Vorverkin í fullum gangi

Þessi dægrin er unnið að gróðursetningu í Hekluskóga. Gróðursettar verða 200 þúsund birkiplöntur þetta vorið og koma plönturnar eins og síðustu ár frá gróðrastöðinni Kvistum í Reykholti. Þátttakendur í Hekluskógum hafa fengið úthlutað plöntum í sín lönd eins og undanfarin ár og fjöldi hópa bæði sjálfboðaliða og íþróttahópa í fjáröflun hafa gróðursett. Verktakar hafa einnig unnið að gróðursetningu og verða við störf fram í júní þar til vorgróðursetningu er lokið. Kjötmjölsdreifingu lauk í byrjun maí og var dreift 220 tonnum af kjötmjöli í Þjórsárdal og sunnan Sultartangavirkjunar. Tilbúnum áburði verður dreift yfir um 500 ha lands í júní á ofanverðu starfssvæðinu. Verður bæði dreift yfir eldri birkireiti sem og land sem er orðið hálfgróið og mun taka vel við áburðargjöfinni.

Töluverð fræmyndun er á birki á svæðinu og má þegar sjá mikið af reklum á trjám sem gróðursett voru fyrir nokkrum árum 2008-2010 í reiti víða um svæðið. Er nokkuð ljóst að elstu reitirnir fara að sá sér út og innan fárra ára munu fræplöntur fara að sjást í nágrenni elstu reitanna þar sem skilyrði eru góð.

Hekluskógar þakka öllum þeim sem unnið hafa með verkefninu að framkvæmdum þetta vorið sem og fyrri ár.