Fréttir frá 2010

Hér eru helstu fréttir sem birtust á vef Hekluskóga árið 2010.

Jólakveðja frá verkefnisstjóra (24.12.2010)

Hekluskógar óska öllum samstarfsaðilum Gleðilegra Jóla og farsæls komandi árs með bestu þökkum fyrir góð kynni á árinu. Vonandi verður næsta ár jafn gott. Myndasyrpa sýnir eldgos Eyjafjallajökuls og hversu lítil áhrif askan hafði á skóginn, svo fá afkvæmi verkefnisstjórans að fylgja með.

Jólakort 2010

Grænni skógar fengu Starfsmenntaverðlaun 2010 (10.12.2010)

Starfsmenntaverðlaunin 2010 voru afhent í gær. Starfsmenntaverðlaunin eru veitt þeim aðilum sem vinna að framúrskarandi verkefnum í fræðslumálum og starfsmenntun. Tilgangur þeirra er að styðja við nýsköpun og framþróun starfsmenntunar á Íslandi ásamt því að vekja athygli á málefninu. Verðlaunin eiga að vera verðlaunahöfum hvatning til áframhaldandi starfa og öðrum til fyrirmyndar á þessu sviði. Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum; flokki fyrirtækja, flokki skóla og fræðsluaðila og flokki félagasamtaka og einstaklinga. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaunin.

Námskeiðaröðin Grænni skógar fékk verðlaun í flokki skóla og fræðsluaðila. Endurmenntun LbhÍ sér um framkvæmd Grænni skóga í samstarfi við landshlutabundnu skógræktarverkefnin, Landssamtök skógareigenda, félög skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Björgvin Örn Eggertsson, verkefnastjóri Grænni skóga, tók á móti verðlaununum.

starfsmenntav-Bjorgvin-E

„Stórfelldar breytingar hafa orðið á síðustu árum á hefðbundinni landnýtingu og ræktun hérlendis. Stórfelld og víðtæk skógrækt er nýlunda og til að hún takist vel þarf þekkingu. Markmið samstarfsaðila Grænni skóga er að miðla þekkingu skógræktenda. Skógrækt er mikið meira en ræktun tiltekinna tegunda plantna. Skógrækt felur í sér breytingar á landi, landsgæðum og vistkerfum og er í flestum tilvikum endurheimt fornra landsgæða, ekki síst jarðvegs, sem er ein dýrmætasta auðlind okkar,“ sagði Eyrún Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ í ræðu sem hún flutti við afhendingu verðlaunanna. Eyrún var formaður nefndar sem valdi verðlaunahafa.

Björgvin Örn Eggertsson sagði í ávarpi sínu að nú væri að ljúka 10. starfsári Grænni skóga. Efnt hefur verið til 10 námskeiðaraða með um 270 þátttakendum á aldrinum 18-82 um allt land. Samtals eru þetta 150 námskeið og skráðar hafa verið 3.100 mætingar. „Á hverri námskeiðaröð eru sérfræðingar úr viðkomandi landshluta fyrir sig fengnir til að kenna á námskeiðunum. Bæði vegna þess að þeir hafa staðgóða þekkingu og eins til að nemendurnir kynnist þeim þar sem að leiðir þeirra eiga örugglega oft eftir að liggja saman í skógræktarstarfinu,“ sagði Björgvin Örn og gat þess að nú er verið að undirbúa þrjár námskeiðaraðir sem hefjast á næsta ári. Um er að ræða námskeið á Austur- og Norðurlandi og sameiginleg námskeiðaröð á Suður- og Vesturlandi og Vestfjörðum.

Námskeið grænni skóga hafa verið haldin á starfssvæði Hekluskóga síðustu árin við góðar undirtektir þátttakenda í Hekluskógum sem og öðrum gestum.

Sjá nánar um Grænni skóga http://www.lbhi.is/pages/1697

Ný skógarblóm finnast í Hekluskógum (7.12.2010)


Á dögunum rakst Sigríður Heiðmundsdóttir á Kaldbak á jurt sem hún kannaðist ekki við. Óx jurtin sem er sígræn í breiðu í gulvíðirunna í nágrenni Bolholts. Grasafræðingar telja að þarna sé um að ræða jurt af vetrarliljuætt sem er sígræn á vetrum. Líklegast þótti að um grænlilju (Orthilia secunda) væri að ræða. Er jurtin algeng á vissum svæðum m.a. í Þórsmörk. Einnig kom tillaga um að þarna væri á ferðinni klukkublóm (Pyrola minor) sem er frænka grænliljunnar. Erfitt verður að greina með óyggjandi hætti um hvora tegundina er að ræða fyrr en hún blómstrar í vor.

