Haustverkunum að ljúka

Þessa dagana er gróðursetningu og dreifingu kjötmjöls að ljúka í Hekluskógum. Þetta árið er unnið óvenjulengi fram eftir hausti enda einmunatíð, jörð frostlaus og snjólaust langt inn á hálendi. Guðjón Helgi Ólafsson og Einar Páll Vigfússon hjá Asterix ehf sjá um gróðursetningu á þar til gerðri vél og er gróðursett nyrst á Rjúpnavöllum í Landsveit. Er þar um að ræða sumargamlar birkiplöntur sem ræktaðar voru á Kvistum í Reykholti. Gunnar Geir Jósepsson og Þorgeir Þórðarson starfsmenn hjá Georgi á Ólafsvöllum á Skeiðum sjá um dreifingu kjötmjöls í s.k. Árskógum vestan Þjórsár á um 100 tonnum af mjöli sem kemur úr Orkugerðinni við Hraungerði. Uppgræðsla með kjötmjöli hefur reynst afar vel á illa grónum vikrum og dugar ein dreifing með um 1500 kg á ha til að græða land varanlega. Næsta vor er stefnt að því að gróðursetja birki í svæðið og verður því birkifræi sem safnast hefur í haust einnig dreift þar.

20161102_123854

Einar Páll Vigfússon og Guðjón Helgi Ólafsson við birkilund sem gróðursettur var árið 2008.

 

Gunnar Geir Jósepsson og Þorgeir Þórðarson dreifa kjötmjöli með stórvirkum vinnuvélum.