Fréttir frá 2008

Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2008.

Jólakveðja (24.12.2008)

Verkefnisstjóri og stjórn Hekluskóga þakka öllum þeim fjölmörgu sem stutt hafa við verkefnið með einum og öðrum hætti nú í ár sem og síðastliðin ár, og óskar öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Jólakort_2008


Hekluskógar halda velli í fjárlagagerð (15.12.2008)

Önnur umræða um Fjárlög 2009 fór fram í dag (15.des.). Samkvæmt tillögum fjárlaganefndar munu Hekluskógar halda velli þrátt fyrir erfiða tíma í fjármálum landsins. Verkefnið mun þó verða skorið niður um 5 milljónir miðað við fyrstu tillögur að fjárlögum og skv. breytingatillögum fjárlaganefndar mun verkefnið fá 44,8 milljónir úr ríkissjóði. Er þetta 10% niðurskurður og í takt við niðurskurð annarra verkefna ríkisins. Þrátt fyrir þennan niðurskurð gera áætlanir ráð fyrir aukinni gróðursetningu úr rúmlega 300 þúsund plöntum í ár, í um 500 þúsund árið 2009. Hinsvegar verður keypt minna af tilbúnum áburði en síðasta ár og mun áburði aðallega verða dreift á nýleg uppgræðslusvæði t.d. mel- og grassáningar, en í minna mæli á útjörð. Mun störfum við verkefnið því fjölga nokkuð sem kemur sér vel í því atvinnuleysi því sem gert er ráð fyrir í vor. Standa vonir til að fjölmargir sjálfboðaliðar, fyrirtæki og samtök muni áfram styðja við verkefnið á næsta ári sem mun styðja við ýmsar framkvæmdir og auka veg verkefnisins.

Skráning framkvæmda, fjárhagsáætlanir og árskýrsla (12.12.2008)

Þessar vikurnar hefur verkefnisstjóri setið við tölvu og tekið saman framkvæmdir ársins bæði sáningar, áburðardreifingu og gróðursetningu. Í þessu felst meðal annars Svinhagi As8kortlagning allra reita, skráning í töflur og stutt skýrsla til landeigenda á svæðinu, þar sem skráning gróðursetninga er borin undir hvern og einn. Á myndinni til hægri má sjá trjáreiti hjá tveimur landeigendum, en Páll Sigurðsson skógfræðinemi heimsótti flesta landeigendur og kortlagði reitina. Áburðardreifing og sáningar voru flestar skráðar með því að GPS tæki var safna upplýsingum í dráttarvélunum jafnóðum og verkið var unnið. Þessar upplýsingar eru svo settar inn á kortagrunn. Með þessum hætti má í framtíðinni finna alla þá staði sem unnið hefur verið á og fylgjast með framvindu. Upplýsingar um gróðursetningu verða sendar Skógrækt ríkisins sem setur þetta inn á kortagrunn sinn um alla trjáreiti Íslands, en allar upplýsingar um sáningar og áburðardreifingu verða senda Landgræðslu ríkisins sem geymir allar slíkar upplýsingar. Verður þessi vinna grunnurinn að ársskýrslu sem verkefnisstjóri vinnur að þessa dagana.

Áætlanir fyrir næsta ár eru einnig gerðar með aðstoð kortaforrita og eru allar framkvæmdir vors og sumars skipulagðar nú í vetur.

Ekki er enn að fullu ljóst um hversu mikið Hekluskógar bera úr býtum í Fjárlögum 2009. Þó er gert ráð fyrir a.m.k. 10% niðurskurði á fjárframlögum. Hekla hf og Landsvirkjun hafa lýst yfir að fyrirtækin ætla áfram að styðja við Hekluskóga á næsta ári. Verður meiri áhersla lögð á gróðursetningu birkis og minni áherslu á áburðargjöf. Ástæða þessa er að gróðursetningin skapar fleiri störf og nóg er af svæðum innan Hekluskóga sem eru tilbúin fyrir gróðursetningu. Áfram verður þó unnið að uppgræðslu á mörgum svæðum með sáningum og áburðardreifingu.

Grein í Bændablaðinu (18.11.2008)

Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Hrunamanna sem einnig er stjórnarformaður Hekluskóga ritar í dag ágæta grein um Hekluskóga verkefnið í Bændablaðið. Hægt er að lesa grein Ísólfs Gylfa með því að smella á tengilinn hér:  http://bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1196 .

Hekluskógar á Rás 1 (9.11.2008)

Fimmtudaginn 6. nóvember síðastliðinn mætti verkefnisstjóri Hekluskóga í viðtal í útvarpsþáttinn Vítt og breitt og sagði frá verkefninu. Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á tengilinn hér:http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4416435 .

