Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2007.
Hekluskógar vettvangur rannsókna (28.11.2007)
Hekluskógasvæðið er vettvangur ýmiskonar rannsóknaverkefna. Stærsta rannsóknaverkefnið sem í gangi er þessi misserin er verkefnið Skógvatn. Þar koma ýmsir aðilar að rannsóknum á ám og lækjum sem renna um hluta Hekluskógasvæðisins. Afmarkast rannsóknasvæðið af lækjum sem renna út í Ytri-Rangá frá Svínhaga í suðri upp að Næfurholti í norðri. Markmið rannsóknaverkefnisins er að skoða áhrif gróðurs í umhverfi ánna, á líf í þeim og vatnsgæði þeirra. Nú þegar vinna nokkrir sérfræðingar á ýmsum stofnunum að verkefninu, auk þess að þrír nemendur nýta það til meistaranáms. Verkefnisstjóri Skógvatns er Bjarni Diðrik Sigurðsson skógfræðiprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Heimasíða verkefnisins er á ensku www.skogvatn.is.
Annað rannsóknaverkefni sem er að hefjast á svæðinu er meistaraverkefni Elínar Fjólu Þórarinsdóttur sérfræðings hjá Landgræðslu ríkisins. Verkefni hennar er að ákvarða magn og eðli sandfoks á svæðum norðan og vestan Heklu og áhrif uppgræðslu á fokið. Ætlar hún með aðstoð loftmynda að kortleggja helstu vatnsfarvegi til að meta umfang vatnsrofs og framburð vatns á fokefnum á svæðinu, sem og að kortleggja helstu sandleiðir, þ.e. þær leiðir sem foksandur berst helst eftir inn á svæðið og innan þess. Til að meta magn sands og vikurs sem er á ferðinni hefur Elín sett upp svokallaðar sandgildrur víða um svæðið. Á meðfylgjandi mynd má sjá Garðar Þorfinnsson við eina gildranna.
Útskriftarnemar frá ML sá birki (21.10.2007)
Laugardaginn 20. október fengu Hekluskógar nokkra duglega útskriftarnema frá Menntaskólanum á Laugarvatni til liðs við verkefnið. Nemendurnir eru að safna sér fyrir utanlandsferð næsta sumar og leita ýmissa leiða til að fjármagna ferðina. Nemendurnir sáðu birkifræi ættað frá Kvískerjum í Öræfum á þrjú svæði í nágrenni Hálendismiðstöðvarinnar við Hrauneyjar. Er þetta hluti af birkifræi sem Kvískerjabræður söfnuðu s.l. haust. Hraunin í nágrenni Hálendismiðstöðvarinnar eru hentugt svæði til beinna sáninga birki en þar er kominn töluverður víðir og má víða finna hæfilega illa gróna bletti til að sá birkinu í. Samkvæmt rannsóknum Sigurðar H. Magnússonar á Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri sérfræðinga er best að sá í svæði sem hafa fremur þunna gróðurþekju (lágplöntuskán), en hvorki vel gróin svæði né ógróna sanda né flög. Bestur árangur næst ef sáð er í nágrenni víðibrúska, því þá nær birkið fljótt og vel í hentugar svepprætur frá víðinum. Rannsóknir sýna ennfremur að birkið spírar á nokkrum árum og fer árangur ekki að sjást fyrr en að 5-10 árum liðnum.
Verkefnisstjóri Hekluskóga ráðinn (14.10.2007)
Fimmtudaginn 11. október réð stjórn Hekluskóga Hrein Óskarsson skógarvörð S.r. á Suðurlandi í stöðu verkefnisstjóra Hekluskóga. Staðan var auglýst um miðjan september og rann umsóknarfrestur út 1. október. Umsækjendur voru 5. Stjórnina skipuðu Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður stjórnar Hekluskóga, Jón Loftsson, skógræktarstjóri og Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri. Eftir að hafa rætt við alla umsækjendur og varð það niðurstaðan að bjóða Hreini Óskarssyni, skógarverði á Suðurlandi stöðuna. Mun hann hefja störf sem verkefnisstjóri Hekluskóga frá og með 1. janúar 2008. Guðmundur Halldórsson og Hreinn Óskarsson sem setið hafa í stjórn Hekluskóga viku sæti í ráðningarferlinu vegna tengsla við umsækjendur.