Ljóst er að ýmsar tegundir eins og grænliljan eiga eftir að breiðast út með aukinni skógrækt og væri vel til fundið hjá trjáræktendum að flytja afleggjara af ýmsum skógarblómum t.d. blágresi, hrútaberjalyngi eða vetrarliljum inn í nýja skógarreiti.

2011 verður alþjóðlegt ár skóga (4.12.2010)Logo-ar-skoga-2011

Allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna hefur ákveðið að árið 2011 verði alþjóðlegt ár skóga. Markmiðið er að auka vitund um sjálfbæra nýtingu, verndun og þróun í öllum gerðum skóglenda. Skógrækt ríkisins ásamt hagsmunaðilum mun koma að ýmsum viðburðum á árinu í tengslum við ár skóga. Nánar upplýsingar um væntanlega viðburði munu birtast síðar á heimasíðu Skógræktar ríkisins. Alþjóðlega heimasíða árs skóga er:http://www.un.org/en/events/iyof2011/index.shtml

Frétt af www.skogur.is texti Ólafur Eggertsson.

Birkitré fylgir minjagrip – samstarf við Hraunverksmiðjuna (6.11.2010)

Í upphafi ársins gerðu Hraunverksmiðjan og Hekluskógar með sérsamning um að Hekluskógar fengju eitt tré fyrir hvern seldan hraungrip frá Hraunverksmiðjunni. Skömmu síðar hófst eldgos sem hafði áhrif víða um heim.

Iceland Travel ferðaskrifstofan var fljót að kveikja á perunni og ákvað að nota hraun úr eldgosinu til landkynningar og vegna samvinnu þessara og fleiri aðila, og með aðstoð sumarstarfsmanna Landsvirkjunar voru verið gróðursett nokkur þúsund birkitré við Hald sem er norðan Heklu, í nágrenni Hrauneyja (sjá myndband frá Hraunverksmiðjunni).

Af þessu tilefni varð til nýr minjagripur hjá Hraunverksmiðjunni sem heitir ONE LAVA – ONE TREE – ONE WORLD Í handmálaðri öskjunni er hraunmoli úr Eyjafjallajökli og textablað þar sem útskýrt er samband eldvirkninnar og upphafs lífs á jörðinni á annari hlið, en á hinni eru útskýrð markmið Hekluskóga verkefnisins með skírskotun til Ara Fróða og Íslendingabókar. Hverri öskju fylgir eitt birkitré gróðursett og áborið.

DSC01876 DSC01732

Eins og aðrar vörur Hraunverksmiðjunnar þá er þessi gripur kjörinn til sérmerkinga fyrir fyrirtæki, ráðstefnur eða fundi og alla þá aðila sem áhuga hafa á að kynna Ísland á erlendri grundu. Athyglisvert er að skoða hraunið úr þessu síðasta eldgosi. Í því leynast glerlíkar agnir í ýmsum litum allt frá glæru og út í svart jafnvel gyllt. Það er gerólíkt Hekluhraunum sem hingað til hafa verið aðal hráefni Hraunverksmiðjunnar.

Hraunverksmiðjan er vinnustofa hraunlistamannsins Snorra Guðmundssonar og hefur verið starfrækt síðan Hekla gaus1991. Allar vörur Hraunverksmiðjunnar eru hugsaðar sem einskonar náttúruverndar áminningar og eiga að auka virðingu okkar fyrir náttúrunni. Nánari upplýsingar um Hraunverksmiðjuna er að finna á vefnum: www.hraunverksmiðjan.is.

Hekluskógar fagna þessu samstarfi og þakka Snorra kærlega fyrir frumkvæðið. Þarna er á ferðinni verkefni sem skilar sér beint í aukna gróðursetningu og endurheimt birkiskóga, og fer framlagið óskipt til þessarar gróðursetningar.