Möguleg útbreiðsla birkis 40% af flatarmáli Íslands (30.10.2008)

New PictureMargir hafa getið sér til um mögulegt flatarmál birkiskóga á Íslandi við landnám. Oft hafa flatarmálstölur milli 20-30% verið nefndar, en þó niður í 8% og upp í 40%. Christoph Wöll sem er þýskur skógfræðingur lauk á dögunum skógfræðinámi frá Háskólanum í Dresden í Þýskalandi. Lokaverkefni Christophs fjallaði um skógarmörk birkis á Íslandi og tengsl markanna við meðalhita. Hann rannsakaði tengsl skógarmarka birkiskóga og hitafars og fór víða um land og skoðaði skóga frá fjalli til fjöru. Staðsetti Christoph skógarmörk á þessum stöðum og skilgreindi hvar meðalhæð skóganna var 1 og 2 m. Einnig skilgreindi hann efstu vaxtarmörk birkisins, þ.e. efstu birkitré í viðkomandi fjöllum. Skógarmörk voru breytileg á þeim stöðum sem Christoph heimsótti, frá 300 til 500 m.y.s. en aðeins 1°C skeikaði þó á meðalhita á þessum stöðum. Hitaþröskuldur (meðalhiti júní – ágúst) á hversu hátt birki gat vaxið reyndist vera 7°C á efstu trjámörkum. Við skógarmörk 1 m háa skógarins var hitaþröskuldurinn 7.7°C og við 2 m háan skóg 7,9°C. Hitaþröskuldarnir voru tengdir kortum með meðalhita og útbreiðslusvæði birkis. Að gefinni þeirri forsendu að hitastig væri eini takmarkandi þátturinn varðandi útbreiðslu birkis ætti birki, samkvæmt líkani Christophs að geta vaxið á um 40% af flatarmáli Íslands (sjá meðfylgjandi kort). Ennfremur ættu birkiskógar með 2 m meðalhæð að geta vaxið á um 25% landsins. Annar hluti rannsóknarinnar var að taka trjáskífur og lesa vaxtarhraða birkis á mismunandi svæðum úr trjáhringjum. Niðurstaðan var að vöxtur birkitrjáa á ýmsum aldri hefur aukist síðasta áratuginn, miðað við fyrri áratugi. Sá trjágróður sem fannst ofan skógarmarka var í flestum tilfellum ungur að árum og má því ætla að skógarmörk birkis muni á næstu árum færast upp á við. Trjámörk voru lægri nær ströndinni en inn til landsins. Til að reyna útskýra af hverju það stafaði var klórinnihald greint í trjáviði, ásamt því að skoða gögn um seltu í grunnvatni. Ekki sást neinn munur milli staða hvað varðar seltu í trjáviði, en saltinnihald í grunnvatni var lægra inn til landsins.

Verkefni Christophs og önnur hafa mikla þýðingu fyrir Hekluskóga. Töluverður hluti Hekluskóga er ofan 300 m hæðar og sýnir niðurstaða þessa verkefnis að birki getur auðveldlega vaxið ofan 300 m og yfir 500 m hæð sér í lagi inn til landsins. Þar sem birkinu sleppir tekur víðirinn við og má sjá víðibreiður hátt til fjalla.

3

Mynd sem sýnir mögulega útbreiðslu birkis yfir 2 m hár skógur (dökk grænn) og yfir 1 m hátt birkikjarr (ljósgrænn). Birt með leyfi Christoph Wöll.

2

Sama mynd og að ofan nema hér er bætt við landi undir 600 m hæð (brúnlitað) og vaxtarstöðum birkis í dag (svartur litur). Birt með leyfi Christoph Wöll.

[Heimild: Wöll, C. 2008. Treeline of mountain birch (Betula pbescens Ehrh.) in Iceland and its relationship to temperature. Technical University Dresden, Department of Forestry, diploma thesis in Forest Botany.]

Hekluskógar í Morgunblaðinu (28.10.2008)

Verkefnisstjóri sagði frá gangi verkefnisins og framtíðaráformum í Morgunblaðinu 28. okt. 2008. Hér er að neðan er greinin myndskreytt:

Hekluskógar – stærsta endurheimt birkiskóga á Íslandi

Síðustu ár hefur verið unnið að endurheimt birkiskóga í nágrenni Heklu. Var í fyrra stofnað sérstakt samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins um þessa endurheimt í samstarfi við fagráðuneyti stofnananna. Hefur þetta verkefni nokkra sérstöðu meðal skógræktarverkefna þar sem markmið verkefnisins er að verja lönd í nágrenni HekluDSC00851 gegn öskufoki sem vænta má í kjölfar öskugosa, með því að endurheimta birkiskóga. Verkefnið er því landgræðslu- og skógræktarverkefni í senn. Skógar eru það gróðursamfélag sem þolir hvað best öskufall og geta stálpaðir skógar bundið töluvert magn ösku án þess að bera skaða af. Starfssvæðið er gríðarstórt eða á stærð við Langjökul, um 90 þúsund hektarar lands sunnan, vestan og norðan við Heklu.

SONY DSCBirkiskógar uxu um aldir á Rangárvöllum, í Landsveit, Þjórsárdal, Árskógum og enn lengra inn til landsins. Enn finnast birkiskógar á svæðinu og má helsta nefna Hraunteig, Galtalækjarskóg, Búrfellsskóg, Þjórsárdalsskóga og skóga í Norður- og Suðurhraunum í nágrenni Selsunds. Einnig má finna minni birkitorfur og stök tré langt inn til landsins s.s. á bökkum Þjórsár innan við Sultartangalón. Vaxa skógar og í eyjum Þjórsár og Tungnár sem nú standa á þurru, t.d. Klofaeyjum, Hrauneyjum og Hríshólma. Bera þessir skógar vitni um að skilyrði fyrir slíka skóga eru ágæt á starfssvæði verkefnisins. Þó þessar minjar um merkur fyrri tíma finnist svo víða um svæðið er staðan sú í dag að Hekluskógasvæðið eru að miklu leyti ógrónir vikrar og foksandar.