Hekluskógar á fjárlögum 2008 (1.10.2007)
Þau ánægjulegu tíðindi hafa borist af fjárlögum næsta árs að Hekluskógar hafi fengið 50 milljónir eins og gert var ráð fyrir í samningi við Landbúnaðarráðherra og Fjármálaráðherra annarsvegar og Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar hinsvegar. Eru þetta mikil og góð tíðindi fyrir verkefnið og aðstandendur þess, sem þakka ráðamönnum sérstaklega vel unnin störf í fjárlagavinnunni. Sjá nánar á fjárlagavefnum www.fjarlog.is .
Stjórn Hekluskóga hittir ráðherra (15.9.2007)
Á dögunum fór stjórn Hekluskóga á fundLandbúnaðarráðherra Einars K. Guðfinnssonar þar sem honum var gerð grein fyrir Hekluskógaverkefninu og starfsreglum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar um Hekluskógaverkefnið. Einnig sat Níels Árni Lund úr Landbúnaðarráðuneytinu fundinn.
Á fundinum fór stjórn Hekluskóga fram á við ráðherra að 28 milljóna fjárveiting yrði tryggð á fjáraukalögum sem og að 50 milljónir til Hekluskóga kæmu inn á Fjárlög 2008 eins og samningur um Hekluskóga gerir ráð fyrir.
Tók ráðherra stjórnarmönnum vel sagðist munu gera sitt besta til að Hekluskógar fengju fjármagn.
Á ljósmyndinni eru f.v.: Ísólfur Gylfi Pálmason formaður stjórnar Hekluskóga, Einar K. Guðfinnsson landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra, Hreinn Óskarsson fulltrúi Skógræktar ríkisins í stjórn Hekluskóga, Guðmundur Halldórsson fulltrúi Landgræðslu ríkisins og Níels Árni Lund frá Landbúnaðarráðuneytinu. Ljósmynd: Björn Friðrik Brynjólfsson.
Gróðursett með vél í Hekluskóga (5.9.2007)
Eftir hið þurrasta sumar í manna minnum hefur ræst úr og hver rigningarlægðin rekur aðra. Er vætan kærkomin bæði fyrir trjáplöntur sem og sáningar sumarsins sem hafa tekið vaxtarkipp eftir fór að rigna.
Sáningar í Þjórsárdal vestan Reykholts.
Í sumar hafa heimamenn gróðursett tæp 50 þúsund plantna á uppgræddum svæðum við veginn að Þjófafossi austan Búrfells í Þjórsárdal. Munu heimamenn vinna við gróðursetningu eitthvað fram eftir hausti.
Nú allra síðustu daga hefur gróðursetningarvél verið við störf í Hekluskógum. Þar er um að ræða ameríska vél af gerð C12 sem verktakafyrirtækið Græni drekinn starfrækir. Hefur vélin gróðursett allt að 10 þúsund plöntur á dag í landsvæði sem er austan við Þjófafoss og hentar vel til vélgróðursetningar. Verður reynt að nýta slíkar vélar á næstu árum til gróðursetningar samhliða gróðursetningu heimamanna og annarra verktaka.
Haustar vel í Hekluskógum (1.9.2007)
Eftir hið þurrasta sumar í manna minnum hefur ræst úr og hver rigningarlægðin rekur aðra. Er vætan kærkomin bæði fyrir trjáplöntur sem og sáningar sumarsins sem hafa liðið fyrir þurrkana. Gróðursetning hefur gengið vel undanfarið og hafa bændur á Heklubæjunum að mestu séð um hana í verktöku.
Ertuygla hefur verið heldur ágengari í lúpínubreiðum á Suðurlandi en undanfarin ár. Ertuygla lifir eins og nafnið bendir til mestmegnis á ertublómum t.d. lúpínu, smára og umfeðmingi, en þegar allt þrýtur leggur hún allt grænfóður sér til munns. Þó yglurnar éti lauf trjáa standa vonir til að trén lifi það af enda flest tré farin að hausta sig og setja brum.
Meðfylgjandi mynd sýnir hversu þétt var setið á birkigreinum í Þjórsdælskri lúpínubreiðu í lok ágúst.
Gróðursetning tefst enn vegna þurrka (16.8.2007)
Þrátt fyrir að aðeins hafi bleytt í jörðu þá fáu rigningardaga sem komu, herja þurrkar enn sem aldrei fyr á Hekluskógasvæðinu. Nýgróðursettar plöntur þola illa slíka þurrka og hefur því verið hægt verulega á gróðursetningu í bili.
Eldri trjágróður sprettur þó afar vel jafnvel plöntur sem settar voru síðasta sumar. Ljóst er að ljúka þarf gróðursetningu sumarsins í haust, en vonir standa til að bleyti heldur í jörðu þegar hausta tekur.
Myndin er úr Sandártungu í Þjórsárdal, en þar hefur gróðursetning birkis síðustu árin tekist ágætlega.
Loks rigndi á Hekluskógasvæðinu (21.7.2007)
Eftir langa þurrka, þá lengstu í manna minnum á þessum árstíma, rigndi á Hekluskógasvæðinu. Ekki var þó um mikið magn að ræða, en það vætti þó yfirborðið, vökvaði smáplöntur og minnkar hættu á foki á svæðinu.
Gróðursetning á trjáplöntum hefur verið í lágmarki vegna þurrkana, en verður nú sett á fullt þar sem allt lítur út fyrir að meira væti á næstunni. Bændur á Heklubæjunum og nærliggjandi bæjum sjá að mestu um gróðursetningu þetta árið.
Af öðrum verkefnum á Hekluskógasvæðinu má nefna að lifun og vöxtur tilraunareita sem gróðursettir voru síðasta ár hefur verið mæld og unnu franskir og sænskir skógfræðinemar mest af þeirri vinnu, auk starfsfólks frá L.r. og S.r. Niðurstöður þeirra mælinga verða birtar hér á síðunni á næstu vikum.
Ljósmyndin sýnir birki sem vex við Oddagljúfur austan Bjólfells. Mikill vöxtur hefur verið í birki og öðrum gróðri þar sem plöntur ná í nægan raka.
Umfangsmiklar sáningar og áburðardreifing á Hekluskógasvæðinu (11.7.2007)
Í maí og júní fóru fram umfangsmiklar sáningar og áburðardreifing á Hekluskógasvæðinu. Unnið var á ýmsum svæðum, en mest áhersla lögð á að græða upp lönd þar sem sandfok er mikið. Lítið hefur spírað enn af sáningum sumarsins vegna mikilla og langvarandi þurrka, en vonir standa til að væti síðsumars og vel takist til. Síðar verður hér á síðunni nánar sýnt á kortum hvaða svæðum var unnið á.
HEKLA gróðursetur í Hekluskóga (10.6.2007)
Starfsmannafélag HEKLU kom sunnudaginn 10. júní 2007 í hópferð á Hekluskógasvæðið. Var farið að Merkihvoli og gróðursett þar í lundi með leiðsögn frá aðstandendum Hekluskóga. Veður var ágætt og stillt og hlýtt. Komu yfir 100 manns á staðinn og var þeim skipt í nokkra hópa með þar til gerðum litaborðum. Gróðursettu hóparnir svo um 1500 birkiplöntur hver í sitt svæði auk reyniviðarplantna. Og stóðu ungir sem aldnir sig gríðarvel í vinnunni. Mun á næstu árum spretta upp myndarlegur birkiskógur á svæðinu sem sjást mun vel frá þjóðveginum. Eftir gróðursetninguna fór hópurinn niður í Galtalækjaskóg þar sem haldin var myndarleg grillveisla með ýmsum skemmtiatriðum. Hekluskógar þakka HEKLU kærlega veittan stuðning við verkefnið með vonum um ánægulegt samstarf um komandi ár.
Hér má sjá nokkrar myndir af viðburðinum.
