Vandamál í nýskógrækt

Byggt að hluta á pistli frá Guðmundi Halldórssyni

Á fyrstu árunum eftir gróðursetningu verða oft veruleg afföll af trjáplöntum af völdum holklaka og  meindýra en einnig geta plöntur drepist af völdum sjúkdóma.


Holklaki

Hindra má frostlyftingu með því að sá einærum grastegundum, t.d. rýgresi við trjáplöntuna ásamt hæfilegum áburðarskammti.
·        Nota sama áburðarskammt og mælt er með í áburðarleiðbeiningum eða 15-20 g á plöntu dreift í kring.
·        Dreifa skal rýgresisfræi á dálítinn blett (10- 15 cm radíus) kringum plöntuna.
·        Nota skal 10-20 fræ/trjáplöntu.
·        Ágætt er að blanda áburði og fræi saman í réttum hlutföllum og útbúa síðan ílát sem taki þann skammt sem hæfir fyrir eina plöntu (t.d. skera ofan af filmuboxi).
·        Ef þetta er gert verður að gæta þess að hræra stöðugt í blöndunni svo áburður og fræ skiljist ekki að.

Oft dugar að dreifa áburði einum og sér enda eru grös oft fljót að spretta upp t.d. á melum og uppgræðslusvæðum og binda yfirborð jarðvegsins. Á myndinni hér að ofan sést hvernig birki lyftist upp á gróðurlausum svæðum ef ekkert er að gert og flestar plöntur drepast á fyrstu vetrunum á slíkum svæðum.

Þurrkar

Alvarlegir þurrkar eru algengir á Hekluskógasvæðinu. Jarðvegur er yfirleitt vikurkenndur og oft á tíðum grunnur og þornar hann því fyrr en almennt gerist. Nokkur ráð er vert að hafa í huga þegar trjáplöntur eru gróðursettar á þurrkasvæðum og má helst nefna:

·       Að gróðursetja eins snemma og mögulegt er t.d. í apríl eða maí þegar jarðvegur er enn vel rakur. Þá mynda plöntur fyrst rætur áður en þær laufgast.
·       
Ef gróðursett er frá miðjum maí fram í miðjan júní og þurrt er. Að nota plöntur sem geymdar hafa verið í frysti yfir veturinn, en þær byrja á því að ræta sig áður en þær laufgast.
·       Að gróðursetja plöntur djúpt þ.e. jafnvel 5-10 cm dýpra en yfirborð hnaussins. Meiri raki er á 5-10 cm dýpi en við yfirborð jarðvegsins.

! Alls ekki gróðursetja allaufgaðar plöntur í þurru veðri nema það sé mögulegt að vökva plönturnar bæði fyrir og eftir gróðursetningu.

! Alls ekki setja tilbúinn auðleystan áburð í sömu holu og trjáplantan og alls ekki dreifa of stórum áburðarskömmtum í kring um plöntuna. 15-20 g á hverja plöntu er hæfilegur skammtur.

Veðurskemmdir

Sand og vikurstormar eru algengir á Hekluskógasvæðinu. Í slíkum stormum fjúka oft stórir vikurmolar af stað og geta á nokkrum klukkutímum spænt upp börk á trjám, jafnvel stálpuðum trjám. Því er mikilvægt að græða upp landið áður en byrjað er á trjárækt og binda þar með vikur og sand. Einnig er gott að hafa í huga að verstu stormarnir í nágrenni Heklu koma úr Norðan/Norðaustan/Suðaustan áttum. Því er gott að setja plöntur á skjólsæla staði fyrir þessum vindáttum.

Meindýr

Helstu skaðvaldar á plöntum í mólendi og víðar fyrstu árin eftir gróðursetningu eru ranabjöllulirfur.  Einkennin eru þau að plöntur eru líflitlar og nýjar nálar/lauf smáar og fölar.  Þegar plantan er tekin upp er rótakerfið meira eða minna étið og sést gjarnan í hvítan viðinn á rótinni.  Oft er öll rótin étin og er plantan þá að sjálfsögðu laus.

Helstu varnaraðgerðir eru:
·        Nota kröftugar plöntur.
·        Nota plöntur sem eru smitaðar af svepprót sé völ á slíku.
·        Gróðursetja að hausti eftir að varpi ranabjöllu lýkur.
·        Hraða vexti plantna með áburðargjöf svo þær vaxi sem fyrst upp úr þessu vandamáli.
·  
      Unnt er að dreifa skordýraeitri (sama eitur og gegn kálflugu) á plöntur eftir gróðursetningu, en það er dýrt og vinnuaflsfrekt og auk þess er um hættuleg efni að ræða.

Ertuyglur geta verið töluverður skaðvaldur á trjágróðri bæði innan og utan lúpínubreiða. Ertuyglur hafa þó verið algengar síðustu árin t.d. í Þjórsárdal og þar virðist birki þola át kvikindisins, en sér í lagi sígrænar trjátegundir virðast fara verr.

sjá t.d. http://www.skogur.is/rannsoknir-og-verkefni/rannsoknafrettir/nr/701

Nýlegur landnemi birkismugan hefur dreifst um landið á síðustu árum og valda því að hluti laufblaða á birkitrjám verður brúnleitur, en lirfa birkismugunnar étur blöðin upp að innan. Það eru þó yfirleitt fyrstu blöð sumarsins sem skemmast og blöð sem myndast síðar um sumarið á vaxtarsprotum eru yfirleitt óskemmd.

sjá t.d. http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/546

http://v2.nepal.is/Opna_Gallery_Mynd.asp?Sid_Id=39148&Par_id=281310&MpId=2917&page=2

Ýmsar nýlegar tegundir sem herja á eldra birki og aðrar trjátegundir má finna hér :

New arthropod herbivores on trees and shrubs in Iceland and changes in pest dynamics: A review

 

 Sjúkdómar

Engir alvarlegir sjúkdómar herja á ungplöntur af birki hér á landi.  Þó getur ryðsveppur komið upp í birkibökkum, en slík sveppasýking nær sér best upp í þéttum breiðum af plöntum.  Besta ráð til að draga úr ryðskemmdunum er að gróðursetja plönturnar sem fyrst, en sveppurinn þrífst illa þar sem vel loftar um plöntur.