DSC00476Hekluskógar hafa á síðustu árum eflt og samhæft það góða uppgræðslustarf sem bændur og aðrir landeigendur á Hekluskógasvæðinu, Landgræðsla ríkisins, Skógrækt ríkisins, landgræðslu- og skógræktarfélög, Landsvirkjun og fleiri hafa stundað á undanförnum áratugum. Í stuttu máli er verkefnið unnið með þeim hætti að græða fyrst upp örfoka lönd og stoppa sandfok, að gróðursetja svo birki, reynivið og víði í trjálundi og -belti og stuðla svo að frekari útbreiðslu trjágróðurs með sjálfssáningu.

Sumarið 2008 voru gróðursettar rúmlega 300 þúsund birki- og reyniviðarplöntur í uppgræðslusvæði. Ýmsir aðilar gróðursettu, þ.á m. bændur í nærliggjandi sveitum, verktakar og íþróttafélög, auk sjálfboðaliða frá ýmsum hópum og starfsfólk úr verkefni Landsvirkjunar „Margar hendur vinna létt verk“. Auk gróðursetningar var 210 tonnum af tilbúnum áburði dreift yfir 1200–1300 ha lands, sem svarar til alls undirlendis frá Kringlumýrarbraut í Reykjavík og allt Seltjarnarnesið út að Gróttu. Einnig var sáð grastegundum í ógróna foksanda í alls um 70 ha lands.

DSC00631Mikið fræ var á birki í haust. Auglýst var eftir aðstoð almennings við fræsöfnun. Mikil viðbrögð urðu við auglýsingunni og söfnuðust yfir 100 kg af fræi, sem svarar til 30–60 milljóna birkifræja. Skólahópar og aðrir sjálfboðaliðahópar heimsóttu Hekluskóga til að safna fræi. Almenningur sendi fræ til verkefnisins, annaðhvort beint eða til Orkuveitu Reykjavíkur sem tók á móti fræi frá höfuðborgarsvæðinu. Hefur birkifræinu nú þegar að mestu verið sáð beint í hálfgróin svæði og standa vonir til að upp af fræinu spretti trjálundir á næstu árum.

DSC00710

Verkefnið hefur leitað eftir stuðningi við fyrirtæki og hafa Hekla hf., Landsvirkjun og Síminn hf. stutt verkefnið síðustu tvö árin. Vilja aðstandendur Hekluskóga hér með þakka öllu því góða fólki og fyrirtækjum sem studdu við verkefnið í sumar með ýmsum hætti. Á næsta ári verður aukin áhersla lögð á gróðursetningu birkis og er gert ráð fyrir að gróðursettar verði a.m.k. 500 þúsund birkiplöntur. Er þetta ekki síst gert til að skapa fleiri störf við gróðursetningu og plöntuframleiðslu. Verður minni áhersla lögð á áburðardreifingu í ljósi mikilla hækkana á tilbúnum áburði.

Tækifæri verkefnisins

DSC00462Hekluskógaverkefnið er dæmi um verkefni sem sýnir að með aðstoð heimamanna og sjálfboðaliða má á hagkvæman hátt draga úr afleiðingum náttúruhamfara með endurheimt birkiskóga. Nauðsynlegt er að benda á mikilvægi þess að efla verkefni sem skapar atvinnu á lágtekjusvæðum, styður innlenda framleiðslu og uppfyllir samhliða markmið ríkisstjórnar Íslands um sjálfbæra þróun, líffræðilega fjölbreytni og þjónar sem mótvægi gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Hreinn Óskarsson Verkefnisstjóri Hekluskóga

Birkifræ enn að berast Hekluskógum (19.10.2008)

Ýmsir aðilar hafa stutt við Hekluskógaverkefnið á síðustuDSC00787DSC00783vikum með fræframlögum. Hópur úr Laugalandsskóla heimsótti verkefnið í mikilli  haustblíðu í upphafi október, sjá meðfylgjandi myndir. Kom sá hópur að Galtalæk og safnaði birki úr nærliggjandi skógum. Einnig hefur birkifræ borist í pósti frá leikskóla í Grafarvogi, Grundaskóla á Akranesi og sótt var fræ til Þjórsárskóla í Árnesi. Orkuveita Reykjavíkur tók á móti birkifræi frá almenningi á höfuðborgarsvæðinu fyrir Hekluskóga. Um 15 kg af birkifræi söfnuðust á þann hátt nú í haust og verður vonandi framhald á þessu samstarfi á næstu árum. Eitthvað af fræi barst í pósti á skrifstofu Hekluskóga, sem og á Selfossi. Stærstur hluti fræsins hefur verið sáð og verður sáð á næstu dögum á hentugum svæðum ofarlega á Hekluskógum. Hentug svæði eru hálfgróin lönd þar sem lítið er um holklakamyndun og sandfok.  Vilja aðstandendur Hekluskóga þakka sjálfboðaliðum kærlega fyrir ómetanleg framlög.

Verkefnisstjóri  safnaði einnig nokkrum kg af reyniberjum í trjágörðum og mun merja þau og geyma í sandpækli í vetur. Reynifræinu verður sáð snemma vors á valin svæði.

Fraeafhending

Kristinn H. Þorsteinsson frá Orkuveitu Reykjavíkur afhenti verkefnisstjóra það fræ sem safnaðist. Var starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur búið að þurrka fræið og setja í sekki. Ljósmynd: Árni Tryggvason.

Nemendur í Þjórsárskóla stilltu sér upp þegar þau afhentu birkifræið sem þau söfnuðu í Gjánni í Þjórsárdal. Þar hefur birki lifað alla Íslandsbyggð og verður það fræ nýtt til plöntuframleiðslu næsta vor.