Hlýnandi veðurfar síðustu ára eykur birkivöxt (29.10.2010)

Frétt af www.skogur.is skrifuð af Ólafi Eggertssyni sérfræðingi á Rannsóknastöð S.r. á Mógilsá.

Bolholt-arhringir-og-sumarhiti-3

Sumarið 2010 var borkjörnum safnað úr tuttugu birkitrjám í Bolholti á Rangárvöllum en Bolholt er eitt af skógræktarsvæðum Skógræktarfélags Rangæinga. Markmið rannsóknarinnar var meðal annars að kanna fylgni árhringjavaxtar og veðurfars í ungum trjám. Helstu niðurstöður sýna að fylgni árhringjabreidda í birkinu frá Bolholti var mest við meðalhitann í júní (r = 0,7) og júlí (r = 0,5). Hlýir júní og júlí gefa því góðan vöxt í birkinu. Hlýnandi veðurfar síðustu ára eykur því vöxtinn umtalsvert í birkinu eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. Rannsóknin er hluti af stærra verkefni sem nefnist Kolbjörk sem er samstafsverkefni Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktar ríkisins og fjallar um endurheimt birkivistkerfa og kolefnisbindingu. Verkefnið er styrkt af Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR).

Sjá http://www.skogur.is/rannsoknir-og-verkefni/rannsoknafrettir/nr/1466

Nánari upplýsingar um kolbjarkarverkefnið má sjá hér: http://www.land.is/images/stories/PDF_skjol/kolbjork.pdf

Haustgróðursetning (7.10.2010)

Þessa dagana er unnið að haustgróðursetningu. Þátttakendur í Hekluskógaverkefninu sem nú eru orðnir 153 sjá að mestu um gróðursetninguna og er stefnt að því að gróðursetja tæplega 40 þúsund plöntur í haust. Nokkrir hópar hafa heimsótt Hekluskóga í haust. Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd og ferðaklúbburinn 4×4 söfnuðu birkifræi í Þjórsárdal á dögunum bæði í Búrfellsskógi sem og Þjórsárdalsskógi. CELL sem er hópur háskólanema frá Bandaríkjunum heimsótti verkefnið í 3 daga í lok september og vann hann að gróðursetningu og fræsöfnun. Vilja Hekluskógar þakka öllum þessum aðilum fyrir aðstoðina.

IMG_7995IMG_7989

Áður óþekktar kolagrafir finnast á Hekluskógasvæðinu (21.7.2010)

Í sumar hefur Friðþór Sófus Sigurmundsson landfræðingur unnið að rannsóknum í Þjórsárdal sem tengjast MSc verkefni hans, auk þess að vinna við úttektir á framkvæmdum Hekluskóga. Á ferðum sínum hefur Friðþór rekist á nokkrar fornar kolagrafir á svæðinu. Einhverjar þeirra eru þekktar og hafa áður verið skráðar, en einnig hafa fundist áður óþekktar grafir. Hafa kol sem fundust í kolagröf í Rauðukömbum sem eru innarlega í Þjórsárdal verið gróflega aldursgreind að vera frá árinu 1500. Á dögunum voru Friðþór og verkefnisstjóri Hekluskóga á ferðinni innan við s.k. Kinnar sem eru vestan Hrauneyja og fundu þeir þar forna kolagröf. Hafa kolin sem þar fundust verið send í aldursgreiningu og standa vonir til að hugmynd fáist um aldur hennar innan nokkra vikna. Þessar kolagrafir sýna að skógar hafa vaxið á þessum slóðum áður fyrr og að menn hafa farið langt inn til fjalla til að höggva skóga og gera til kola.

DSC02392

Nemendur úr LBHÍ skoða leifar af kolagröf í Rauðukömbum.

