Hekluskógar – starf ársins 2015

Hér er verður stiklað á stóru um starf Hekluskógaverkefnisins árið 2015.

IMG_8334

Sjálfboðaliðar frá CELL (Center of environmental living and learning)

Veturinn 2014-2015 var fremur snjóþungur og stormasamur og voraði seint. Skemmdir mátti sjá á greinum hæstu trjáa eftir bylji og skafrenning vetrarins. Sumarið var ágætt, hiti í meðallagi, raki nægur og sæmileg spretta. Haustaði vel og var milt framan af hausti. Má segja að vel hafi ræst úr sumrinu og var gróska með besta móti.

IMG_7576

Starfið og verklegar framkvæmdir

IMG_8413

Einar Páll Vigfússon og Guðjón Helgi Ólafsson hjá Asterix ehf eru stórtækustu verktakar Hekluskóga og jafnvel hér á landi í gróðursetningu.

Gróðursettar voru rúmlega 277 þúsund birkiplöntur þetta árið víðs vegar um svæðið í um 230-240 ha. Verktakar af ýmsum toga t.d. hópar af íþróttafólki, kórum og skólum í fjáröflunarstarfi, sem og einstaklingum sem sumir hverjir hafa mikla reynslu af gróðursetningu gróðursettu rúmlega 146 þús. plöntur. Sjálfboðaliðar af ýmsu tagi og landeigendur sem taka þátt í verkefninu gróðursettu afganginn eða tæplega 131 þúsund plöntur. Er heildarfjöldi gróðursettra trjáplantna frá árinu 2006 til og með 2015 kominn í tæplega 2,6 milljónir, á a.m.k. 1400 ha lands sem dreifast vel á níunda hundrað lundi. Plöntudreifingarstöð var eins og undanfarin ár í Galtalæk II þar sem landeigendur, verktakar og sjálfboðaliðar sóttu plöntur. Plöntur voru keyptar frá Kvistum í Reykholti og var endurnýjaður samningur við stöðina um áframhaldandi ræktun fyrir Hekluskóga.

20151008_131444_resized

Georg Kjartansson á Ólafsvöllum hefur ásamt fleiri verktökum séð um dreifingu kjötmjöls og sáningar fyrir Hekluskóga á síðustu árum. Hér sést vél frá Georgi við sáningar við Vaðöldu. (ljósm. GK)

Um 240 tonnum af kjötmjöli var dreift til uppgræðslu þetta árið á tvö svæði þ.e. í Þjórsárdal sunnan og norðan gamla Hjálparfossvegar og milli þjóðvegar og skurðarins frá Sultartangavirkjun á s.k. Hafi ofan Þjórsárdals. Kjötmjölið hefur sýnt sig að vera kjörinn áburður til uppgræðslu á erfiðum og þurrum vikrum. Landgræðslan, sjálfboðaliðar og Hekluskógar græddu upp land með tilbúnum áburði á starfssvæði Hekluskóga og var Landgræðslan þar stórtækust og dreifði rúmlega 20 tonnum af tilbúnum áburði yfir rúmlega 150 ha svæði. Þess má geta að bændur hafa einnig grætt upp land á beitilöndum aðliggjandi Hekluskógum t.d. Rangvellingar við Hafrafell, Landmenn við Valafell, Gnúpverjar í Sandafelli og Flóa- og Skeiðamenn vestan Reykholts í Þjórsárdal. Allar þessar aðgerðir draga úr vikurfoki sem hjálpar nærliggjandi svæðum að gróa upp.

Eins og undanfarin ár var Hreinn Óskarsson skógfræðingur, verkefnisstjóri Hekluskóga í 25% hlutastarfi og Ívar Örn Þrastarson skógfræðingur starfaði að auki 2 mánuði hjá verkefninu aðallega í úttektum, kortlagningu og móttöku hópa. Skrifstofa verkefnisins var í Gunnarsholti. Fjársýsla ríkisins sá um að færa bókhald, greiða reikninga og gera ársreikning. Kostar þessi þjónusta ekki Hekluskóga neitt.