DSC00798

Birki í 420 metra hæð yfir sjávarmáli í Hrauneyjum (3.10.2008)

Víða um Hekluskógasvæðið má finna birki, en líklega er þar hvergi að finna birki í meiri hæð en við sjálft Hrauneyjalón í Hrauneyjunum sem áður voru í miðri Tungná. Síðan Hrauneyjafossvirkjun var gerð hafa þessar eyjar verið á þurru og nú er birkið farið að breiðast út um nágrenni. Verkefnisstjóri var á ferðinni í gær með Friðþóri Sófusi Sigurmundssyni sem er að vinna að MSc verkefni um uppgræðsluaðgerðir Hekluskógasvæðinu ofanverðu. Var safnað fræi af trjánum í Hrauneyjum sem rækta á plöntur af næsta vor. Líklegt er að þessi tré séu minnisvarði um þá skóga sem fyrr uxu á Hekluskógasvæðinu ofanverðu og gæti í þessum trjám leynst aðlögunarhæfni til að vaxa við erfiðar aðstæður hátt inn til landsins. Framtíðin mun sýna hvort eitthvað er til í þeirri fullyrðingu. Meðfylgjandi myndir sýna trén sem hlaðin eru fræi eins og birki víða um sunnanvert landið.

DSC00766

Birkitrén í Hrauneyjum. Toppurinn á Heklu sést í baksýn.

Hvolsskóli safnar birkifræi (3.10.2008)

Enn einn skólinn lagði Hekluskógum lið. Að þessu sinni komu 71 nemandi úr 1-3 bekk Hvolsskóla í stilltu frostveðri og tíndu nemendurnir birkifræ í Bolholtsskógi. Eins og meðfylgjandi myndir bera með sér skemmtu krakkarnir sér hið besta. Kærar þakkir fyrir framlag Hvolsskóla.

fretti1

fretti11

fretti12

fretti13

fretti14

Nokkrar myndir af fræsöfnun og frædreifingu (26.9.2008)

Margir hópar hafa heimsótt Hekluskóga í haust, bæði til að fræðast um verkefnið og til að hjálpa til við fræsöfnun. Hekluskógar þakka öllum kærlega fyrir veitta aðstoð. Hér eru sýndar myndir af nokkrum hópum og að auki má smella hér til að sjá umfjöllun um framlag 4×4 í byrjun september.

DSC00633DSC00639

DSC00635_edited

DSC00631

DSC00627

3 og 4 bekkur úr Helluskóla safnaði birkifræi í Bolholti í mánuðinum og skemmtu nemendur sér hið besta. Var ferðin hluti af útivistarnámi krakkanna.

DSC00586

DSC00594

Hópur frá menntasamtökunum CELL sem dvelja á Sólheimum í háskólanámi í umhverfisfræðum í Sesseljuhúsi safnaði og dreifði birkifræi í byrjun september. Endaði hópurinn á ferð inn á örfæfi sem þeim þótti merkileg upplifun.

DSC00575_edited

h

Alþjóðlegur hópur menntaskólanema og kennara þeirra hvaðanæva úr heiminum heimsótti Hekluskóga sunnudagsmorguninn 7. september. Var stærstur hluti hópsins frá Kanada, en einnig nemendur frá Indlandi, Brasilíu, Bretlandi, Þýskalandi og fleiri löndum. Var þetta fyrsti hluti ferðar þar sem nemendurnir lærðu um áhrif hnattrænnar hlýnunar, en þau sigldu svo til Grænlands.

DSC00607_edited

Ráðuneytisstjórar Fjármálaráðuneytis, Umhverfisráðuneytis og Sjávarútvegs- og Landbúnaðar heimsóttu Hekluskóga snemma mánaðar ásamt stjórn Hekluskóga og skógræktarstjóra. Var þeim kynnt starfsemi verkefnisins og helstu verkefni sem framundan eru.

Auk þessara hópa hafa nokkrir erlendir hópar heimsótt verkefnið í ágúst og september.

Fræsöfnun á birki gengur vel (5.9.2008)

IMG_1512_editedUndanfarna daga hafa Hekluskógum borist birkifræ frá ýmsum aðilum og vilja forsvarsmenn verkefnisins þakka góð viðbrögð almennings. Einnig hafa skólar af Suðurlandi nú þegar safnað birkifræi fyrir Hekluskóga og von er á fleiri hópum. Stærsti hópur haustsins, tæplega 100 nemendur úr Fjölbrautaskóla Suðurlands, kom í Þjórsárdal miðvikudaginn 3. september og safnaði yfir 40 kg af óhreinsuðu birkifræi. Ef spírun í slíku fræi er góð t.d. 500 spírandi fræ í grammi má leiða líkum að því að nemendurnir hafi safnað um 20 milljón spírandi fræjum. Ef við gerum ráð fyrir að aðeins 1% þessara fræja spíri á þeim svæðum þar sem þeim verður dreift gætu komið 200 þúsund birkiplöntur upp. Verður slíkur skógur kærkomin viðbót við Hekluskóga.

Því birkifræi sem safnast, verður dreift á Hekluskógasvæðinu af sjálfboðaliðum á svæði þar sem aðstæður til spírunar eru góðar, t.d. hálfgróin hraun ofan til á svæðinu.

