
Kjötmjölsdreifingarsvæði Þjórsárdal
Eftir eina hina köldustu vorkomu frá stofnun Hekluskóga er tekið að hlýna og grænka. Trjágróður lítur ágætlega út eftir stormasaman vetur, en nokkuð víða hafa vindar valdið rofi á melhólum, vikrum og rofabörðum. Snjóþyngslin hlífðu trjám, jarðvegi og gróðri nokkuð sér í lagi inn til landins.
Eitt af fyrstu vorverkunum var að dreifa kjötmjöli og sá Georg á Ólafsvöllum um það verk, ásamt Vendli á Flúðum sem flutti mjölið frá Orkugerðinni í Hraungerði upp í Þjórsárdal. Alls var dreift 150 tonnum af mjöli í samvinnu við Landsvirkjun og var dreifingarsvæðið þetta sumarið austan við Þjórsárdalsveg norðan og sunnan við gamla Hjálparfossslóðann.
Gróðursetning hefur gengið vonum framar og hafa þátttakendur verið duglegir að gróðursetja eins og undanfarin ár. Verktakar og hópar ýmiskonar hafa einnig tekið að sér gróðursetningu og eru flestar plöntur að verða komnar í jörðu. Síðustu þúsundirnar verða settar niður á næstu dögum og farið inn á efri hluta starfssvæðisins en þar er snjór nú bráðnaður. Reiknað er með að gróðursettar verði a.m.k. 210 þúsund plöntur þetta vorið og stefnt á um 60-70 þúsund í haust.
Starfsmenn Landgræðslu ríkisins dreifa þessa dagana rúmlega 21 tonni af tilbúnum áburði yfir um 150 ha af eldri gróðursetningasvæðum Hekluskóga á efri hluta starfssvæðisins. Er þetta kærkomið og á eftir að hjálpa plöntum á legg. Er aðallega um að ræða dreifingu yfir svæði sem hafa verið gróðursett með gróðursetningarvél Asterix ehf og eru auðveld yfirferðar.
Styrkir fengust úr sérstöku átaki ríkisstjórnar Íslands í skógrækt og landgræðslu. Annars vegar fengu Hekluskógar styrk upp á 2 mkr til sérstaks átaksverkefnis í uppgræðslu með kjötmjöli og gróðursetningu og hins vegar fékkst styrkur frá sama verkefni í gegn um Landgræðslu ríkisins upp á 1,2 mkr til sáninga og uppgræðslu í kring um Vaðöldu. Verður unnið að þessum verkefnum á næstu vikum, en verkfall hefur sett strik í reikninginn varðandi kjötmjölsdreifingu og ekkert verið framleitt af því eftir að verkfall hófst. Má reikna með að bíða þurfi fram á haust með hluta framkvæmda vegna þessa.
Styrkir hafa borist til verkefnisins úr fleiri áttum og má þar helst telja framlag frá ýmsum aðilum í gegn um móttökustöðvar Endurvinnslunnar, en þar getur almenningur valið að styrkja Hekluskóga. Þýskur hópur styrkti verkefnið um rúmlega 700 þúsund kr og mun hann heimsækja verkefnið og gróðursetja trjáplöntur á næstu dögum.
Ferðaklúbburinn 4×4 heimsótti Hekluskógaverkefnið enn eitt árið og vann þetta árið að uppgræðslu SA megin á Þórðarholti í Þjórsárdal eins og má sjá hér: http://www.f4x4.is/myndasvaedi/myndir-ur-uppgraedsluferd-2015/. Nokkrir mótorhjólaklúbbar hafa unnið að uppgræðslu bæði í Vaðöldu og norðan Hrauneyjavegar síðustu ár og hér má sjá tengil á það verkefni: https://www.facebook.com/pages/M%C3%B3torhj%C3%B3lask%C3%B3gurinn/860266867380532?fref=ts
Hér má sjá myndir af hluta þeirra hópa og verktaka sem starfað hafa með Hekluskógum þetta vorið.

Hér var unnið að gróðursetningu sunnan Sultartangalóns og byrjað um leið og frost fór úr jörðu. Sveinn Víkingur Þorsteinsson vann hér ásamt Helga bróður sínum.

Hér er hópur Bandaríkjamanna sem komu á vegum CELL og hafa komið undanfarin 6 ár og unnið að gróðursetningu, fræsöfnun, áburðardreifingu ofl.