Sjálfboðaliðar, erlendir skógræktarmenn og ferðafélagar á ferð um Hekluskógasvæðið (4.6.2007)
Um helgina voru sjálfboðaliðar við störf á Hekluskógasvæðinu. Voru þessir sjálfboðaliðar frá íslensku sjálfboðaliðasamtökunum. Þeir gróðursettu birki, 2000 plöntur, báru á eldri lundi og dreifðu birkifræiskammt neðan Hrauneyja. Hekluskógar þakka þetta góða framlag. Einnig heimsótti hópur erlendra skógræktarmanna svæðið í tengslum við fund NOLTFOX sem haldinn var hér á landi.
Á sunnudag var Ferðafélag Íslands með fræðsluferð um Hekluskógasvæðið. Leiðsögumenn voru Guðmundur Halldórsson, Guðjón Magnússon og Hreinn Óskarsson. Var farið úr Reykjavík og ekið fyrst upp í Þjórsárdal. Þar voru skoðuð gömul lúpínusáningarsvæði sem birki hefur verið gróðursett í með ágætum árangri. Svo var gengið inn í skóginn í Þjórsárdal og skógarkaffi og meðlæti snætt á sk. Selfitum. Þvínæst var ekið upp Þjórsárdal og yfir í Árskóga, þar tók Sveinn Sigurjónsson við fararstjórn og lýsti aðstæðum á svæðinu. Í landi Galtalækjar Á móts við Merkihvol gróðursettu Ferðafélagar í lítinn trjálund. Haldið var áfram í Bolholt þar sem Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri tók við leiðsögn og fylgdi hópnum niður í Gunnarsholt. Eftir kaffidrykkju í Gunnarsholti var svo haldið til Reykjavíkur.
HEKLA semur við Hekluskóga um kolefnisjöfnun (16.5.2007)
Bifreiðaumboðið HEKLA hefur samið við Hekluskóga um að kolefnisjafna alla starfsemi fyrirtækisins frá og með deginum í dag. Einnig mun fyrirtækið láta Hekluskóga græða lönd og rækta upp skóga sem binda sem svarar kolefnislosun allra nýrra Volkswagenbíla fyrsta árið.
Samkomulag þessa efnis var undirritað í dag í höfuðstöðvum Heklu af Knúti G. Haukssyni, forstjóra Heklu og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, formanni verkefnisstjórnar Hekluskóga. Við sama tækifæri var gengið frá kolefnisjöfnun fyrsta Volkswagenbílsins.
Í ræðu Knúts nefndi hann að skógrækt og landgræðsla væri einföld og áhrifarík aðferð til að bæta umhverfið og eyða óæskilegum áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Ísólfur Gylfi kvað þetta samstarf afar mikilvægt fyrir Hekluskóga og að fyrir þetta framlag Heklu yrðu gróðursettar um 600 þúsund birkiplöntur sem skipt yrði í 1.000 litla lundi. Frá lundunum mun birkið dreifast um svæðið með fræi og lundirnir stækka. Að 35 árum liðnum mun þetta framlag Heklu hafa breiðst út um 800 hektara lands, sem er álíka svæði og sjálfur Hallormsstaðaskógur.
Síðan var fyrsti kolefnisjafnaði bíllinn afhentur og fylgdi honum lagleg birkiplanta ættuð úr uppsveitum Suðurlands.
Nánar um málið á vefsíðu Heklu.
Fyrsti stjórnarfundur Hekluskóga (14.5.2007)
Í dag var haldinn fyrsti fundur stjórnar Hekluskóga. Var fundurinn haldinn í Gunnarsholti. Í stjórinni sitja Ísólfur Gylfi Pálmason formaður stjórnar fyrir hönd Landbúnaðarráðherra, Guðmundur Halldórsson fyrir hönd Landgræðslu ríkisins og Hreinn Óskarsson fyrir hönd Skógræktar ríkisins. Mun stjórnin hittast hálfmánaðarlega fyrstu mánuði verkefnisins. Fyrstu verk stjórnar voru m.a. að panta fleiri plöntur til verkefnisins, styrkja rannsóknaverkefnið SKÓGVATN og ræða ráðningu starfsmanns.