Enn er nóg af fræi á birkitrjám og eftir því sem líður á september og fræið verður lausara á trjánum verður léttara að safna. Þegar fræið er orðið laust þarf þó ekki nema eina góða haustlægð til að blása því af trjánum. Senda má birkifræið til Hekluskóga í Gunnarsholti, 851 Hella, eða afhenda það hjá Suðurlandsskógum á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands. í Reykjavík er móttaka á fræi hjá gömlu Rafstöðinni í Elliðaárdal Þar mun Orkuveita Reykjavíkur aðstoða Hekluskóga og vera með ílát sem hægt er að afhenda fræið beint í.

Hekluskóga getið í Selfossyfirlýsingu skógarmálaráðherra Norðurlandanna (25.8.2008)

Dagana 18 og 19. ágúst síðastliðinn var haldin ráðstefnafretti1anorrænna skógræktar ráðherra. Fyrri dag ráðstefnunnar fóru gestir hennar um Suðurland og heimsóttu meðal annars Hekluskógasvæðið. Lauk fundi ráðherranna með sameiginlegri yfirlýsingu þar sem Hekluskóga var sérstaklega getið. Hér má lesa klausuna um Hekluskóga:

Verndarskógrækt – Hekluskógar.
Skógur bindur jarðveg og heftir fok. Á ýmsum svæðum jarðar þar sem skógur hefur verið ruddur eða hann eyðst á annan máta eru stór uppblásturssvæði sem stofna löndum og byggð í hættu. Ástæða er til að skoða hvort og þá hvernig megi nýta skóg enn frekar til varnaraðgerða á þessum sviðum. Á Íslandi er nú að hefjast verkefni sem miðar að því að koma upp skógi umhverfis Heklu til heftingar ösku og sandfoks þegar til eldgoss kemur. Lærdómur úr því verkefni mun nýtast víðar á Íslandi og vonandi víða um heim.

Hér má lesa Selfossyfirlýsinguna í heild sinni.

DSC00508DSC00509DSC00499

Þátttakendur í skoðunarferðinni fengu ákaflega gott veður eins og sjá má á meðfylgjandi myndum úr Þjórsárdal.

Leitað til almennings um söfnun á birkifræi (22.8.2008)

Hekluskógar leita þessa dagana til almennings um söfnun á birkifræi. DSC09714Mikið fræár er á birki víða um Suðurland og vilja forsvarsmenn Hekluskóga því nýta tækifærið og fá sem mest birkifræ til sáninga í Hekluskóga. Verður því birkifræi sem safnað verður sáð í haust víðsvegar um Hekluskóga. Birkisáningar hafa víða gefist ágætlega og má um allt land sjá skóga sem vaxið hafa upp af fræi. Stór kostur er að dreifa má fræinu um torfært land þar sem gróðursetning er erfið og sá fræum beint t.d. brattlendi eða hálfgróin hraun.

Í einu grammi af birkifræi geta verið 500-1000 spírandi fræ, svo fljótlegt er að safna töluverðu magni fræja. Almenningur er hvattur til að njóta fagurra haustlita og safna birkifræjum í leiðinni.

Senda má birkifræið til Hekluskóga í Gunnarsholti, 851 Hella, eða afhenda það hjá Suðurlandsskógum á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands. í Reykjavík er móttaka á fræi hjá gömlu Rafstöðinni í Elliðaárdal Þar mun Orkuveita Reykjavíkur aðstoða Hekluskóga og vera með ílát sem hægt er að afhenda fræið beint í.

Starfsfólk Hekluskóga þakkar kærlega þeim sem styðja vilja við verkefnið á þennan hátt.

Nánari upplýsingar um birkifræ, fræsöfnun og sáningu má finna hér.

Gróðursetningar líta vel út (30.7.2008)

Á síðustu dögum hafa starfsmenn Hekluskóga unnið að úttektum á gróðursetningum.DSC00465Felst úttektin í því að kortleggja útmörk gróðursettra reita, mæla þéttleika þeirra, afföll, hæð og þvermál gróðursettra plantna. Ef plöntur hafa drepist er reynt að komast að orsökum þess að þær drápust. Niðurstöður úttekta sýna að gróðursetningar hafa í flestum tilfellum tekist mjög vel í sumar. Þó urðu nokkur afföll í Þjórsárdal, en þar var mjög þurrt fyrripart sumars og fjallaskúrir sem vökvuðu plöntur austan Þjórsár náðu ekki vestur í Þjórsárdal. Vöxtur hefur verið mikill bæði hjá nýgróðursettum plöntum sem og í eldri reitum.

Einnig verður gerð úttekt á árangri áburðargjafa og sáninga á næstu vikum. Um 220 tonnum af áburði var dreift á Hekluskógasvæðinu í sumar á vegum verkefnisins, auk þess hafa bændur dreift áburði á lönd sín og afrétti í tengslum við verkefnið Bændur græða landið. Lætur nærri að áburði hafi verið dreift yfir hátt í 1500 ha lands, sem er ríflega stærð Heimaeyjar.

Ertuyglur sem víða hafa farið um í miklum flokkum virðast sumsstaðar éta sig út á gaddinn. Í Sölvahrauni má víða sjá dauðar yglur á vikrunum, sér í lagi þar sem þær hafa étið upp lúpínubreiður. Hins vegar virðast birkiplöntur og annar trjágróður sleppa nokkuð vel við pláguna. Flestar birkiplöntur eru nú þegar komnar með brum og ættu því að þola laufmissi. Á myndunum hér að neðan má sjá soltnar og dauðar ertuyglur í uppétinni lúpínubreiðu.

