Vorið nálgast í Hekluskógum

Veturinn hefur verið óvenju mildur á Hekluskógasvæðinu og þrátt fyrir lítinn snjó er lítið sem ekkert frost í jörðu. Því styttist í að framkvæmdir á svæðinu hefjist.  Framkvæmdafé hefur verið tvöfaldað frá síðasta ári og fær verkefnið 52,5 m.kr. til reksturs og framkvæmda. Stefnt er að gróðursetningu tæplega 400 þúsunda birkiplantna, dreifingu á um 300 tonnum af kjötmjöli og 130 tonnum af tilbúnum áburði á Hekluskógasvæðinu. Nýr verkefnisstjóri Hrönn Guðmundsdóttir skógfræðingur tók við starfi verkefnisstjóra í hlutastarfi í ársbyrjun og hefur þegar hafið undirbúning verkefna sumarsins. Birkilundir frá síðustu árum eru orðnir áberandi víða um starfssvæði Hekluskóga, sér í lagi þegar snjóföl er yfir landinu eins og meðfylgjandi myndir sýna.