Hópur nemenda úr Fjölbrautarskóla Suðurlands (FSu) fóru í Þjórsárdal á dögunum og söfnuðu birkifræi í blíðskaparveðri. Var fræinu safnað í rúmlega 15 ára gömlum skógi sem gróðursettur var í lúpínubreiðu á Vikrunum í Þjórsárdal. Nóg var af fræi og söfnuðu nemendurnir sem flestir voru úr skógfræðiáfanganum í FSu um 15 kg af þurru fræi. Gera má ráð fyrir að 300-500 spírandi fræ séu í hverju grammi af fræi og því safnaði hópurinn líklega um 5-7 milljónum fræja.
Guðmundur Tyrfingsson lánaði rútu undir nemendurna og styrkti þannig verkefnið. Nóg er enn af fræi á birkitrjám og hefur það nú náð góðum þroska eftir vott og milt haust. Lauf er nú að mestu fallið af trjánum, fræið tekið að losna og er þá enn auðveldara að ná fræinu af trjánum. Hekluskógar þakka nemendunum og Guðmundi Tyrfingssyni kærlega fyrir aðstoðina.
Meðfylgjandi ljósmyndir tók Örn Óskarsson kennari við FSu sem hafði frumkvæði af komu hópsins.