Ársgamlar birkiplöntur bera fræ (21.7.2010)

IMGP7448_ IMGP7451_ IMGP7446_Þátttakendur í Hekluskógum eru duglegir að senda verkefnisstjóra upplýsingar um gróðursetningar og árangur af trjáræktinni. Benedikt Benediktson sem er með land í Svínhaga hefur gróðursett birki og reyniviði í land sitt síðustu þrjú árin og þrífast plönturnar ágætlega þrátt fyrir erfið skilyrði. Nú í sumar bar svo við að nokkrar birkiplöntur sem gróðursettar voru í fyrra sumar báru fræ nú í sumar (sjá myndir). Er þetta fremur sjaldgæft, en hefur þó sést á stöku stað áður. Líklegt skýring þessa er að plöntur hafi lent í þurrkum eftir gróðursetningu vor 2009 og bregðast þær við með því að mynda fræ. Framvinda Hekluskóganna gæti því hugsanlega gengið hraðar á sumum svæðum en búist hafði verið við, ef svo ungar plöntur fara að sá sér út. Almennt er töluvert um birkifræ og er stefnt að því að safna birkifræi sem víðast. Afar hagstætt tíðarfar hefur verið í sumar og mun fræ væntanlega verða þroskað 2-3 vikum fyrr en í meðalsumri og er líklegt að hefja megi fræsöfnun seinnipart ágústmánaðar á vissum svæðum / trjám.

Ljósmyndir Benedikt Benediktson

Margar hendur gróðursetja (15.7.2010)

Á síðustu vikum hefur hópur sumarstarfsfólks frá Landsvirkjun, Margar hendur vinna létt verk, unnið að gróðursetningu í Hekluskógum. Hefur hópurinn gróðursett birki í lundi víðs vegar um svæðið alls tæplega 40 þúsund plöntur. Munu án efa vaxa upp myndarlegir trjálundir úr þessum gróðursetningum á næstu árum.

004
001 002 

Hópur nemenda frá Bandaríkjunum úr skóla sem kallast CELL (Center of ecological learing and living) heimsótti verkefnið og gróðursetti birkiplöntur sunnan Þjórsár við Skarðstanga í Merkurhrauni. Nemendurnir eru í námi í umhverfisfræðum og dvelja nokkrar vikur á ári á Íslandi og hafa aðsetur í Sesseljuhúsi á Sólheimum. Undanfarin ár hafa hópar frá CELL heimsótt Hekluskóga vor og haust og hafa kolefnisjafnað ferðir sínar með gróðursetningu birkitrjáa, auk þess að fræðast um Hekluskóga.

ljósmyndir Friðþór Sófus Sigurmundsson

Snjór í júlí ! (14.7.2010)

Öflugir og háir skúraklakkar hafa myndast  síðustu daga yfir Hekluskógum og sumir þeirra hafa orðið svo háir og öflugir að úrkoman hefur fallið sem snjór. Jörð varð alhvít innarlega í Þjórsárdal í vikunni eftir eina ,,skúrina”.

P1020357 P1020360  

ljósmyndir Friðþór Sófus Sigurmundsson

Gróðrartíð í Hekluskógum (10.7.2010)

Gróðursetningu vorsins lauk í byrjun júlí. Voru gróðursettar um 220 þúsund plöntur þetta vorið aðallega birki en einnig nokkur þúsund reyniviðir. Þátttakendur í Hekluskógaverkefninu sem eiga eða leigja landspildur á svæðinu gróðursettu stóran hluta plantna, verktakar um 50 þúsund og unglingahópar úr verkefni Landsvirkjunar, Margar hendur vinna létt verk um 40 þúsund. Auk þessa komu nokkrir sjálfboðaliðahópar til viðbótar s.s. hópur frá Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd, Slóðavinir og nemendur frá CELL samtökunum. Töluvert var dreift af tilbúnum áburði á svæðinu eða um 33 tonnum og fór sá áburður mestmegnis á eldri grassáningar sem og birkigróðursetningar frá síðustu árum. Einnig var dreift kjötmjöli (150 tonnum), hænsnaskít (100 tonnum) og svínaskít (110 tonnum) á uppgræðslusvæði bæði í Þjórsárdal og á nyrsta hluta sáninga við Þjófafoss.

IMG_6167Tíðarfar hefur verið með eindæmum gott í vor og var júní sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Reykjavík og Stykkishólmi. Þurrkar voru í byrjun júní en nægur raki hefur verið síðustu vikur og hefur gróður verið óvenju vel útlítandi. Líklega spillir ekki fyrir að aska úr Eyjafjallajökli féll á stóran hluta Hekluskógasvæðisins og töluverð næring er í öskunni sem nýtist gróðri.