Málþing

Um miðjan apríl var haldið málþing um Hekluskóga. Þar var fjallað um starf Hekluskóga fyrstu árin, eldvirkni á svæðinu, starfi landeigenda, rannsóknastarfi á svæðinu ofl. Hér má lesa nánar um málþingið. Var málþingið ágætlega sótt og hlaut nokkra umfjöllun í fjölmiðlum.

Sérstök átaksverkefni og uppgræðsla annarra aðila

Tveir styrkir sem veittir voru Hekluskógum í tengslum við viðbótarframlag ríkisstjórnarinnar til landgræðslu og skógræktar, nýttust til að bæta í framkvæmdir Hekluskóga. Komu styrkirnir annarsvegar frá landbótasjóði Landgræðslunnar, 1,2 mkr, sem nýttist til uppgræðslu með sáningum og áburðargjöf umhverfis Vaðöldu sunnan Sultartanga. Hinn styrkurinn sem kom til Hekluskóga frá ríkisstjórninni upp á 2,0 mkr,  var nýttur til gróðursetningar birkis og dreifingu kjötmjöls austast á Hafinu.

IMG_8852

Kjötmjölssekkir teknir af flutningabíl á Hafinu en þar var mjölinu dreift.

Fjöldi annarra aðila stundar ýmiskonar ræktun og skógrækt á Hekluskógasvæðinu. Skógrækt ríkisins hefur ræktað skóg í Þjórsárdal og Skarfanesi á síðustu áratugum, m.a. hafa fengist myndarlegir styrkir á síðustu árum til ræktunar birkiskóga í lúpínubreiðum í Þjórsárdal og hafa í tengslum við það verkefni bæst við 150 þúsund birkiplöntur sem gróðursettar hafa verið í um 100 ha svæði. Einnig er vert að nefna Landgræðsluskóga Skógræktarfélags Íslands og Landsvirkjunar en í tengslum við það verkefni hafa verið gróðursettir birkiskógar á um 100 ha svæði vestan Búrfells og hefur nýtt svæði verið tekið í notkun vestan Bjarnalóns. Skógræktarfélag Rangæinga og Kaldbaksfólk hefur á síðustu áratugum gróðursett hundruði þúsunda plantna í Bolholtslandi með einstökum árangri, bæði í tengslum við Landgræðsluskógaverkefnið og Suðurlandsskóga. Margir aðilar til viðbótar vinna að uppgræðslu og skógrækt á Hekluskógasvæðinu á eigin vegum eða í tengslum við Suðurlandsskógaverkefnið og verkefni Landgræðslunnar, Bændur græða landið.

Landeigendur

Eins og síðustu ár hafa landeigendur á Hekluskógasvæðinu gróðursett hátt í þriðjung plantna ársins. Er framlag landeigenda því ómetanlegt fyrir verkefnið og sparar stórar fjárhæðir í gróðursetningu, áburðargjöf og girðingakostnaði. Þeir trjáreitir sem upp spretta á löndum þátttakenda munu svo á næstu árum og áratugum sá sér út yfir víðfem svæði í nágrenni lóðanna. Frétt af góðum árangri eins landeiganda vakti töluverða athygli í byrjun árs.

Sjálfboðaliðar og ferðamannahópar

Sjálfboðaliðahópar bæði innlendir og erlendir hafa komið verkefninu til hjálpar bæði við gróðursetningu, fræsöfnun af birki og áburðargjöf.

