Samstarfssamningur Umhverfis og auðlindaráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar um Hekluskógaverkefnið hefur verið endurnýjaður til fimm ára.
Þröstur Eysteinsson, Sigrún Magnúsdóttir og Árni Bragason fagna nýjum samningi. Ljósm. http://www.uar.is
Fimmta október 2016 var undirritaður samstarfssamningur Umhverfis og auðlindaráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar. Er samningurinn gerður til fimm ára og tryggir hann áframhaldandi starf og fjárframlög til verkefnisins. Tæp 10 ár eru síðan Hekluskógar voru formlega stofnaðir og skrifað undir 10 ára samstarfssamning. Undirbúningur verkefnisins hófst fyrr eða um 2005 með samvinnu og undirbúningi landeigenda á svæðinu, skógræktarfélags Rangæinga og Árnesinga, Landbúnaðarháskóla Íslands, Suðurlandsskóga, auk Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.


Einn af trjálundum Hekluskóga á Kjalrakatungum við Þjófafossafleggjara gróðursett af Asterix ehf með vél árið 2008.
Starf verkefnisins

Fjöldi aðila hefur komið að starfi verkefnisins síðustu ár. Samningar hafa verið gerðir við yfir 200 þátttakendur sem eiga eða leigja lönd innan starfssvæðis Hekluskóga. Fá þátttakendur plöntur í styrk sem þeir gróðursetja á eigin kostnað og bera á. hafa landeigendur gróðursett um þriðjung allra planta. Fjöldi sjálfboðaliða hefur komið að gróðursetningu og fræsöfnun fyrir verkefnið. Verktakar úr heimabyggð hafa séð um stóran hluta framkvæmda s.s. áburðargjöf, gróðursetningu, geymslu og afhendingu plantna, flutning á áburði og ræktun trjáplantna. Hefur fjöldi íþróttafélaga tekið að sér gróðursetningu í fjáröflunarskyni sem skilað hefur mörgum gróskumiklum trjáreitum. Ýmis rannsóknaverkefni hafa verið unnin á svæðinu og önnur eru enn í gangi. Framkvæmdir hafa verið kortlagðar og skráðar í landrænt upplýsingakerfi frá upphafi starfsins. Fastir mælireitir eru á svæðinu þar sem fylgst er með árangri gróðursetninga og eru þeir mældir á fimm ára fresti.