Þetta er fjórða sumarið sem unnið er að gróðursetningu á Hekluskógasvæðinu, en auk þess var gróðursett í tilraunalundi sumarið 2006. Eru þessar gróðursetningar orðnar nokkuð áberandi nú þegar og sjást birkihríslur víða um svæðið. Í úttekt sem gerð var á tilraunareitum frá 2006 sáust nokkrar plöntur með fræi og gætu þær plöntur því farið að sá sér út á næstu árum. Einnig má víða sjá afar smáar sjálfsánar birkiplöntur sem líklega eru að spretta upp af fræi frá hinu mikla fræári sem var árið 2008. Munu þessar plöntur líklega mynda þéttar nýgræður á næstu árum sér í lagi í nágrenni eldri birkiskóga.

Hekluskógar þakka samstarfsaðilum og þátttakendum kærlega fyrir samstarfið í vor með von um áframhaldandi samstarf á næstu árum.

Hér fylgja nokkrar myndir af starfinu í vor.

Áburði dreift og grasi sáð á Rangárvallaafrétti – verkefnið er unnið í samvinnu við Pokasjóð, Landbótasjóð og bændur á Rangárvöllum.

DSC02356

DSC02372 DSC02369

Gróðursett í Heklulund – Félagar úr St. Andrésarstúkunni Heklu og St. Jóhannesarstúkunni Mími hafa unnið að uppgræðslu á svæðinu síðan 2002.

DSC02334         DSC02322 DSC02323 DSC02324 DSC02329

 

Hópar frá UMF Selfoss hafa gróðursett undanfarin ár í Hekluskóga og komu þrír hópar á vegum ungmennafélagsins til Hekluskóga í vor. Gróðursettu hóparnir í svæðið sunnan afréttargirðingar í Þjórsárdal, frá Reykholti að Vegghömrum við Sandá.

DSC02288  DSC02278 DSC02239 DSC02235

Heimsóknir hópa – nokkrir hópar hafa heimsótt svæðið eins og undanfarin ár. Þessi hópur norskra skógræktarmanna úr Þelamörk skoðaði Hekluskógana í júní.

IMG_6670

Gróðursetning og uppgræðsla í fullum gangi hjá Hekluskógum (16.05.2010)

DSC02278Þessa dagana er gróðursetning í fullum gangi hjá Hekluskógum og eru uppgræðsluaðgerðir einnig að hefjast. Í vor er stefnt að því að gróðursetja rúmlega 210 þúsund plöntur mest  birki en einnig um 10 þúsund reyniviði. Dreift verður um 35 tonnum tilbúnum áburði sem og rúm 30 tonnum af kjötmjöli á eldri sáningar og gróðursetningarsvæði víðs vegar um Hekluskógasvæðið.

DSC02285

Nú eru 136 þátttakendur í Hekluskógaverkefninu sem fá birki- og reyniviðarplöntur í styrk til að gróðursetja í lönd sín, auk þess munu ýmsir hópar heimsækja verkefnið í maí og júní til að gróðursetja tré og græða land.

Um helgina störfuðu þrír hópar við verkefnið, þar var um að ræða hóp frá Slóðavinum sem græddi upp land á Vaðöldu, stúlkur úr 4. flokki í handbolta hjá Selfossi sem gróðursettu birki í Þjórsárdal og hópur fólks gróðursetti birki í Brekknaheiði ofan Gunnarsholts. Meðfylgjandi myndir segja meira en mörg orð um framlag hópanna.

Efri mynd sýnir Slóðavini gróðursetja nyrst í Vaðöldu á landsvæði sem grætt var upp með áburðargjöf sl. vor, og neðri mynd sýnir handboltafólk gróðursetja í sáningu frá 2006. Strókurinn úr Eyjafjallajökli rís í baksýn.

Öskugrár Hekluskógabíll (14.05.2010)

Aska hefur sem betur fer ekki fallið á Hekluskógasvæðið nema í örlitlu magni. DSC02269Bíll Hekluskóga varð þó fyrir barðinu á öskufalli þar sem hann stóð í Odda á Rangárvöllum s.l. föstudagsmorgun eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Ef gos heldur áfram má reikna með að einhvern daginn falli aska á uppgræðslur og trjáplöntur í Hekluskógum, en þó er ólíklegt að það verði til skaða fyrir gróður enda töluverð vegalengd í Eyjafjallajökulinn.