IMG_8190

Vélhjólaklúbburinn Skutlur við störf í Mótorhjólaskóginum í maí 2015

Nokkrir hópar hafa starfað með verkefni um nokkurra ára skeið og ber helst að nefna Slóðavini, sem ásamt fleiri félögum mótorhjólafólks hefur staðið að uppgræðslu á Vaðöldu og sunnan hennar norðan þjóðvegarins í Hrauneyjar. Ferðaklúbburinn 4×4 hefur unnið að uppgræðslu í Sölmundarholti í Þjórsárdal síðan 2008. Sjálfboðaliðasamtök um Náttúruvernd hafa starfað að uppgræðslu í nokkur ár á svæðinu sunnan og vestan Vegghamra í Þjórsárdal. Þjóðhildur hefur starfað um árabil við uppgræðslu sunnan Stangar í Þjórsárdal og Frímúrarar í landi Galtalækjar II á Landi.

IMG_8197

Hér sést Hjörtur ,,Líklegur” Jónsson festa upp skilti mótorhjólaskóganna ásamt félögum sínum. Hjörtur hefur verið einn aðal skipuleggjandi og drifkraftur í starfi mótorhjólaklúbbanna á síðustu árum. Skiltið er haft uppi á svæðinu yfir sumarmánuðina.

Mun fleiri hópar hafa komið að verkefninu en verða þeir ekki taldir upp hér. Erlendir hópar og skólar s.s. CELL sem stunda nám á Sólheimum í Grímsnesi hafa unnið með verkefninu árum saman. Ýmsir gestir innlendir og erlendir hafa heimsótt verkefnið til að fræðast um það og ræðst það af takmörkuðum tíma verkefnisstjóra hversu mörgum hópum hægt er að taka á móti.  Allstaðar þar sem þessir hópar og aðrir sem unnið hafa með verkefninu í styttri tíma sést mikill árangur og er stórkostlegt að sjá hvað fámennur hópur af duglegu fólki getur skilað, jafnvel með aðeins eins dags vinnu á ári!

Fyrirtæki

Nokkur fyrirtæki hafa stutt við verkefnið og má hér nefna Endurvinnsluna sem styrkir Hekluskóga bæði með vinnuframlagi á uppgræðslusvæði sem og að almenningur getur styrkt verkefnið í sjálfsölum fyrirtækisins.

20150701_150924

Snorri Guðmundsson hjá Hraunverksmiðjunni hefur ásamt konu sinni Elínu G. Heiðmundsdóttir ræktað þúsundir birkiplantna sem gróðursettar hafa verið í Hekluskóga.

Hraunverksmiðjan ehf. hefur stutt við verkefnið með nokkur þúsund birkiplöntum síðustu ár og fylgir ein birkiplanta með hverjum minjagrip sem fyrirtækið selur. Landsvirkjun hefur stutt dyggilega við verkefnið bæði með áburði, tækjum og mannskap og hefur það samstarf skilað miklum árangri. Í sumar heimsótti starfsfólk þýsks banka verkefnið, gróðursetti 10 þúsund plöntur og veitti verkefninu styrk upp á rúm 700 þús kr. Slíkt samstarf hefur skilað uppgræðslu fjölda ha og gróðursetningu þúsunda birkiplantna ár hvert.

Fræsáning og söfnun

Í sumar sáði verkefnisstjóri um 15 kg af birkifræi sem safnað var haustið 2014 á eyrar Tungnár sem eru nú að gróa upp eftir að Tungná rennur nú að mestu í gegn um Búðarháls yfir í Búðarhálsvirkjun. Einnig setti verkefnisstjóri upp sáningartilraun á tveimur svæðum þar sem skoðuð voru áhrif þess að blanda skógarmold og kjötmjöli við birkifræið. Verður sú tilraun gerð upp að einhverjum árum liðnum. Í haust bárust Hekluskógum fræsendingar frá skólum og einstaklingum aðallega frá suðvesturhorninu, en jafnvel alla leið úr Eyjafirði. Fyrirtæki á Flúðum sem selur birkigreinar í jólaskreytingar sendi verkefninu stærsta fræskammtinn þetta árið, en mikið fræ var á greinum sem nýttar voru í framleiðsluna sem safnað var saman.

