburðartilraunum hér á landi gefa til kynna að N og P skortur sé algengastur.

 

Gerðir áburðar

Ýmsar tegundir áburðar eru á markaði hér á landi. Má skipta þeim gróflega upp í lífrænan áburð og ólífrænan eða tilbúinn áburð. Fjölmargar tegundir af lífrænum áburði eru á markaðnum með mismunandi efnainnihaldi (sjá töflu 4.6.1). Almennt má segja um lífrænan áburð að hann er seinleystur og inniheldur mikið af lífrænu efni. Þegar lífrænn áburður er borinn á má reikna með að áburðaráhrifin vari í nokkur ár, auk þess að örverulíf eykst í jarðvegi þar sem honum hefur verið dreift. Helsti ókosturinn við lífrænan áburð er hversu mikið magn þarf af honum samanborið við tilbúinn áburð.  Þá er lífrænn áburður (t.d. skítur) afar misjafn að gæðum.   Það getur verið ágætt að notast við lífrænan áburð við gróðursetningu í smærri svæði, en til að ná fram skilvirkni í stærri gróðursetningum er notaður tilbúinn áburður.

 

Tilbúinn áburður sem seldur er hér á landi er yfirleitt auðleystur, t.d. allur túnáburður, en einnig er hægt að fá seinleystan áburð. Í flestum tilfellum er seinleystur áburður húðaður með efnum sem hleypa næringu út úr kornunum við ákveðið raka og hitastig. Fleiri gerðir eru til af seinleystum áburði, en ekki verður um þær fjallað hér. Þriðja gerð tilbúins áburðar er blanda af auð- og seinleystum áburði til dæmis Gróska II sem Áburðarverksmiðjan hf. hefur selt á síðustu árum.

 

Mismunandi tegundir tilbúins áburðar hafa verið prófaðar í áburðartilraunum. Almennt má segja að seinleystur áburður gefi betri raun en auðleystur og að Gróskublandan gefi svipaðan vöxt og seinleystur áburður. Niðurstöður áburðartilrauna sýna að áburður sem bæði inniheldur nitur og fosfór gefi bestan vöxt og lifun. Ekki bætir það vöxt og lifun ef trén fá annað efnið eitt og sér. Önnur næringarefni en nitur og fosfór í blöndu hafa ekki haft áhrif á vöxt og lifun. Líklegt er því að nýgróðursettar trjáplöntur nái að uppfylla þörf fyrir önnur plöntunæringarefni, s.s. kalí, magnesíum, kalsíum o.fl. úr jarðvegi.

 

Tafla 4.6.1. Áætlað hlutfall næringarefna í nokkrum tegundum lífræns áburðar í prósentum og áætluð áburðarþörf á litla trjáplöntu u.þ.b. 15 cm háa reiknað út frá köfnunarefnisinnihaldi.

 

% Nitur (N) % Fosfór (P) % Kalíum (K) Magn í g á litla trjáplöntu Magn í g á hæðar cm
Blákorn 12,00 15,00 7,00 15 1,0
Fiskimjöl 10,001 3,501 0,602 18 1,2
Kjötmjöl 8,50 4,75 0,44 21 1,4
Sauðatað3 0,50 0,20 0,70 360 24
Kúamykja3 0,30 0,10 0,40 600 40
Hrossatað3 0,25 0,10 0,30 720 48
Hænsnaskítur3 0,40 0,60 0,70 450 30
Svínaskítur3 0,30 0,15 0,30 600 40
Loðdýraskítur3 0,50 0,45 0,23 360 24

Upplýsingar um næringarefnainnihald eru fengnar frá: 1Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins 2Stóru Garðabókinni 1997 og  3Handbók bænda 2000.