DSC00488DSC00478

Nýr sumarstarfsmaður Hekluskóga – Páll Sigurðsson (30.7.2008)

DSC00421_editedHekluskógum barst liðsauki nú í vikunni þegar Páll Sigurðsson skógfræðinemi kom til sumarstarfa. Páll mun vinna í úttektum á gróðursetningum og sáningum, bæði hjá landeigendum og þar sem verktakar hafa unnið. Einnig ætlar Páll að viða að sér efni til að nýta til meistaranáms í skógfræðum, en Páll hefur síðustu ár numið skógfræði við Háskólann í Arkangelsk í Rússlandi.

Hér stendur Páll við stæðilega birkihríslu í Stóru-Klofaey en í þeirri ey, sem reyndar stendur nú á þurru, má finna best varðveitta dæmi um þá birkiskóga sem áður uxu um alla Árskóga.

Af ertuyglum (29.7.2008)

DSC00410Nú er ertuyglan orðin nokkuð áberandi allsstaðar þar sem lúpínu er að finna Hekluskógasvæðinu og víðar. Meðfylgjandi myndir voru teknar við Þjófafoss afleggjarann þar sem yglurnar hafa skriðið úr grassáningum inn í lúpínubreiðu og eru að éta upp allt lauf og jafnvel fræ hennar. Á myndinni til vinstri sést gul lína í jaðri grænnar lúpínubreiðu þar sem yglurnar eru í þúsundatali að gæða sér á lúpínunum. Þegar yglurnar hafa lokið við lúpínurnar fara þær í annan gróður og éta hann. Sem betur fer er birkið orðið ágætlega þroskað og við það að mynda brum og standa vonir því til að þau lifi það af að missa laufið á næstu vikum í yglumaga.

DSC00401DSC00397 

Ertuyglurnar óvenju snemma á ferð (24.7.2008)

Borist hafa ábendingar um að vágesturinn Ertuygla sé komin á kreik á Hekluskógasvæðinu og víðar. Fyrir þá sem ekki vita er ertuygla fræðimannaheiti yfir fiðrildalirfu nokkra sem áður hefur verið kölluð grasmaðkur eða sandmaðkur. Ertuygla er innlend tegund sem lifir aðallega á jurtum af ertublómaætt, t.d. baunagrasi og lúpínum og hefur á undanförnum árum magnast upp vegna hlýrra ára og mikillar aukningar áfretti9lúpínusáningum. Kvikindið er svart á litinn með gulum rákum á baki, sjá meðfylgjandi myndir. Étur ertuyglan fyrst og fremst lúpínu og aðrar jurtir af ertuætt eins og áður sagði, en er þó alæta og lætur sig hafa það að éta allan trjágróður meira að segja furu og greninálar þegar uppáhaldsrétturinn, lúpínan, er uppurinn.

Yglurnar hafa fundist í miklu magni víða um Suðurland síðustu ár og þá í ágúst og september. Hafa þær þá verið svo seint á ferðinni, að flestar trjátegundir hafa verið búnar að mynda brum og hausta sig. Hafa tré því sjaldnast beinlínis drepist af völdum yglunnar, heldur hefur þetta hægt á vexti eða valdið kali þegar trén hafa reynt að mynda nýja sprota.

fretti10Nú virðast ertuyglurnar þó vera heldur fyrr á ferðinni en síðustu sumur og hugsanlega í meira magni. A.m.k. hafa trjáræktendur nú þegar séð orminn étandi lauf á litlum birkitrjám og eru lúpínubreiður víða teknar að gulna vegna áts ormsins. Hafa sumir úðað trén með skordýra eitri sem ætti að hlífa trjánum fyrst um sinn. Þegar tré / lirfur eru úðuð virkar eitrið reyndar í fremur stuttan tíma og aðeins á þær lirfur eða önnur skordýr sem lenda í beinni snertingu við eitrið. Því er líklegt að úða þurfi plöntur oftar en einu sinni, jafnvel oftar en tvisvar, svo hægt sé að halda þeim lausum við maðkaát. Slík úðun er þó ógerningur þegar um þúsundir trjáa er að ræða.

Eins og staðan er nú þá er erfitt að segja hvort yglan verði alvarlegra vandamál í sumar en undanfarin ár. Þó er hún fyrr á ferðinni en undanfarin ár, en á móti kemur að allur gróður er líka kominn lengra í þroska en í venjulegu sumri.

Margar hendur vinna létt verk (10.7.2008)

DSC00332

Unglingar úr sumarvinnuhópum Landsvirkjunar hafa á undanförnum vikum gróðursett birkitré á Hekluskógasvæðinu auk þess að dreifa áburði og grasfræi á óaðgengilegum svæðum í nágrenniDSC00265Búrfellsskógar. Eru hóparnir á  vegum verkefnisins ,,Margar hendur vinna létt verk.”

Gróðursett var birki á Ferjufit og Vaðfit í litla lundi, ásamt því að gróðursett var með Fossá móts við Skeiðamannahólma. Hekluskógar þakka Landsvirkjun kærlega fyrir samstarfið á þessu sumri.

Á meðfylgjandi myndum sjást hóparnir tveir annar á Vaðfit og hinn við Þjófafoss. Á neðstu myndinni sjást unglingarnir dreifa grasfræi og áburði í rof í Búrfellsskógi.