Fræ þroskaðist seint þetta árið vegna tíðarfarsins og komu fræreklarnir ekki almennilega í ljós fyrr en lauf var fallið af trjám í október. Töluvert gott fræár var sér í lagi inn til landsins á Suðurlandi.  Alls söfnuðust um 25 kg af birkifræi sem verður sáð næsta vor. Gera má ráð fyrir að í kring um 500 spírandi fræ séu í hverju grammi af þurru fræi svo heildarmagn spírandi fræja gæti verið rúmlega 10 milljónir.  Töluvert sást af fræplöntum frá sáningum frá 2008 og er bein sáning aðferð sem nýta má í meira mæli í framtíðinni.

Árangursmat og kortlagning

Hekluskógar hafa frá upphafi skráð niður afhendingu trjáplantna, kortlagt gróðursetningarsvæði og skráð í gagnagrunn nauðsynlegar upplýsingar um gróðursetningarsvæðið s.s. tíma gróðursetningar, tegund, fjölda, kvæmi, aðferð og verkfæri ofl. Sama hefur verið gert fyrir aðrar framkvæmdir á vegum verkefnisins s.s. áburðargjöf, grassáningar og sáningar á birki.

yfirlit_Hekluskógar_Framkvæmdir2006-2015.jpg

Yfirlitsmynd sem sýnir helstu framkvæmdir á Hekluskógasvæðinu árin 2006-2015.

Síðan 2013 hafa fastir mælifletir verið notaðir til að meta árangur verkefnisins. Er notuð punktaþekja yfir Hekluskógasvæðið í þéttleika 250 m bæði á x- og y-ás. Er þekjan í sama hnitakerfi og þekjan sem notuð er í landsúttekt í skógrækt, sú er þó gisnari (500 x 1000 m). Punktunum var skipt upp í fimm jafna hluta og þeim gefið gildið 1 til 5. Á hverju ári er punktanetið lagt yfir ný gróðursetningarsvæði og þeim punktum sem lenda innan kortlagðra reita bætt við. Eitt gildi er skoðað á hverju ári og þ.a.l. er hver punktur skoðaður einu sinni með fimm ára millibili. Árið 2013 var fyrsta árið sem mælifletir voru skoðaðir. 100 m2 mæliflötur er lagður út í hverjum punkti og ýmsar breytur skráðar s.s. fjöldi og ástand gróðursettra plantna og aðrar umhverfisbreytur eins og t.d. gróðurgerð, gróðurhula.  Er markmið Hekluskóga að þetta úttektarkerfi nýtist til að meta gæði vinnu og árangur verkefnisins til langs tíma.

Enduskoðun samninga

Unnið er að endurnýjun samnings um Hekluskógaverkefnið en núverandi samningur rennur út í árslok. Stefnt er að því að ljúka þeirri endurskoðun á árinu 2016. Stefnt er að sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutabundinna skógræktarverkefna á árinu og kom fram í þeirri vinnu að Hekluskógar yrðu áfram samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins og nýrrar skógræktarstofnunar.

Aukning fjárveitinga

Samkvæmt Fjárlögum 2016 sem samþykkt voru á Alþingi fyrir jól hækka fjárveitingar til Hekluskóga í 27,5 mkr úr 19,2 mkr árið 2015. Er þessi hækkun í tengslum við átak ríkisstjórnarinnar í landgræðslu og skógrækt og þýðir þessi hækkun að bæta má verulega í uppgræðslu og trjárækt á Hekluskógasvæðinu á næsta ári.

Að lokum vilja Hekluskógar þakka kærlega öllum þeim aðilum sem komu að verkefninu á einn eða annan hátt á árinu. Vonandi tekst að auka enn við starfið á nýju ári!

20150826_112637

Hér sést nýr skógræktarstjóri Þröstur Eysteinsson virða fyrir sér uppgræðslur Hekluskóga í Þjórsárdal. Afréttur Flóa og Skeiðamanna er handan girðingarinnar.