Þessa dagana er birkifræ orðið þroskað og auðvelt að safna því af trjám. Hekluskógar safna birkifræi eins og undanfarin ár og þiggja gjarnan fræ frá almenningi. Endurvinnslan hf. tekur við birkifræjum frá almenningi í móttökustöðvum Endurvinnslunnar hf. að Knarrarvogi 4, Dalvegi 28, Hraunbæ 123 og kemur þeim til Hekluskóga. Einnig má senda fræið beint til Hekluskóga í Gunnarsholti eða Austurvegi 3-5, Selfossi.
Síðustu árin hefur töluvert fræ safnast og því hefur verið sáð að vori eða að hausti. Árangur sáninganna er misjafn og fer eftir landgerðum. Sumsstaðar sjást stök tré vaxa upp eftir sáningar og annarsstaðar þéttar breiður af birki.
Í lok september skoðaði verkefnisstjóri svæði sem hann sáði birki á í apríl 2012. Svæðið er vestast í Langöldu nokkrum km vestan Hrauneyja. Þar var birki sáð í skorninga í brekkum og með ónefndum læk sem rennur norðan við Langölduna. Í haust mátti sjá birki í þéttum breiðum á bökkum lækjarins, en aðeins stöku plöntu í skorningum í undirhlíðum Langöldunnar. Hæstu plönturnar voru komnar í 15 cm hæð en megnið af plöntunum var mun smærra en þó vel lifandi og voru smáplöntur hraustlegar eftir gott sumar.
Á meðfylgjandi myndum má sjá árangur sáning fjórum sumrum eftir að sáð var. Myndirnar voru teknar 27. september 2016.
Hér eru myndir frá sáningunni sjálfri 23. apríl 2012.