Nýr samningur um Hekluskóga

Samstarfssamningur Umhverfis og auðlindaráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar um Hekluskógaverkefnið hefur verið endurnýjaður til fimm ára.

IMG_2605--2-

Þröstur Eysteinsson, Sigrún Magnúsdóttir og Árni Bragason fagna nýjum samningi. Ljósm. http://www.uar.is

Fimmta október 2016 var undirritaður samstarfssamningur Umhverfis og auðlindaráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar. Er samningurinn gerður til fimm ára og tryggir hann áframhaldandi starf og fjárframlög til verkefnisins. Tæp 10 ár eru síðan Hekluskógar voru formlega stofnaðir og skrifað undir 10 ára samstarfssamning. Undirbúningur verkefnisins hófst fyrr eða um 2005 með samvinnu og undirbúningi landeigenda á svæðinu, skógræktarfélags Rangæinga og Árnesinga, Landbúnaðarháskóla Íslands, Suðurlandsskóga, auk Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

DSC01732Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Árni Bragason land­græðslu­stjóri og Þröstur Eysteins­son skógræktarstjóri undirrituðu samninginn í gær í Hörpu þar sem norræna líf­hag­kerfis­ráðstefnan NordBio stóð yfir. Samningurinn gerir ráð fyrir að verkefnið verði rekið í samvinnu Landgræðslu ríkisins og Hekluskóga. Verður verkefnið með sérstakt fjárlaganúmer og bókhald og er gert ráð fyrir að áfram muni einn starfsmaður í hlutastarfi stýra verkefninu. Gert er ráð fyrir að fjárveiting ríkisins til verkefnisins verði 27,5 milljónir á ári. Markmið Hekluskóga verða eftir sem áður að klæða land í nágrenni Heklu trjágróðri til þess að draga úr áhrifum öskufoks í kjölfar eldgosa úr Heklu og öðrum eldfjöllum. Þekkt er að birkiskógar og trjágróður almennt þolir öskufall mun betur en land gróið lággróðri, hvað þá örfoka land. Auk jarðvegsverndar og að draga úr öskufoki yfir nærliggjandi sveitir mun skógurinn einnig auðga dýra- og jurtalíf, hafa jákvæð áhrif á vatnsmiðlun, binda kolefni, bæta skilyrði til útivistar og er verkefnið í raun hið merkilegasta náttúruverndarverkefni þar sem verið er að gera tilraun til að endurskapa forn vistkerfi. Starfssvæði verkefnisins nær yfir tæpt 1% Íslands.
img_9636-001

Einn af trjálundum Hekluskóga á Kjalrakatungum við Þjófafossafleggjara gróðursett af Asterix ehf með vél árið 2008.

Starf verkefnisins

Frá því að verk­efnið hófst fyrir tæpum áratug síðan hafa verið gróðursettar um 2,7 milljónir trjá­plantna, aðallega birki, á tæplega 1.500 hekturum lands sem dreifast á um 700 svæði víðs vegar um starfssvæði verkefnisins. Birki hefur einnig verið sáð beint af fræi yfir nokkra tugi ha. Verkefnið hefur einnig stundað uppgræðslu til að undirbúa jarðveg fyrir gróðursetningu og bæta skilyrði til sjálfsáningar birkis, bæði með kjötmjölsdreifingu, dreifingu á tilbúnum áburði og sáningu grasa á stöku stað.
Gert er ráð fyrir að með tímanum sái birkið sér út frá trjáreitum sem og eldri skógarreitum á svæðinu og þekji með tímanum þau svæði sem ekki verður gróðursett í. Nú þegar má sjá töluverða sjálfsáningu frá eldri birkiskógum á svæðinu.
SONY DSC