Afhending trjáplantna að hefjast (26.04.2010)


DSC01863Afhending plantna til þátttakenda í Hekluskógaverkefninu hefst um mánaðarmótin. Þá verður byrjað að afhenda frystar plöntur af birki og reyniviði. Eins og síðustu ár munu hjónin Sigurbjörg og Sveinn í Galtalæk 2 sjá um afhendingu plantna. Fyrst í stað verða afhentar frystar plöntur og þegar líður á maí plöntur afhentar í fjölpottaplöntum. Í vor verða gróðursettar um 200 þúsund plöntur og í haust 50 þúsund. Er þetta helmingi minna en í fyrra, en ríkisframlög til Hekluskóga lækkuðu um helming í fyrra og um 8% frá 2009-2010. Þrátt fyrir þessa lækkun verður verkefninu haldið áfram af fullum krafti og í ár verður meiri áhersla lögð á áburðargjöf á eldri gróðursetningar.

Eitt af mikilvægustu verkefnum vorsins hjá landeigendum er að líta eftir gróðursetningum síðustu ára. Þarf að ýta niður frostlyftum plöntum og bera áburð á þær. Nánari upplýsingar um frostlyftingu má finna á fróðleikssíðum Hekluskóga:Fróðleikur um frostlyftingu.

Eldgos í Eyjafjallajökli (22.03.2010)

20. mars síðastliðinn hófst gos á Fimmvörðuhálsi í Eyjafjallajökli. Þó gjósi svo fjarri Hekluskógasvæðinu er þetta gos ekki alls óviðkomandi verkefninu. Á síðustu öldum hefur öskufall úr sér í lagi Kötlu í Mýrdalsjökli dreift ösku yfir Hekluskógasvæðið. Síðast árið 1918 barst töluverð aska úr Kötlu yfir miðhluta Hekluskógasvæðisins og má t.d. finna öskulög frá því gosi í Hraunteigi og fleiri birkiskógarteigum. Ekki er ljóst á þessari stundu hvert framhald eldsumbrota í Eyjafjallajökli verður, þ.e. hvort Katla vaknar í kjölfar gossins, en ef af því verður þá standast Hekluskógar vonandi eldskírnina. Hekla sjálf er að sögn jarðeðlisfræðinga orðin það þanin að eldgos gæti hafist hvenær sem er. Þannig að menn vona hið besta en búast við því versta. Þar sem verkefnisstjóri Hekluskóga starfar bæði sem verkefnisstjóri og skógarvörður á Suðurlandi fylgist hann með framvindu mála í Eyjafjallajökli enda eru birkiskógarnir í Goðalandi og Þórsmörk hluti af umsjónarsvæðum Skógræktar ríkisins. Hér með fylgja nokkrar myndir af eldgosinu í Eyjafjallajökli.

DSC00439 DSC00442 IMG_5339b IMG_5355 IMG_5358

Vetrarvinna Hekluskóga (10.02.2010)

Einmuna blíða hefur verið undanfarnar vikur í Hekluskógum, stillur og hiti rétt um frostmark. Ættu sáningar og trjágróður því að þrífast nokkuð vel. DSC00744Þessar vikurnar vinnur verkefnisstjóri að skýrslugerð og greinaskrifum um Hekluskóga. Hekluskógar verða notaðir sem dæmi um endurheimtarverkefni í samnorrænu verkefni sem kallast RENO og verður fjallað um verkefnið í skýrslu um endurheimtarverkefni hér á landi sem út kemur á árinu. Ársskýrslugerð er í gangi og er verið að kortleggja gróðursetningarsvæði bæði úti við og samkvæmt upplýsingum sem þátttakendur í Hekluskógum hafa sent. Til stendur að halda námskeið fyrir þátttakendur í Hekluskógum og aðra áhugasama um uppgræðslu og skógrækt á rýru landi. Verður námskeiðið haldið 16. apríl í Gunnarsholti ef næg þátttaka fæst. Sjá nánar hér: Að breyta sandi í skóg – endurheimt skóglendis á örfoka landi – Gunnarsholt.

Enn vantar nokkuð af tómum 67 gata bökkum og eru þeir landeigendur sem enn hafa ekki skilað bökkum frá í sumar hvattir til að skila þeim hið fyrsta annað hvort í Gunnarsholt eða í Galtalæk 2.