DSC00309

Reyniviður fundinn í Búrfellsskógi (8.7.2008)

DSC00323

Á dögunum var verkefnisstjóri á ferð í Búrfellsskógi og rakst þar á nokkra reyniviði. Ekki hefur verkefnisstjóri rekist á neinar upplýsingar um að reyniviður yxi á þessum slóðum frekar en annarsstaðar í Þjórsárdal eða í birkiskógum við Heklurætur. Standa þessi tré austan Búrfellsskógarins á hálfgerðri eyju sem umlukin er Þjórsá að austanverðu, en tærri á að vestanverðu. Hefur Þjórsá fyrr á árum runnið beggja megin við eyjuna a.m.k. í vatnavöxtum og því gæti hún hafa verið friðuð fyrir beit á einhverjum tíma árs. Tvö stór reyniviðartré vaxa á svæðinu og eru þau margstofna, um 4-5 m há og voru í fullum blóma mánaðarmótin júní-júlí. Umhverfis þessi gömlu tré uxu mörg smærri reyniviðartré. Ekki er hægt að fullyrða hvort um náttúrulegan reynivið sé að ræða, en vaxtarlagið og vaxtarstaðurinn gæti bent til þess að svo sé. Ef einhver hefur upplýsingar um þessa reyniviði þá má viðkomandi hafa samband við verkefnisstjóra Hekluskóga.

DSC00325 DSC00326_edited DSC00322

Sjálfboðaliðar vinna við Hekluskóga (10.6.2008)

Félagar úr sjálfboðaliðasamtökum Íslands unnu að gróðursetningu, áburðargjöf og sáningum s.l. helgi. Voru birkiplöntur gróðursettar í Kjalrakatungum og á Skarðstanga. Eru þessir staðir nálægt Þjófafossi, austan og sunnan Þjórsár rétt við Búrfell. Einnig var sáð grasfræi og áburði dreift á nýsáningar birkis sem borist hafa yfir Þjórsá úr

DSC00148DSC00149DSC00132

Búrfellsskógi á síðustu árum. Garðar Þorfinnsson frá Landgræðslu ríkisins verkstýrði sáningum og áburðardreifingu, en verkefnisstjórinn sá um gróðursetningarnar. Gisti hópurinn í Galtalæk hjá Sigurbjörgu og Sveini. Hekluskógar þakka sjálfboðaliðunum kærlega fyrir gott starf.

DSC00170DSC00168DSC00137

Framkvæmdir um alla Hekluskóga (3.6.2008)

Mikið hefur verið að gera í ýmiskonar framkvæmdum á Hekluskógasvæðinu undanfarnar vikur. Nokkrir hópar hafa komið og gróðursett tré, sett upp tilraunir, borið á eldri gróðursetningar. Haldið var námskeið fyrir fyrir fólk á svæðinu og nágrenni sem snérist um hvernig koma mætti upp skógi á örfoka landi. Tókst það í alla staði vel og var mæting ágæt.

DSC00028DSC00022DSC00024

Vélar hafa verið nýttar til gróðursetninga sem og verktakar með plöntustaf. Hefur sú gróðursetning gengið ágætlega, en þó lítur út fyrir að henni ljúki fyrr en gert var ráð fyrir vegna skorts á plöntum hjá Barra hf sem tók að sér ræktun fyrir verkefnið. Verður úr því bætt með auknum sáningum og hugsanlega haustgróðursetningum.

DSC00050DSC00059DSC09988

Sáningar eru langt komnar og er aðallega unnið inn við Melfell og melgresi sáð í sandfoksgeira sem þar koma niður austan af afrétti. Áburðardreifing er einnig í gangi og mun verða dreift um 160 tonnum af áburði yfir rúma 1000 ha lands víðs vegar um ofanvert og austanvert Hekluskógasvæðið.

DSC09943DSC00001DSC00108

Í vor var smíðuð plöntukerra fyrir Hekluskóga sem getur tekið rétt tæp 40 þúsund plöntur. Keypt var tilbúin Humbaur kerra og smíðaði Haraldur Magnússon á Hellu hillugrind fyrir plöntur á hana. Var svo saumað segl á kerruna hjá Tjaldborg Hellu.

Að breyta sandi í skóg – endurheimt skóglendis á örfoka landi (3.5.2008)

16-17. maí n.k. verður haldið námskeið sem ber heitið ,,að breyta sandi í skóg – endurheimt skóglendis á örfoka landi”. Er um að ræða námskeið á vegum Grænni skóga sem er endurmenntunarverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á uppgræðslu og trjárækt á rýru landi. Fjallað verður um vaxtarskilyrði á rýru landi, þá þætti sem móta það (jarðveg, rof, frosthreyfingar, vind og vatn) og leiðir til að bæta þau. Kynntar verða helstu aðferðir og tegundir sem notaðar eru við uppgræðslu á rýru og örfoka landi og fjallað um þá þætti sem ráða vali á aðferðum hverju sinni. Sérstaklega verður fjallað um leiðir til að koma trjágróðri í örfoka land og hvernig hægt sé að stuðla að sjálfsáningu þeirra trjá- og runnategunda sem notaðar eru í Hekluskógaverkefninu. Aðferðir við gróðursetningu og beinstungu græðlinga verða sýndar og sagt verður frá því hvernig haga skuli að áburðargjöf á plöntur og stiklinga. Farið verður yfir hvernig landeigendur á Hekluskógasvæðinu geta tengst eða komið að Hekluskógaverkefninu. Hvort sem um er að ræða plöntustyrki eða vinnu við verkefnið. Farið verður í vettvangsferð á svæðinu og ræktun við erfiðar aðstæður skoðuð. Kennarar: Ása L. Aradóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Hreinn Óskarsson skógfræðingur hjá Hekluskógum og Guðmundur Halldórsson rannsóknarstjóri Landgræðslu ríkisins. Tími: Fös. 16. maí 16:00–19:00 og lau. 17. maí 9:00–17:15 í Frægarði Gunnarsholti (14 kennslustundir). Verð: 15.900 kr. (Innifalið eru námskeiðsgögn, kaffi á námskeiðinu og matur í hádeginu á laugardeginum). Staðfestingargjald: Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra 4.800kr (óafturkræft) á reikninginn 1103-26-4237, kt. 411204-3590. Skráning á námskeiðið er á endurmenntun@lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími) eða í síma 433-5000. Skráningarfrestur er til 12. maí.