Fjöldi aðila hefur komið að starfi verkefnisins síðustu ár. Samningar hafa verið gerðir við yfir 200 þátttakendur sem eiga eða leigja lönd innan starfssvæðis Hekluskóga. Fá þátttakendur plöntur í styrk sem þeir gróðursetja á eigin kostnað og bera á. hafa landeigendur gróðursett um þriðjung allra planta. Fjöldi sjálfboðaliða hefur komið að gróðursetningu og fræsöfnun fyrir verkefnið. Verktakar úr heimabyggð hafa séð um stóran hluta framkvæmda s.s. áburðargjöf, gróðursetningu, geymslu og afhendingu plantna, flutning á áburði og ræktun trjáplantna. Hefur fjöldi íþróttafélaga tekið að sér gróðursetningu í fjáröflunarskyni sem skilað hefur mörgum gróskumiklum trjáreitum. Ýmis rannsóknaverkefni hafa verið unnin á svæðinu og önnur eru enn í gangi. Framkvæmdir hafa verið kortlagðar og skráðar í landrænt upplýsingakerfi frá upphafi starfsins. Fastir mælireitir eru á svæðinu þar sem fylgst er með árangri gróðursetninga og eru þeir mældir á fimm ára fresti.

20151008_131444_resizedÞað er fagnaðarefni að ráðamenn landsins sýna endurheimt skóga áhuga. Í ræðu Sigrúnar Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun Hekluskógasamningsins kom fram að ráðgert væri að efla samstarf Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins enn og hefja skógrækt á nýjum svæðum. Nefni ráðherra sérstaklega Þorlákshafnarsand í því sambandi.

Fræsöfnun Hekluskóga og árangur sáninga

Þessa dagana er birkifræ orðið þroskað og auðvelt að safna því af trjám. Hekluskógar safna birkifræi eins og undanfarin ár og þiggja gjarnan fræ frá almenningi. Endurvinnslan hf. tekur við birkifræjum frá almenningi í móttökustöðvum Endurvinnslunnar hf. að Knarrarvogi 4, Dalvegi 28, Hraunbæ 123 og kemur þeim til Hekluskóga. Einnig má senda fræið beint til Hekluskóga í Gunnarsholti eða Austurvegi 3-5, Selfossi.

Síðustu árin hefur töluvert fræ safnast og því hefur verið sáð að vori eða að hausti. Árangur sáninganna er misjafn og fer eftir landgerðum. Sumsstaðar sjást stök tré vaxa upp eftir sáningar og annarsstaðar þéttar breiður af birki.

Í lok september skoðaði verkefnisstjóri svæði sem hann sáði birki á í apríl 2012. Svæðið er vestast í Langöldu nokkrum km vestan Hrauneyja. Þar var birki sáð í skorninga í brekkum og með ónefndum læk sem rennur norðan við Langölduna. Í haust mátti sjá birki í þéttum breiðum á bökkum lækjarins, en aðeins stöku plöntu í skorningum í undirhlíðum Langöldunnar. Hæstu plönturnar voru komnar í 15 cm hæð en megnið af plöntunum var mun smærra en þó vel lifandi og voru smáplöntur hraustlegar eftir gott sumar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá árangur sáning fjórum sumrum eftir að sáð var. Myndirnar voru teknar 27. september 2016.

 

Hér eru myndir frá sáningunni sjálfri 23. apríl 2012.

Fræsöfnun Hekluskóga enn í gangi

Þessir októberdagar eru góðir dagar til fræsöfnunar af birki. Lygnt og þurrt og enn nóg af fræi af birki. Í vikunni kom sjálfboðaliðahópur frá CELL (center of environmental living and learning) í Gunnarsholti og söfnuðu fræi. Á aðeins tveimur klst tókst að safna hátt í 10 kg af þurru fræi (nánast lauflausu). Hvet alla til að nýta góða veðrið og safna fræi og ef þið ætlið ekki að nýta það sjálf þiggja Hekluskógar allt birkifræ. Endurvinnslan ehf í Knarrarvogi tekur enn við birkifræi og einnig má senda fræ beint til Hekluskóga í Gunnarsholt.
DSC00575_edited