Starf vors og sumars 2018 í Hekluskógum

Gróðursetning í Hekluskógum hefur gengið ágætlega í vor og sumar þrátt fyrir rysjótta tíð. Er þessa dagana verið að leggja síðustu hönd á fyrri hluta gróðursetningar ársins. Haustgróðursetning hefst svo í lok ágúst eða þegar plöntur verða afhentar úr gróðrastöðinni Kvistum sem sér um framleiðslu birkiplantna fyrir Hekluskóga. Alls er stefnt að gróðursetningu rúmlega 300 þúsund birkiplantna í ár.

Ýmsir hafa komið að gróðursetningu þetta árið m.a. íþróttahópar í fjáröflun, verktakar, sjálfboðaliðar. Hekluskógar gerðu á síðasta ári samkomulag við Landvernd um  uppgræðslu á söndum sunnan við Þjófafoss fyrir verkefnið ,,græðum Ísland”. Landvernd tekur á móti hópum sem koma og vinna með landvernd í uppgræðslu og gróðursetningu. Nánar sjá slóð http://landvernd.is/CARE.

CARE2

Við upphaf verkefnisins ,,græðum Ísland”

Fleiri hópar starfa með Hekluskógum. Hópar á vegum Green Midgard komið í uppgræðslu á vegum Hekluskóga. Eru þetta nemendahópar frá Bandaríkjunum sem vilja láta gott af sér leiða líkt og þeir hópar sem koma á vegum Landverndar. Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd koma árlega og græða upp og gróðursetja á svæði við Vegghamra í Þjórsárdal. Ferðaklúbburinn 4×4 sem starfað hefur að uppgræðslu í Sölmundarholti í Þjórsárdal gróðursetti um 1600 birkiplöntur í ár og lagði hópurinn til helming plantnanna. Auk þess dreifði hópurinn 1200 kg af tilbúnum áburði sem Landgræðsla ríkisins lagði til sem styrk. Nokkrir mótorhjólaklúbbar hafa starfað með Hekluskógum undir merkjum Mótorhjólaskóga og hafa þeir ræktað upp stór svæði norðan Hrauneyjavegar og í Vaðöldu á undanförnum árum. Hafa hóparnir undir stjórn Hjartar (líklegs) Jónssonar útvegað töluvert magn áburðar til uppgræðslunnar. Starfsmannafélag Fjölbrautaskóla Suðurlands kom við hjá Hekluskógum í ferð sinni um svæðið og gróðursetti í svæðið austan Þjórsár við Ísakot. Einn árgangur frá grunnskólanum á Hvolsvelli hefur komið síðustu tvö síðustu ár í uppgræðslu og gróðursetningu og ætlar skólinn að koma með annan árgang nú í haust.

Grunnskólinn Hvolsvelli

Nemendur úr grunnskólanum á Hvolsvelli

Allt þetta sjálfboðaliðstarf er afar mikilvægur þáttur í starfssemi Hekluskóga. Landeigendur fóru seint af stað með síðna gróðursetningu og má þar um kenna kulda og miklar rigninga. En þeir hafa skilað sínu og eiga sennilega eftir að taka eitthvað í haust. Auk þess sem verktakar eru að gróðursetja restina og er þetta að klárast á næstu dögum

 

Margir íþróttahópar hafa komið eins og undanfarin ár og gróðursett í fjáröflunarskyni fyrir keppnis- eða æfingaferðir og annað íþróttastarf. Gróðursetja hóparnir trjáplöntur með aðstoð foreldra auk þess að bera á hverja plöntu og fá greitt fyrir hverja plöntu. Hóparnir voru misstórir og krakkarnir á ýmsum aldri, en allir hóparnir sannarlega duglegir og skila góðu verki. Þessir hópar hafa gróðursett um 30 þúsund plöntur þetta árið og dreift 2,4 tonnum af tilbúnum áburði. Víða um svæðið má sjá gróskumikla reiti sem slíkir hópar hafa gróðursett á síðustu árum.

20180712_104950

Uppvaxandi birkiskógur sunnan Ferjufitjar sem ungmennafélagar gróðursettur vorið 2016.

Nokkrir verktakar hafa starfað að gróðursetningu, dreifingu á tilbúnum áburði og kjötmjöli í ár og síðastliðin ár. Landgræðsla ríkisins hefur að auki dreift kjötmjöli á efri hluta svæðisins nú í ár og síðustu ár með góðum árangri, auk þess að veita styrki til áburðargjafar í gegn um Landbótasjóð.

Eins og síðustu ár hafa landeigendur sem eru með samning við Hekluskóga gróðursett um þriðjung allra plantna. Nokkur aukning varð á þátttöku landeigenda eftir að starfssvæðið var stækkað til suðurs og nær það nú yfir svæðið sunnan við Gunnarsholt allt að þjóðvegi 1 og er hluti Reynifells einnig innan starfssvæðisins.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af starfi sumarsins: