Niðurstöður af árangursmati

Fyrir sex árum síðan hófust úttektir á föstum mæliflötum, svo meta megi lifun og vöxt birkiplantna í Hekluskógum og almennar árangur á endurheimt birkiskóga. Mælifletirnir eru lagðir út með punktaneti, 250m x 250m, sem byggir á sama neti sem unnið er með í landsúttekt Skógræktarinnar og er hver mæliflötur heimsóttur og mældur á fimm ár fresti.

Á hverju ári eru gróðursetningar kortlagðar og nýr gróðursetningargrunnur lagður undir punktanetið og viðkomandi árgildi virkjuð. Við fyrstu heimsókn í mæliflöt er rekinn niður teinn svo auðveldara sé að finna mæliflötinn aftur seinna. Haustið 2018 var farið aftur á fyrstu mælifletina sem mældir voru árið 2013 og fékkst þannig fyrsti samanburður yfir fimm ára tímabil. Þessar niðurstöður sýna að afföll á gróðursettum birkiplöntum eru minni en gert var ráð fyrir og töluvert er þegar farið að bera á sjálfsáningu birkis.

Árið 2018 voru heimsóttir 60 mælifletir og af þeim voru 12 sem áður höfðu verið mældir árið 2013. Niðurstöður eru þær að fjölgað hafði með sjálfsáningu í 7 mæliflötum af þessum 12. Afföll voru sýnileg í nokkrum reitum og voru 6 % að meðaltali, þegar tekið er tillit til aukningar vegna sjálfsáningar. Einnig var mæld meðalhæð bæði mælingarárin. Árið 2013 var meðahæð birkis í mæliflötum 21.1 cm og árið 2018 var meðalhæð plantna í þessum reitum 62.2 cm. Meðalársvöxtur er 7,9 cm sem má teljast mjög gott á þessu svæði.

Farið er að bera á miklum árangri á uppgræddu landi og endurheimt gróðurs á Hekluskógasvæðinu og sýna þessar fyrstu niðurstöður úttektarinnar það berlega.

Úttektirnar öll sex árin voru unnar af Ívari Erni Þrastarsyni skógfræðingi.