Kvískerjafræi sáð (10.5.2007)
Á dögunum færði Hálfdán Björnsson vísindamaður á Kvískerjum Landgræðslu ríkisins birkifræ til sáningar. Þetta voru 31 kg af grófhreinsuðu fræi, 12,4 kg af hreinsuðu fræi. Ákveðið var að sá mestum hluta fræsins á Hekluskógasvæðinu og hefur nú þegar verið sáð um 10 kg í s.k. Ferjufit og innri hluta Þjórsárdals. Fræið er var spírunarprófað og reyndist spírun vera mjög góð miðað við hvað gengur og gerist með birkifræ eða um 60%. Ef vel tekst til gætu hundruðir þúsunda plantna spírað upp af fræinu þar sem sáð var, en það verður tíminn að leiða í ljós.
Nánari upplýsingar má finna á www.land.is .
10 ára samningur um Hekluskóga undirritaður (4.5.2007)
Föstudaginn 4. maí undirrituðu landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins samstarfssamning um Hekluskóga og framlög ríkisins til verkefnisins. Undirritun fór fram í Gunnarsholti að viðstöddum fjölda gesta. Samningurinn er til 10 ára og framlag ríkisins rúmlega fimm hundruð milljónir króna.
Samkvæmt samningnum eru Hekluskógar sjálfstætt samstarfsverkefni um landgræðslu og endurheimt skóg- og kjarrlendis með innlendum tegundum á tæplega 100 þús ha norðan, vestan og sunnan Heklu. Höfuðmarkmið verkefnisins er endurheimt birkiskóga til að verjast afleiðingum öskugosa.
Reynslan hefur sýnt að skóglaust land þolir slík gos afar illa en birkiskógur hemur öskuna og hún hverfur í skógarbotninn. Þarna er því verið að reisa náttúrlegan varnargarð gegn náttúruhamförum. Auk þess munu þessar aðgerðir bæta landgæði, binda kolefni, stuðla að bættum vatnsbúskap, auka verðmæti lands og skapa nýja möguleika í ferðamennsku.
Fjölmargir aðilar hafa tekið þátt í undirbúningi verkefnisins. Þeir eru: Landbúnaðarháskóli Íslands, landeigendur á Hekluskógasvæðinu, Landgræðsla ríkisins, Landgræðslusjóður, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Árnesinga, Skógræktarfélag Rangæinga og Suðurlandsskógar.
Plöntur líta vel út í vetrarlok (18.4.2007)
Í dag fór hluti samráðsnefndarmanna um Hekluskógasvæðið. Kannað var ástand tilraunareita sem gróðursettir voru síðastliðið sumar. Litu birkiplöntur almennt vel út þrátt fyrir sandbylji vetrarins. Aðeins í einum reit sáust áberandi skemmdir. Sá reitur er staðsettur á illa grónu svæði þar sem sandfok hefur náð sér á strik. Sýnir þetta nauðsyn þess að binda sanda með uppgræðsluaðgerðum áður en gróðursett er í landið.
Gróðursetning hefur verið ágætlega unnin og frágangur á trjáreitum er til fyrirmyndar. Hver trjáreitur er merktur með járnstaurum og upplýsingar um reitinn eru ritaðar á staurana. Björgvin Örn Eggertsson skógverkfræðingur stýrði framkvæmdum Hekluskóga sumarsins 2006 og tókst vel til.
Þessa dagana er verið að vinna að undirbúningi framkvæmda sumarið 2007.
Ný kynningarmynd um Hekluskóga sýnd í ríkissjónvarpinu (31.3.2007)
Ný kynningarmynd verður frumsýnd í ríkissjónvarpinu að kvöldi annars páskadags 9.apríl kl. 20:40. Myndin er unnin af Profilm og Kristni H. Þorsteinssyni með aðstoð nokkurra samráðsnefndarmanna. Sagt er frá Heklugosum, jarðvegseyðingu og hugmyndum um Hekluskóga. Hafa kvikmyndagerðarmenn safnað efni í myndina síðustu tvö ár og gefur hún því mjög gott yfirlit yfir þau vandamál sem við er að eiga á Hekluskógasvæðinu, sem og hvernig koma má upp skógi á svæðinu. Reynt verður að koma myndinni á vef Hekluskóga á næstu vikum ef leyfi fæst.