Sjá einnig á vef Landbúnaðarháskóla Íslands.

Námskeið fyrirhugað í maí (18.4.2008)

Þessa dagana er verið að undirbúa námskeið fyrir landeigendur á Hekluskógasvæðinu og víðar. Hefur námskeiðið vinnuheitið ,,Frá örfoka landi til skógar” og er stefnt að því að halda það í Gunnarsholti dagana 16.-17. apríl n.k. Nánari dagskrá verður auglýst á næstu dögum.

Hekluskógar fá bíl (18.3.2008)

DSC09897

Hekluskógar fengu í síðustu viku afhentan bíl frá Heklu hf Mitzubishi L200. Er bíllinn tekinn á rekstrarleigu frá SP-Fjármögnun á þriggja ára samningi, svipuðum almennt gerist hjá fyrirtækjum ríkisins. Verkefnisstjóri heimsótti skógarvörðinn á Suðurlandi í Þjórsárdal í síðustu viku og skoðaði árangur gróðursetninga á söndum Þjórsárdals. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tækifæri.

 DSC09904_editedDSC09903_edited

DSC09906_editedDSC09908DSC09902_edited

Vetrarferð verkefnisstjóra (9.8.2008)

Verkefnisstjóri fór ásamt Sveini Sigurjónssyni á Galtalæk í skoðunarferð um hluta Hekluskóga í byrjun mars. Enn var snjór yfir mestöllu svæðinu, en töluverðar leysingar víða. Haust- og vetrarstormar hafa valdið þónokkrum skemmdum á gróðri og hefur börkur víða skafist af eystri hlið trjáplantna sem gróðursettar hafa verið síðustu sumur og haust. Var þetta áberandi sér í lagi á hálfgrónum svæðum, en mun minna þar sem gróður var þéttari. Ekki er þó líklegt að plöntur muni drepast af þessum völdum. Meðfylgjandi myndir sem verkefnisstjóri tók sýna trjáplöntur og leysingar á svæðinu. Á myndinni sem lengst er til hægri í efri röðinni hér að neðan sést hversu mikið land hækkar eftir að sáð er í það. Landhækkunin verður vegna þess að gróðurinn bindur foksand og vikur og getur verið allnokkur, 20-30 cm fyrstu árin, næst jaðrinum. Myndar því leysingavatnið lón ofan sáninganna og er þetta því sérstaklega áberandi á þessum tíma árs.

DSC09882_editedDSC09888_editedDSC09886_edited

DSC09890sma1 DSC09883_editedDSC09891_edited  

Unnið að áætlanagerð og ýmsum verkefnum (15.2.2008)

Þessar vikurnar vinnur verkefnisstjóri að ýmsum verkefnum á skrifstofunni. Gerð hefur verið fjárhagsáætlun sem samþykkt hefur verið af stjórn Hekluskóga og Umhverfisráðuneytinu. Þar er gert ráð fyrir að um 37 milljónir fari í beinar framkvæmdir á Hekluskógasvæðinu, þ.e. gróðursetningu, sáningar og áburðargjöf. Reiknað er með að gróðursettar verði um 470 þúsund birkiplöntur á þessu ári. Verður auglýst eftir verktökum í það verk á næstunni. Plöntukaup fyrir árið 2009 voru boðin út um daginn og bárust tilboð frá þremur ræktendum. Nánar verður gerð grein fyrir niðurstöðu útboðsins á næstunni. Bókhald Hekluskóga er vistað hjá Fjársýslu ríkisins, en stofnunin sér um bókhald fyrir ríkisverkefni þeim að kostnaðarlausu. Einnig vinnur verkefnisstjóri að því að kynna verkefnið fyrir fyrirtækjum, félögum og einstaklinum sem hugsanlega vilja koma að verkefninu með stuðning eða beinar aðgerðir. Er töluverður áhugi á verkefninu og kemur nánar í ljós á næstu vikum hverjir vilja styðja verkefnið á næstu árum.

Kaupþing gaf Hekluskógum húsgögn í skrifstofu Hekluskóga í Gunnarsholti og vill verkefnisstjóri sérstaklega þakka það góða framlag.

 

Hekluskógar opna skrifstofu í Gunnarsholti (2.1.2008)

1. janúar 2008 hóf nýr verkefnisstjóri, Hreinn Óskarsson skógfræðingur,  störf hjá Hekluskógum og flutti inn á skrifstofu Hekluskóga sem staðsett er á annari hæð í nýrri viðbyggingu frægarðs Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti. Enn á eftir að setja upp nauðsynlegan skrifstofubúnað en verður það gert á næstu dögum.

Um áramótin færðust Hekluskógar frá Landbúnaðarráðuneytinu yfir í Umhverfisráðuneytið ásamt Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Nú taka því við spennandi tímar hjá Hekluskógum, enda má segja að verkefnið sé loks formlega komið í gang.