Samráðsnefnd um Hekluskóga sammála um að Hekluskógar eigi að verða sjálfstætt verkefni (28.3.2007)
Fundur var haldinn í samráðsnefnd um Hekluskóga 21.mars s.l. Efni fundarins var aðeins eitt, stjórnskipun verkefnisins. Niðurstaða nefndarmanna var að verkefnið ætti að vera sjálfstætt og óháð ríkisstofnunum t.d. Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Aðeins þannig væri mögulegt að ná inn viðbótarframlagi frá fyrirtækjum til verkefnisins. Fram komu áhyggjur um að Hekluskógar gætu skarast við Suðurlandsskóga, var niðurstaðan að reynt yrði komist yrði hjá slíku við útfærslu verkefnisins.
Áætlanir gera ráð fyrir að binda megi um 2,5 milljónir tonna af CO2 í Hekluskógum (6.3.2007)
Í nýrri kynningarskýrslu um Hekluskógaverkefnið kemur fram að heildarbininding koltvísýrings á fyrstu 50 árum Hekluskógaverkefnisins gæti numið um 2,5 milljónum tonna. Er þetta stutt af líkönum um dreifingu birkis með fræi og kolefnisbindingargetu birkiskóga. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna í þessum nýja bæklingi.
Hekluskógar-kynning%205-3-2007
Íslensk stóriðja getur bætt fyrir losun koldíoxíðs með því að fjármagna skógrækt og landgræðslu samkvæmt frumvarpi umhverfisráðherra (7.2.2007)
Á vef umhverfisráðuneytisins má sjá að nýtt frumvarp umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz um losun gróðurhúsalofttegunda var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið skapar stjórnvöldum tæki til að takmarka losun koldíoxíðs ef stefnir í að losun fari yfir leyfileg mörk. Nánari upplýsingar um frumvarpið má finna á vef umhverfisráðuneytisins http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/989 .
Þetta eru góðar fréttir fyrir Hekluskóga og önnur landgræðslu og skógræktarverkefni. Þarna er skógrækt og landgræðsla viðurkennd af stjórnvöldum sem aðferð til að binda mengun frá stóriðju umfram það sem Íslendingar hafa leyfi til að losa skv. alþjóðlegum samningum. Mikið kolefni verður bundið í Hekluskógum og því góðir möguleikar á fjármögnun verkefnisins.
Umfjöllun um Hekluskóga og skógarbók á RÚV (10.1.2007)
Guðmundur Halldórsson formaður samráðshóps um Hekluskóga er duglegur að kynna Hekluskóga þessa dagana. Hann kynnti Hekluskógaverkefnið í þættinum Samfélaginu í Nærmynd á rás 1 8. jan. 2007. Með því að ýta á tengilinn hér að neðan má hlusta á þáttinn næstu vikurnar.http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4328315/0
Hekluskógar í fjölmiðlum (6.1.2007)
Í viðtali í fréttablaðinu Glugganum í síðustu viku sagðist Guðmundur Halldórsson formaður samráðshóps um Hekluskóga vera jákvæður á framtíð verkefnisins: “Við komum að máli við Guðna Ágústsson, landbúnaðarráðherra, síðastliðið haust og ræddum við hann um nánara samstarf við ríkið. Meðal annars vegna 100 ára afmælis skógræktar og landsgræðslu í landinu. Guðni var mjög jákvæður og stakk upp á að farið yrði af stað með samstarfsverkefni á milli ríkis og fyrirtækja. Við erum nú þegar í viðræðum við forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja um aðild að stamstarfinu og ganga þær viðræður mjög vel. Nú þegar eru tvö stórfyrirtæki mjög jákvæð, þó enn sé ekki búið að ganga frá neinum samningum . En við ætlum að vera búin að landa samningum við ríki og fyrir tæki fyrir lok mars á þessu ári.” Nánari umfjöllun um Hekluskóga og starf síðasta árs má finna á bls. 12-13 í nýjustu útgáfu af Dagskránni sem nálgast má hér: http://rfp-iceland.com/Dagskra1872.pdf